12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4733 í B-deild Alþingistíðinda. (4117)

278. mál, kynning á líftækni

Flm. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir undir þetta mál. Ég ætla aðeins að koma að fáeinum atriðum um þá sem tilgreint er í þáltill. að skuli tilnefna menn í þessa nefnd. Ætla ég að lýsa því hvernig ég valdi þá.

Eins og sést af þessum lista eru þetta fulltrúar fyrir aðila sem ég tel að sérstaklega þurfi að kynna málið fyrir. Ég tel að það þurfi að kynna málið meðal vinnuveitenda, meðal nemenda í Tækniskólanum, meðal Sambands ísl. sveitarfélaga, meðal háskólakennara og háskólanema og meðal aðildarfélaga Alþýðusambandsins. Rannsóknaráð ríkisins er eini aðilinn, sem þarna er settur inn, sem er ekki beinlínis fulltrúi fyrir eitthvert svið. Síðan hafði ég hugsað mér að þessir aðilar sæju um kynningu á þessu máli í sínum samtökum, en nefndin gæti að öðru leyti aflað sér faglegrar aðstoðar þar sem hún er til, eins og á stofnunum. Við getum hugsað okkur auglýsingastofu þar sem eru til annaðhvort tæknileg eða fræðileg atriði sem skipta máli. Vafalaust mætti hugsa sér að þessi hópur væri stækkaður og inn í hann kæmu tæknifulltrúar fyrir ýmsar stofnanir sem búa þegar yfir þekkingu bæði til þess að fræða, eins og Iðntæknistofnun þar sem eru fræðsludeildir og stofnanir, eða eru með rannsóknir á þessu sviði. Það er meira en mögulegt.

Það sem ég sagði í sambandi við starfshóp Rannsóknaráðs má alls ekki túlka þannig, að ég sé að vanþakka það starf sem hann vinnur. Ég er bara að leggja sérstaka áherslu á að í ýmsum atriðum er ekki eftir neinu að bíða. Eins og Jón Bragi Bjarnason segir í lokaorðum sínum: Það er ljóst að meginniðurstöður könnunar Rannsóknaráðs verða þær sömu og könnunar iðnrn. fyrrum og reyndar allra kannana sem verða látnar fara fram í þessum málum, þ. e. að líftækni lofi góðu en að það sé þörf rannsókna. Þessar niðurstöður liggja alveg fyrir og að því leyti er ekki eftir neinu að bíða í sambandi við ákveðin undirbúningsstörf. Alsíðasta setningin í grg. Jóns Braga er sú, að ekki sé fært að bíða eftir niðurstöðum könnunar Rannsóknaráðs og tilvonandi jákvæðum viðbrögðum.

Ég tek mjög undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði um gylltar framtíðarsýnir. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að þarna gerist ekkert í hvellinum. Það sem menn átta sig kannske ekki á, og það er þess vegna sem ég tel að þurfi að kynna málið, er að líftækni er heilt svið aðferða sem sumar eru þegar í notkun. Við erum þegar með umfangsmikinn lífefnaiðnað á landinu í sambandi við ostagerð og í sambandi við alls konar mjólkuriðnað. Ef tillögur um bjór verða samþykktar bætist lífefnaiðnaði á Íslandi enn þá ein stór grein, sem yrði bjórframleiðsla. Þetta er allt saman lífefnaiðnaður. Í líftækninni höfum við allt sviðið, það sem þegar er notað og hefur verið notað kannske í árhundruð eða árþúsundir og allt til þess sem við vitum að verður ekki mögulegt fyrr en eftir áratugi, einhvern tíma langt fram á næstu öld. Þetta verðum við náttúrlega að hafa í huga. Sumt af þessu tekur tíma, sumt er hægt að gera með litlum aðdraganda, en þetta er mjög mismunandi.

Ég vil að lokum harma þær missagnir sem hafa greinilega orðið í sambandi við afdrif þáltill. frá 1982 og ég tel það ámælisvert af hálfu iðnrn. að hafa ekki leiðrétt þau orð sem voru af þess hálfu höfð frammi um þetta mál á sínum tíma. En það er kannske huggun harmi gegn að líklega hefur sagan um týndu þáltill. orðið framar öllu öðru til þess að lyfta þessu máli og orðið til þess að líftækni eða lífefnaiðnaður eru svo mikið á dagskrá sem raun ber vitni.