12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4734 í B-deild Alþingistíðinda. (4119)

287. mál, kennslugagnamiðstöðvar

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera fram till. til þál. um kennslugagnamiðstöðvar í öllum fræðsluumdæmum sem er 287. mál þessa þings á þskj. 550. Meðflm. mínir eru hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, Eiður Guðnason, Kristín Halldórsdóttir, Kristín S. Kvaran, Ólafur Þ. Þórðarson, Salome Þorkelsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta kanna hvernig best væri að haga samstarfi við samtök sveitarfélaga um að koma á fót kennslugagnamiðstöðvum í tengslum við fræðsluskrifstofur í öllum landshlutum. Kennslugagnamiðstöðvar hafi það meginverkefni að lána skólum námsgögn, kennslutæki og hjálpargögn þannig að öllum nemendum verði tryggður aðgangur að fjölbreyttum kennslugögnum hvar á landinu sem þeir búa.“

Mál þetta hefur a. m. k. einu sinni áður komið fyrir Alþingi. Í frv. til l. um breytingu á lögum nr. 63 21. maí 1974, um grunnskóla, sem lagt var fyrir Alþingi á 105. löggjafarþingi 1982–83 er í 39. gr. eftirfarandi heimildarákvæði: „Enn fremur er heimilt að setja á stofn kennslu- og skólasafnamiðstöðvar í fræðsluumdæmum í samvinnu við Námsgagnastofnun þar sem slíkt þykir henta að mati menntmrn.“ Frv. þetta hlaut ekki afgreiðslu.

Flm. þessarar till. sem nú liggur fyrir þingi telja að hér sé um svo brýnt mál að ræða að það megi ekki lengur bíða auk þess sem ljóst er að meira þarf til en óljós heimildarákvæði ef hrinda á þessu máli í framkvæmd. Flestum er kunnugt að verulegur munur er á aðstöðu barna til náms og kennslu hér á landi. Þessi þáltill. tekur á einum þætti þessa flókna máls, þ. e. aðstöðumun hvað varðar námsgögn, kennslutæki og önnur hjálpargögn. Skólar hér á landi eru afar misvel búnir hvað þetta varðar. Í þessu sambandi má vitna til könnunar er gerð var á vegum Félags skólastjóra og yfirkennara á aðstöðu og búnaði í skólum 1981. Í niðurstöðum hennar segir m. a., með leyfi forseta:

„Ekki er neitt einhlítt um hvar besta eða lakasta búnaðinn er að finna en víða virðast fámennustu kjördæmin, þ. e. Vestfirðir og Norðurland vestra, lakar búin. En þá verður að hafa í huga að einmitt í þessum kjördæmum eru margir smáir skólar.“

Um bókasöfn segir m. a.:

„Í þeirri þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum í endurskipan kennsluefnis og breyttum kennsluháttum er gott bókasafn meðal helstu forsendna þess að árangurs sé að vænta. Í ljósi þessa er niðurstaðan um skólasöfnin uggvænleg og mikið áfall fyrir þá aðila er bundið hafa vonir við þetta starf. Hvergi er meiri munur á aðstöðu en einmitt á þessum vettvangi er þó síst skyldi.“

Þar segir enn fremur:

„Skuggalegt er því að horfa upp á að af 168 skólum sem hér um ræðir skuli 42 skólar hafa 0–2 bækur á hvern nemanda, 16 skólar 2–4 bækur og aðrir 16 4–6 bækur, eða samtals hafa 74 skólar minna en 6 bækur á hvern nemanda.“

Í lögum nr. 63/1974, um grunnskóla, segir svo í 72. gr.:

„Við hvern grunnskóla skal vera safn bóka og námsgagna. ... Að skólabókasöfnum skal þannig búið, að því er varðar húsnæði, bókakost, önnur námsgögn og starfslið, að þau geti gegnt því hlutverki að vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu.

Í bóka- og námsgagnasafni eru bækur og annað prentað efni, kvikmyndir, myndræmur, skyggnur, glærur, myndsegulbönd og annað myndritað efni, enn fremur hljómplötur, segulbönd og annað hljóðritað efni, svo og hvers konar tæki til flutnings á þessu efni og framleiðslu í þau.“

Hér eru vissulega gefin fögur fyrirheit en spyrja má í fullri alvöru hvenær þess sé að vænta að slík aðstaða verði komin við alla skóla í landinu. Í því sambandi er vert að minnast þess að í rúmlega 100 skólum eru nemendur færri en 100 og í rúmlega 70 skólum eru nemendur færri en 50. Við 51 af rúmlega 220 grunnskólum starfa aðeins einn eða tveir kennarar. Ljóst er að sé þetta mál skoðað raunsæjum augum er þess seint að vænta að fullkomin skólasöfn rísi við alla skóla. Þau munu ekki í bráð eignast þau gögn og tæki sem talin eru upp í 72. gr. grunnskólalaga og til var vitnað hér á undan.

Þessi till. felur í sér leið til lausnar þess, þ. e. að litlir skólar ákveðnu svæði — jafnvel allir skólar á sama svæði — eigi saman ýmis þau gögn, tæki og áhöld sem hverjum einum skóla reynist ofviða að eignast upp á eigin spýtur eða ekki er ástæða til að hver skóli eigi. Hér er t. d. um að ræða ýmis dýr kennslutæki og hjálpargögn sem aðeins eru notuð í skamman tíma á hverju skólaári.

Rétt er að finna þessum gögnum samastað í tengslum við fræðsluskrifstofurnar í hverju fræðsluumdæmi, þaðan sem þau verði lánuð til skóla í umdæminu. Er við það miðað að það starfsfólk, sem þar er fyrir, muni a. m. k. að nokkru beina starfskröftum sínum í þennan farveg.

Til lengri tíma litið má jafnframt færa að því rök að auk margháttaðs ávinnings af starfi slíkra miðstöðva næðist beinn fjárhagslegur sparnaður af rekstri þeirra. Á það ekki síst við um ráðgjöf fyrir skóla um kaup á hentugum búnaði sem fengin væri reynsla af, en nú ræður oft kylfa kasti í innkaupum skólanna hvers um sig. Einnig hefðu kennslugagnamiðstöðvarnar til útlána ýmis tæki og gögn sem einstakir skólar ella keyptu.

Með því að byggja þessar miðstöðvar upp í fræðsluumdæmunum er þess einnig að vænta að finna megi í hverju tilviki hagkvæmustu leið við að dreifa gögnum frá kennslugagnamiðstöð út í skólana og halda kostnaði í lágmarki.

Þá ætti að gera ráð fyrir því að kennslugagnamiðstöðvar við fræðsluskrifstofurnar veiti kennurum og foreldrum ýmsa þjónustu svipaða þeirri sem veitt er í kennslumiðstöð Námsgagnastofnunar í Reykjavík. Þar verði gagnasmiðja fyrir kennara, aðstaða til fræðslustarfs, sýnilega og kynninga af ýmsu tagi.

Fleiri verkefni mætti fela kennslugagnamiðstöðvum ef henta þætti. Má þar m. a. nefna þjónustu við skólasöfn og aðstoð við uppbyggingu þeirra og sameiginleg innkaup á skólavörum fyrir skólana í umdæminu.

Nokkur reynsla er komin á starfsemi kennslumiðstöðvar þeirrar er Námsgagnastofnun hefur rekið frá því í maí 1982. Meginhlutverk þeirrar miðstöðvar hefur verið kynningar- og upplýsingaþjónusta fyrir kennara. Þar er unnið að því að koma á fót gagnasafni fyrir allar námsgreinar, gagnasmiðju þar sem kennarar hafa aðstöðu til að búa til eigið námsefni. Haldnar hafa verið sýningar á námsgögnum, hjálpargögnum og skólabúnaði og efnt hefur verið til fræðslustarfsemi af ýmsum toga. Starfsemi þessi hefur mælst afar vel fyrir meðal kennara og aðsókn mörg þúsund kennara á hverju ári sannar að full þörf hefur verið fyrir þessa þjónustu. Aðeins einn starfsmaður er í kennslumiðstöðinni og hefur svo verið frá upphafi en það takmarkar vitaskuld mjög þjónustu við kennara utan stór-Reykjavíkursvæðisins.

Við rekstur kennslumiðstöðvarinnar í Reykjavík hefur og komið skýrt í ljós hversu mikil þörf er á að unnt sé að lána skólanum námsgögn. Um þessar mundir eru möguleikar kennara á þessu takmarkaðir og þá einkum bundnir við fræðslumyndadeild Námsgagnastofnunar, sendiráð og nokkrar stofnanir og félög sem halda uppi fræðslustarfsemi.

Skv. lögum ber Námsgagnastofnun að sjá nemendum á skyldunámsstigi fyrir ókeypis námsgögnum. Aðstæður Námsgagnastofnunar valda því að þau námsgögn, sem sú stofnun gefur út, duga engan veginn ein sér til að skóli verði vel búinn námsgögnum. Hér er því sveitarfélögum ætlað stórt hlutverk en ljóst er að aðstæður þeirra til að rækja það eru afar mismunandi.

Með þessari till. er alls ekki boðað að hverfa eigi frá því markmiði að í framtíðinni rísi skólasöfn við alla skóla. Má miklu fremur líta á kennslugagnamiðstöðvar sem mikilvægt spor í þá átt. Útlán námsgagna og kennslutækja munu stuðla að hagkvæmni við þá uppbyggingu. Í því sambandi má nefna að kennarar geta við innkaup á námsgögnum og kennslutækjum stuðst við þá reynslu sem fengist hefur og þannig metið mun betur en ella hvaða námsgögn þurfa að vera til í skólanum allt skólaárið. Það er því mikilvægt að ljóst verði að hér er um að ræða leið sem hefur í för með sér bætta þjónustu um leið og gætt er ýtrustu hagkvæmni.

Síðast en ekki síst er hér um að ræða mannréttindamál. Það er óverjandi með öllu að börn okkar skuli hafa svo misjafna aðstöðu til náms eftir búsetu eins og raun ber vitni. Nútíminn og framtíðin gera æ meiri kröfur til manna, bæði um fjölbreytta og sérhæfða menntun. Það er því hvorki boðlegt börnum þessa lands að draga þau svo í dilka hvað varðar undirbúning undir lífið né heldur hefur þjóðin efni á því.

Flm. þessarar till. vilja þakka Ingvari Sigurgeirssyni deildarstjóra hjá Kennslumiðstöð Námsgagnastofnunar fyrir góð ráð og ábendingar við gerð þessarar þáltill.

Að lokum vil ég, hæstv. forseti, leggja til að þessu máli verði vísað til hv. allshn. Sþ. að loknum umr.