13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4745 í B-deild Alþingistíðinda. (4135)

314. mál, sjúkraliðar

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem ég mæli hér fyrir um sjúkraliða er samið í rn. að beiðni Sjúkraliðafélags Íslands. Það er þáttur í þeirri viðleitni heilbrigðisyfirvalda að vernda starfsheiti og réttindi hinna ýmsu heilbrigðisstétta í sérstökum lögum og þar af leiðandi kveða á um skyldur þeirra, en löngum er viðurkennd nauðsyn þess þar sem krafist er náms og starfsreynslu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara sérstökum orðum um þetta frv., heldur vísa til hliðstæðra laga um aðrar heilbrigðisstéttir og þess sem fram kemur í aths. við þetta frv. Ég vil þó sérstaklega undirstrika að ekki er hér verið að kveða á um breytta skipan þessara mála frá því sem er. Þannig er ráð fyrir því gert að sjúkraliðar starfi undir stjórn og á ábyrgð hjúkrunarfræðinga, þ. e. hlutverk þeirra verði hið sama og áður. En við í rn. töldum rétt að verða við beiðni Sjúkraliðafélagsins um að flytja þetta frv. sem er um réttindi og skyldur félaga þess, en þetta er að verða með fjölmennari heilbrigðisstéttum.

Ég vil því leyfa mér að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. um leið og ég óska eftir því við hv. n. að hún reyni að hraða sem föng eru á afgreiðslu þessa máls.