13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4745 í B-deild Alþingistíðinda. (4133)

157. mál, húsaleiga

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Á þskj. 227 er frv. til laga um húsaleigu sem fylgir breytingum vísitölu húsnæðiskostnaðar. Ég mæli fyrir þessu frv. sem ráðherra Hagstofunnar, en frv. er flutt til staðfestingar á brbl. um sama efni sem gefin voru út 22. apríl á s. l. ári, þá af hæstv. forsrh. sem jafnframt fór með málefni Hagstofu Íslands.

Með því að fyrir lá að vísitala húsnæðiskostnaðar frá 1968 var orðin ónothæf sem mælikvarði til ákvörðunar verðbóta á húsaleigu var talið rétt að koma á fót nýju kerfi til að gegna þessu hlutverki, sbr. 2. og 3. gr. brbl. Talið var eðlilegt að húsaleiga samkv. leigusamningum, er lögin tækju til, skyldi fylgja hlutfallslegum breytingum meðallauna á næstliðnum þremur mánuðum og breytast, eins og verið hefur, ársfjórðungslega frá byrjun mánaðanna júlí, október, janúar og apríl. Hagstofan skyldi tilkynna opinberlega hver þessi breyting væri hverju sinni.

Skiptin frá hinni gömlu vísitölu húsnæðiskostnaðar til hinnar nýju tilhögunar voru, eins og við var að búast, ýmsum vandkvæðum bundin. En vel rættist úr. Hagstofan leiðbeindi, aðallega í símtölum, fjölda fyrirspyrjenda. Þegar fyrir lá að breytingin leiddi til ósanngjarnrar niðurstöðu benti Hagstofan á eðlilega lausn sem oftast var samþykkt af leigusala og leigutaka.

Auk hækkunar þeirrar húsaleigu frá 1. maí 1983, en þá höfðu lögin tekið gildi, sem ákveðin var í brbl., hefur húsaleiga, sem þau taka til, hækkað um 8.2% 1. júlí 1983 og 4% 1. jan. 1984 eða sem svarar því sem laun hækkuðu almennt frá 1. júní og 1. okt. 1983 skv. brbl. nr. 54 27. maí 1983.

Að öðru leyti en því sem ég hef hér sagt vísa ég til þeirrar ræðu sem ég flutti við 1. umr. um mál þetta í Nd., en hv. fjh.- og viðskn. Nd. afgreiddi mál þetta samhljóða. Vænti ég þess að svo geti orðið hér því lagasetning þessi hefur vissulega orðið til bóta og skilað þeim árangri sem til var ætlast.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að fara fram á að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. að lokinni þessari umr.