12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4738 í B-deild Alþingistíðinda. (4122)

291. mál, varnir vegna Skeiðarárhlaupa

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um varnir vegna hættu af Skeiðarárhlaupum, en ásamt mér eru flm. að þessari till. Egill Jónsson, hv. 11. landsk. þm. og Tómas Árnason, hv. 4. þm. Austurl. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa aðgerðir til að unnt verði að koma hið fyrsta upp fyrirhleðslum sem dregið geti úr hættu á tjóni vegna Skeiðarárhlaupa í samræmi við tillögur almannavarnanefndar Austur-Skaftafellssýslu og Vegagerðar ríkisins.“

Í grg. með till. er að finna rökstuðning fyrir flutningi hennar, en þar segir m. a.:

„Vaxandi hætta er á að Skeiðarárhlaup valdi verulegu tjóni á þeim mannvirkjum sem reist hafa verið á Skeiðarársandi og þeirri aðstöðu sem vaxið hefur upp í skjóli þeirra. Á það við um brúarmannvirki og varnargarða er þeim tengjast, þjónustumiðstöð Náttúruverndarráðs í þjóðgarðinum með tjaldstæði og húsum og mikið landsvæði austast á Skeiðarársandi sem fengið hefur skjól af varnargörðum og gróið talsvert upp undanfarin 10 ár. Ekki hefur enn verið gert við skemmdir sem urðu á varnargörðum og straumbrjótum í tveimur síðustu Skeiðarárhlaupum og auk þess er brýnt að reisa viðbótargarða við Skaftafellsbrekkur til að auka m. a. öryggi fyrir þjónustumiðstöð Náttúruverndarráðs.“

Þá er vikið að breytingum sem orðið hafa á jarðhitasvæðinu í Grímsvötnum sem ýta undir það að brugðist verði við. Þau breyttu viðhorf kalla að mati flm. á skjótar úrbætur á fyrirhleðslum því að of seint er að hefjast handa eftir að hlaup er hafið í Skeiðará. Almannavarnanefnd Austur-Skaftafellssýslu hefur haft miklar áhyggjur af stöðu mála vegna Skeiðarárhlaupa að undanförnu. Nefndin sótti m. a. um fjárveitingu til Alþingis í nóv. 1983 að upphæð 8.7 millj. kr. til að treysta varnarvirki á Skeiðarársandi. Hafði áður fengist vilyrði stjórnar Viðlagatryggingar um fjárframlag til jafns við það sem fengist úr ríkissjóði. Fjvn. hv. treysti sér ekki til þess að gera till. í sambandi við fjárlagagerð ársins 1984 í samræmi við beiðni almannavarnanefndarinnar. Bæði var að óskin var nokkuð seint fram komin, erindið dagsett 22. nóv. 1983, og fyrri hluta des., um það leyti sem nefndin hafði erindi þetta til meðferðar, hófst óvænt hlaup í Skeiðará og mun málið ekki hafa verið talið jafnaðkallandi af þeim sökum. Ekki var um að ræða að unnt væri að bregðast við vá af því hlaupi, sem varð minna en oft hefur orðið hér á árum áður og olli ekki teljandi tjóni. Nú má hins vegar ekki dragast að undirbúnar verði aðgerðir til að varna tjóni af næstu Skeiðarárhlaupum og því er þessi þáltill. flutt.

Með þáltill. er að finna allmörg fskj. til þess að auðvelda hv. þm. og þeirri n. sem fær mál þetta til meðferðar skilning á nauðsyn þess og hvernig að undirbúningi hefur verið staðið. Þar er að finna í fyrsta lagi bréf almannavarnanefndar Austur-Skaftafellssýslu til fjvn. frá 22. nóv. 1983 og mörg erindi sem fylgdu því bréfi, m. a. til Almannavarna ríkisins. Ég vek athygli á því að málið var raunar upp tekið af hálfu almannavarnanefndar Austur-Skaftafellssýslu við almannavarnaráð þegar haustið 1981 með bréfi þann 6. okt. það ár. Í svari almannavarnaráðs frá 19. nóv. 1981, sem einnig er birt sem fskj., kemur fram að almannavarnaráð er sammála áliti almannavarnanefndar Austur-Skaftafellssýslu varðandi hættuna á að Skeiðarárhlaup geti valdið skemmdum á mannvirkjum sem reist hafa verið í skjóli fyrirhleðslugarða, og lagði ráðið þá til að erindið yrði tekið upp við Viðlagatryggingu Íslands. Var almannavarnaráð reiðubúið að mæla með jákvæðri afgreiðslu þess þar, og fékkst hún innan Viðlagatryggingar sem gerði bókun á fundi sínum snemma á árinu 1982 um að veita fjárframlag til aðgerða til jafns við það sem fengist frá ríkissjóði, eins og fram hefur verið tekið.

Þá er einnig meðal fskj. bréf frá hreppsnefnd Hofshrepps, dags. 29. okt. 1983, þar sem er eindreginn stuðningur við þetta mál. Segir þar í niðurlagi, með leyfi forseta:

„Frekari dráttur á þessum framkvæmdum býður því heim þeirri hættu að Skeiðarárhlaup geti brotist í gegnum varnargarða og valdið stórtjóni á mannvirkjum í Skaftafelli og gróðurlendi í Hofshreppi því að á söndunum austan Skeiðarár eykst nú gróður ár frá ári við friðun fyrir ágangi árinnar vegna brúarmannvirkjanna.“ Þetta var tilvitnun í erindi hreppsnefndar Hofshrepps til almannavarnaráðs.

Þá er að geta bréfs og grg. frá Vegagerð ríkisins, dags. 22. nóv. 1983, þar sem er að finna ítarlegar tillögur Vegagerðarinnar varðandi aðgerðir á sandinum, styrkingu fyrirhleðslugarða og straumbrjóta og byggingu nýrra garða við Skaftafellsbrekkur til þess að verja mannvirki innan þjóðgarðs og að varna því að vatnsflaumur brjótist austur yfir til tjóns á þeim og víðfeðmu landsvæði sem gróið hefur upp nú þegar verulega á síðustu tíu árum. Skv. kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar s. l. haust var kostnaður metinn á samtals 17.3 millj. kr. og það var um helming þeirrar upphæðar sem almannavarnanefnd Austur-Skaftafellssýslu óskaði eftir framlagi til í erindi sínu til fjvn.

Þá vek ég athygli á fskj. III með þessari þáltill. sem er bréf frá Helga Björnssyni jöklafræðingi varðandi Grímsvatnahlaup, þar sem fram kemur að engin ástæða sé til þess að ætla að Grímsvatnahlaup séu úr sögunni, þótt smáhlaup falli nú, og á hann þá við það hlaup sem stóð yfir í des. s. l., þegar hann ritaði sína grg. og sagði í bréfinu m. a.:

„Vegna þessara breytinga á hegðun Grímsvatna er ekki unnt að spá með nokkurri vissu um framvindu Skeiðarárhlaupa fyrr en ljósara verður með rannsóknum hvers eðlis breytingarnar í Grímsvötnum eru.“

Af þessu er ljóst að nauðsynlegt er að búa sig undir breytingar á hegðun Skeiðarár og þyrfti raunar ekki meira en meðalhlaup til við núverandi aðstæður til þess að rjúfa varnargarðana á sandinum til stórfellds tjóns á mannvirkjum og landi. Helgi Björnsson segir einmitt í niðurlagi síns bréfs eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Jökulhlaup munu því falla frá Grímsvötnum á komandi árum sem hingað til. Um stærð þeirra mun hér ekki spáð, en ef jöklar vaxa má búast við stærri hlaupum en nú falla og aukinn jarðhiti gæti haft sömu áhrif þegar til lengdar lætur. Auk þess vekur aukin eldvirkni við Grímsvötn þann ugg að eldur gæti komið upp norðan Grímsvatna. Þá hlypi bræðsluvatn tafarlaust niður í Vötnin og stórhlaup gæti hlotist af ef hátt er í þeim. Þetta gerðist síðast árið 1938.“

Herra forseti. Ég vænti þess að till. þessi fái þinglega meðferð og jákvæða afgreiðslu í meðferð þingsins, því að hér er um mjög brýnt mál að ræða að mínu mati, og eins og ekki þarf að fjölyrða um í ljósi þeirra umsagna og erinda sem fylgja till. Ég legg til að eftir að umr. hefur verið frestað um málið þá verði till. vísað til hv. fjvn.