13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4746 í B-deild Alþingistíðinda. (4137)

315. mál, ljósmæðralög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Gildandi ljósmæðralög eru að grunni til frá árinu 1933 og því komin nokkuð til ára sinna. Eins og fram kemur í aths. við þetta frv. eru mörg ákvæði gildandi laga úrelt og hafa í reynd ekkert gildi vegna síðar til kominna laga. Það er þarflaust að mínum dómi að rekja það hér nánar.

Ljósmæðrafélag Íslands hefur farið þess á leit við rn. að flutt yrði frv. um réttindi og skyldur ljósmæðra og hefur rn. orðið við þeirri ósk félagsins. Þetta frv, er samið í rn. og er að verulegu leyti byggt á tillögum Ljósmæðrafélags Íslands.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um þetta frv., heldur vísa ég til hliðstæðra laga um aðrar heilbrigðisstéttir og þess er fram kemur í aths. við frv. En ég minni á að starfsheitið „ljósmóðir“ er eitt af elstu starfsheitum í íslenskri sögu. Störf ljósmæðra hafa að sönnu breyst í tímanna rás, ekki síst á síðustu árum eftir tilkomu heilsugæslustöðvanna, en grundvallarstörfin eru hin sömu og ég tel rétt að skipa þeim á sama hátt og áður, þ. e. að ljósmæður starfi við eftirlit með barnshafandi konum, foreldrafræðslu um meðgöngu og fæðingu og að fæðingarhjálp og mæðravernd. Ljósmæðrum hafa farist verk þessi vel úr hendi.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég minna á að fyrir skömmu mælti ég fyrir frv. til l. um Ljósmæðraskóla Íslands. Vissulega eru þessi frv. ekki af nákvæmlega sama toga, en rétt er að líta á þau í tengslum hvort við annað.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. að lokinni þessari umr. og til 2. umr. og vænti þess að hv. n. reyni að hraða afgreiðslu þessa máls eins og frekast er kostur.