13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4747 í B-deild Alþingistíðinda. (4139)

176. mál, skipan opinberra framkvæmda

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég er út af fyrir sig fylgjandi þessu frv. og hlynntur því að það verði samþykkt. Ég verð að viðurkenna að ég sé samt sem áður ekki neinn stórkostlegan árangur fylgja því og hefði reyndar kosið, og er þess vegna kominn hér í stólinn, að fjallað hefði verið um þetta mál með svolítið öðrum hætti.

Þannig háttar nefnilega til að í lögum um opinberar framkvæmdir er ákveðin grein sem ég held að hefði komið að mjög miklu gagni á undanförnum árum ef eftir henni hefði verið farið. Það er kannske ekki beint hlutverk Alþingis að úttala sig um að framkvæmdavaldið fari að lögum, en hér hefði þurft, að ég tel, að hnykkja á því með ákveðnum hætti að farið væri að þeim lögum sem fyrir eru.

Í 20. gr. laga um opinberar framkvæmdir og fasteignir ríkisins frá 1970 segir svo, með leyfi hæstv. forseta, í 20. gr. um skilamat:

„Að lokinni verklegri framkvæmd og úttekt skal fara fram skilamat. Í matinu skal gerð grein fyrir því, hvernig framkvæmd hefur tekist miðað við áætlun. Enn fremur skal þar gerður samanburður við hliðstæðar framkvæmdir, sem þegar hafa verið metnar. — Ríkisendurskoðun setur nánari reglur um fyrirkomulag skilamats og sér um það, að grg. um skilamat séu lagðar fyrir fjvn. Alþingis, samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og eignaraðila.“

Mér er kunnugt um að þegar hafa verið uppi ákveðnir tilburðir til að standa að þessu skilamati, m. a. hefur framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins keypt sér forláta tölvu til þessara verka. En í þessari tölvu er enn þá samt enga vitneskju að finna eða þekkingu. Hún er alveg jafngaltóm, að því mér skilst, og þegar hún var keypt. Þetta er að því leyti mjög alvarlegt að annars vegar göngum við þeirrar trúar að það sé eðlilegt og sjálfsagt að bjóða út verklegar framkvæmdir, og í grundvallaratriðum hlýtur það að vera réttur skilningur, en hins vegar hljóta menn líka að verða að ætla sér að læra eitthvað af reynslunni. Og að það skuli aldrei hafa farið fram nokkurt mat á því hver hinn raunverulegi árangur einhvers útboðs var endanlega er alveg stórmerkilegt og nánast furðulegt þegar hugsað er til þess að búið er að halda úti fjölda manna í fjöldamörg ár til að sinna þessu verki, en því hefur aldrei verið skilað. Þetta þýðir nánast að útboð fara fram ár eftir ár með nokkurn veginn alveg sama hætti án þess að menn læri af reynslunni.

Ég tel að þó það verði ekki gert í þessu tilviki sé mjög nauðsynlegt að koma því til leiðar, hvort sem það er með þinglegum hætti eða öðrum, að réttar aðferðir verði teknar upp og gengið frá útboðum eins og lög kveða á um og að ýtt verði á eftir fleiri atriðum þessara laga sem ekki eru alltaf uppfyllt, eins og t. d. þeim ákvæðum 7. gr. laganna þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

Rekstraráætlun á að fylgja áætlanagerð og nái hún til minnst fimm ára eftir að framkvæmd er lokið.

Á þessu eru mikil vanhöld. Held ég að í yfir 90% tilfellum liggi slíkar rekstraráætlanir ekki fyrir og ef þær liggja fyrir séu þær afskaplega ómerkilegar og lítt marktækar.

Það má mjög margt um hlutverk Innkaupastofnunar ríkisins, og þá sérstaklega framkvæmdadeildarinnar, segja. Ég býst við að menn hafi tekið eftir því, eða kannske muna þeir það ekki lengur, að við í BJ lögðum til við gerð fjárlaga fyrir jól að þessi stofnun yrði lögð niður því að hún hefur nánast engum árangri skilað öðrum en að sinna því sem kallast byggingareftirlit og hefði mátt framkvæma af hvaða aðila sem er. Þannig séð held ég að þessi nýja grein sem í frv. felst breyti engu öðru en því að það misskilst ekki lengur að þó að einstakar ríkisstofnanir hafi sjálfar umsjón með sínum verkum þurfi jafnframt að vinna þau á grundvelli útboðs.

Það hefur oft verið gagnrýnt og það er mjög almennt einkenni á starfi hins opinbera að markmiðum hagræðingar, markmiðum þess að ná sem mestu með sem minnstum tilkostnaði er ekki sinnt nægilega. Það hlýtur að vera hlutverk löggjafans öðrum þræði að binda þannig baggana að ekki sé verið að sinna verkefnum sem opinberum aðilum eða framkvæmdaaðilum er falið að sjá um, þá á ég við framkvæmdavaldinu, öðruvísi en að það skili tilætluðum árangri. Þá höfða ég ekki hvað síst aftur til aths. minna um framkvæmd þessara laga, þ. e. sérstaklega V. kafla laganna, um skilamat á opinberum byggingum.