13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4752 í B-deild Alþingistíðinda. (4151)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Enda þótt það hafi komið fram í máli hv. 2. þm. Austurl. vil ég jafnframt taka það fram að efasemdir blunduðu í mínum huga um að hér væri staðið að með þeim hætti sem heppilegast gæti talist. Það er rétt, sem fram kom í máli hv. þm., að menntun ljósmæðra er að þessu frv. samþykktu orðin býsna tímafrek. Hitt er á að lita, að ljósmæður bera í raun læknisfræðilega ábyrgð í gjörðum sínum. M. a. af þeim sökum er auðvitað full ástæða til þess að þær njóti góðrar menntunar. Ég viðurkenni að tímalengd menntunarinnar segir ekki allt í þeim efnum.

Það hefur komið fram í umr. um þetta mál að síðustu tvö ár hafa allir nemendur í Ljósmæðraskóla Íslands verið hjúkrunarfræðingar, þannig að að hluta til a. m. k. erum við með samþykkt þessa frv. að viðurkenna staðreyndir. Síðan 1970 hafa langflestar ljósmæður, sem útskrifast hafa, haft að baki hjúkrunarfræðimenntun.

Í sambandi við menntun ljósmæðra hafa verið gerðar samþykktir m. a. á vegum Evrópuráðsins, sem ég fer ekki að fjalla um hér.

Hv. þm. Helgi Seljan gat um að þessi mál yrðu vafalaust tekin til endurskoðunar og tek ég undir það. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en svo verði þegar undanfari þessa náms verður kominn inn í Háskólann. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þm., að þegar það er komið til fullra framkvæmda eru líkur á að heildartímalengd námsins muni styttast.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að ræða þetta frekar. Ég vildi að það kæmi fram og ég ítreka að það varð samstaða um málið, enda þótt ég telji að það hafi blundað efi og geri það enn í hugum flestra ef ekki allra nm. í heilbr.- og trn. um þann langa námstíma sem frv. gerir ráð fyrir.