13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4751 í B-deild Alþingistíðinda. (4150)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð.

Ég skrifaði undir þetta nál. og hlýt að haga minni afstöðu í samræmi við það. Þeir aðilar sem hér hafa mestra hagsmuna að gæta hafa náð saman um lausn í menntunarmálum þessarar ágætu stéttar, sem á svo langa og farsæla sögu að baki í okkar þjóðlífi. Brtt. þeirra við upphaflegt frv. hafa einnig verið teknar til greina, eins og hv. framsögumaður n. kom inn á, og hæstv. ráðh. hefur samþykkt þær. Ég hlýt að taka megintillit til vilja þessara aðila, sem lengi hafa fjallað um menntunarmál stéttarinnar og borið hag hennar fyrir brjósti framar öðru. En ég hlýt einnig að gera það með nokkrum fyrirvara, svo sem e. t. v. er um okkur öll í n. og kom sér í lagi fram á fundum okkar hjá hv. 11. þm. Reykv. Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur, sem sat þar sem áheyrnarfulltrúi. Mér þykir sem sé alllangt seilst til menntunarkrafna og námstímalengdar með þessari skipan.

Staða ljósmóðurinnar í heilbrigðisþjónustunni er vissulega mikilvæg og skal hvergi úr því vægi dregið. Nauðsyn góðrar undirstöðumenntunar, góðrar reynslu og sem bestrar námsaðstöðu er heldur hvergi dregin í efa. Ég vil einmitt sjá veg þessarar stéttar sem mestan og aðbúnað og kjör sem best. En ég vil líka hafa það tryggt að hinnar góðu þjónustu þeirra sé unnt að njóta sem allra víðast, að hvarvetna um landið sé auðvelt að ná fundum þeirra og njóta starfskrafta þeirra í heilbrigðisþjónustunni almennt sem og á sérsviði þeirra. Ég þekki og hef þekkt margar konur úr þessari stétt, bæði eystra og víðar, afbragðs starfsfólk, nærfærið og samviskusamt, að vísu með takmarkaða menntun og nokkuð einhliða að baki, en vel að sér og fyllilega sínum vanda vaxið, ekki bara á sínu sérsviði, heldur einnig varðandi fjölmarga aðra þætti heilsugæsluþjónustu okkar.

Varðandi menntunina mátti sannarlega verða breyting til batnaðar um fullkomnari menntun og fjölbreyttari. Við erum hér hins vegar að leggja til sex ára háskólanám að loknu stúdentsprófi sem gæti að vísu með einhverri samþættingu námsins á háskólastigi styst niður í fimm ár. Ég hlýt að spyrja sjálfan mig með nokkrum efa hvort hér sé offari haldið á menntunarmálum og hvort mesta nauðsynin í þeim sé þessi. Ég bendi einnig á að með tilkomu heilsugæslubrauta í fjölbrautaskólum okkar mun viðkomandi hafa að baki að hluta til eða eingöngu sérnám í átta ár. Ef við bætum við tveimur síðustu árunum á heilsugæslubrautinni í fjölbrautaskólanum, þar sem mjög verulega er inn á visst sérnám farið varðandi heilsugæsluþjónustuna, þá er sérnám í átta ár staðreynd þegar upp er staðið.

Ég skal hvergi mæla á móti góðri menntun. En tímalengd segir aldrei allt. Um leið og ég fylgi frv., af því ég treysti dómgreind og góðum vilja þessa fólks sem hefur hér um vélt, m. a. og sér í lagi ljósmæðra sjálfra, þ. e. stéttarinnar í heild, hvort sem þar er um að ræða háskólamenntaðar ljósmæður eða þær sem eru með hina minnstu ljósmæðramenntun, þær hafa einróma lagt þetta til, hlýt ég samt sem áður að láta uppi efa um þetta atriði, og spurningar leita á hugann um tilgang og afleiðingar því meginmarkmiðið hlýtur að vera að mennta þessa stétt sem best og um leið að starfs hennar sé notið af landslýð öllum bæði á sérsviði sem í heilsugæslunni almennt.

Ég spyr því sjálfan mig enn og aftur við afgreiðslu þessa máls, hvort við séum hér endilega á þeirri einu réttu leið. Ég hygg að rétt væri í ljósi reynslunnar að þessi mál yrðu tekin upp aftur til endurskoðunar og nýrrar athugunar svo við rötum hvergi í öngstræti með þessi mál. Það er áreiðanlegt að allra síst er það ætlan þeirra sem hér hafa um fjallað og eiga þarna mestra hagsmuna að gæta, þeirrar stéttar sem við viljum svo sannarlega að sé vel menntuð og hafi sem besta aðstöðu til að neyta starfskrafta sinna í heilsugæsluþjónustu okkar almennt.