03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa till., sem hér er til umr., um stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands. Það er auðvitað fráleitt við þessar aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu að Seðlabankinn fái óhindrað að reisa áfram sitt peningamusteri. Auðvitað mætti nefna fleiri aðila sem standa í óarðbærum fjárfestingum sem full ástæða væri einnig til þess að skoða frekar og á ég þá bæði við milliliði í landbúnaði og aukningu sem átt hefur sér stað í sambandi við verslunarhúsnæði og áfram virðist eiga að halda á þeirri braut að auka við verslunarhúsnæði og verslunarhallir sem fyrir eru. Auðvitað mætti skoða það líka í þessu samhengi. En meðan nægir peningar eru til til slíkra framkvæmda, m.a. þessarar byggingar Seðlabanka Íslands, þá eru t.a.m. engir peningar til í húsnæðismálin og ekki virðist hægt að leysa gífurlegan vanda húsbyggjenda. Það kemur m.a. fram í dag í Þjóðviljanum hjá hæstv. fjmrh. að markaður fyrir spariskírteini ríkissjóðs hefði verið erfiður og kaup lánastofnana á verðtryggðum bréfum ríkissjóðs heldur ekki skilað því sem vonast var til. Og hæstv. fjmrh. segir að því sjái hann engar lausnir til þess að afla fjár til húsnæðismálanna.

Þetta er auðvitað mjög alvarlegt sem hér kemur fram hjá hæstv. ráðh. En hæstv. fjmrh. hefur — og gerði það hér um daginn — lýst yfir stuðningi við efni þessar till. um að stöðva beri framkvæmdir við byggingu Seðlabanka Íslands og því ber auðvitað að fagna, því þar er t.a.m. til nokkurt fjármagn sem hægt væri að láta renna til húsnæðiskerfisins.

Í þáltill. sjálfri kemur ekki glögglega fram hvað hv. flm. hyggst fyrir að því er stöðvun framkvæmdanna varðar. Er það meining flm. að þessar framkvæmdir verði stöðvaðar fyrir fullt og fast? Það er talað um bara að stöðva nú þegar þær framkvæmdir við byggingu Seðlabankans sem ekki hefur verið samið um við verktaka. Eða hve lengi hyggst flm. leggja til að þessar framkvæmdir verði stöðvaðar? Ég gæti ímyndað mér að það væri full ástæða til þess að leggja til að það yrði a.m.k. næstu þrjú árin. Og ég tel einnig fulla ástæðu til að sú n., sem fær þetta mál til meðferðar, skoði það hvort ekki eigi að bæta við þessa till. eins og hún liggur fyrir hér frammi og gæti sú brtt. hljóðað eitthvað í þá átt að við þessa gr. bættist að ríkisstj. beiti sér enn fremur fyrir því að fjármagn sem ætlað var til framkvæmda á næsta ári og árinu 85 renni til Byggingarsjóðs ríkisins. Ég á sæti í þeirri n. sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar og ég mun hreyfa þessari brtt. þar og ef hún fær ekki undirtektir þar þá mun ég auðvitað skoða það að leggja fram brtt. í þessa veru þegar málið kemur aftur hér til meðferðar í Sþ.

En ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því úr því að ég sé að hann er hér í hliðarsal — hann hefur þegar lýst því yfir að hann sé tilbúinn til þess að standa að stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands — hvort hann hafi hreyft þessu máli inni í ríkisstj. og hvort það hafi fengið þá einhverjar undirtektir í ríkisstj. Og ef hann hefur ekki gert það hvort hann hyggist þá hreyfa þessu máli í ríkisstj. og beita sér þar fyrir því að það fái stuðning til þess að þetta mál nái fram að ganga. Og um leið vil ég gjarnan spyrja ráðh. að því með tilliti til þeirrar yfirlýsingar sem fram kemur í Þjóðviljanum í dag hvort hann væri einnig tilbúinn að beita sér fyrir því að það fjármagn, sem renna á í byggingu Seðlabanka Íslands næstu tvö til þrjú árin, renni þá í Byggingarsjóð ríkisins.