13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4753 í B-deild Alþingistíðinda. (4154)

276. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Hv. fjh.- og viðskn. Ed. hefur skoðað þetta mál allrækilega og notið aðstoðar fjmrn. m. a. Það náðist ekki samkomulag um afgreiðslu þess þó að reynt væri á það. Meiri hl. nm. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem hann flytur á sérstöku þskj., en minni hl. skilar séráliti. Meiri hl. mynda Eyjólfur Konráð Jónsson, Valdimar Indriðason, Eiður Guðnason, Ragnar Arnalds og Jón Kristjánsson. Lárus Jónsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins, en hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir skilar séráliti og bendir þar m. a. á að hún telji ekki að nægilegar upplýsingar hafi verið komnar í málinu. Hv. þm. Stefán Benediktsson sat fundi n. og er sammála nál. minni hl. Mun hann væntanlega gera grein fyrir sinni afstöðu.

Þetta mál er ekki bara flókið vegna þess að það er kjaramál. Þau eru alltaf flókin og viðkvæm. Við heyrðum það á aðalfundi Þjóðvinafélagsins í gær t. d. að frá gamalli tíð, og við heyrum og lesum það daglega enn, deila menn um kjör sín. Það er líka flókið vegna þess að það hafa verið gerðar svo margháttaðar breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna að það er heill frumskógur að lesa sig í gegnum það. Þess vegna tók ég það ráð að flytja hér brtt. til að ráða á þessu bót og hún hljóðar svo:

„Þegar lög þessi hafa hlotið staðfestingu skal fella meginmál þeirra inn í lög nr. 46/1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.“

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það verði gert til að almenningur geti skilið hvað hér er á ferðinni. Þarna kemur raunar enn einu sinni í ljós hve bagalegt það er þegar lengi dregst að gefa út lagasöfn og slík ákvæði eru dreifð í óteljandi bókum.

Ég tel rétt, vegna þess að það er dálítið erfitt að átta sig á þeim breytingum sem nú er verið að leggja til að gerðar verði, að ég lesi upp úr 1. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar segir að ákvæði laganna taki ekki til - og síðan kemur upptalning í tölulið 1 og mundi verða með þeim breytingum sem hér hefur verið lagt til að gera á þann veg að ákvæði taki ekki til: ráðherra, hæstaréttardómara, ríkissaksóknara, ráðuneytisstjóra, rektors Háskóla Íslands, lögreglustjórans í Reykjavík, ríkisskattstjóra, biskups Íslands, póst- og símamálastjóra, yfirsakadómara í Reykjavík, yfirborgardómara í Reykjavík, yfirborgarfógeta í Reykjavík, tollstjórans í Reykjavík, tollgæslustjóra, borgardómara, borgarfógeta, sakadómara, héraðsdómara, rannsóknarlögreglustjóra, flugmálastjóra, forstjóra ríkisspítala, orkumálastjóra, rafmagnsveitustjóra ríkisins, vegamálastjóra, sendiherra, skattrannsóknastjóra, verðlagsstjóra né þeirra ríkisskattanefndarmanna sem hafa nefndarstörf að aðalstarfi. — Þannig mundi greinin sem sagt hljóða.

Það er ljóst að nú vilja menn mjög gjarnan komast undan ákvæðum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem opinberir starfsmenn lögðu þó mikla áherslu á að gerðir yrðu á sínum tíma, og komast heldur undir kjaradóm. Þetta er kannske einkennileg þróun og kannske fer það svo að menn snúi alla leið til baka og telji best að gamla lagið verði á þessu þegar fram í sækir, að launalög verði sett af Alþingi. Ekki veit ég hvort svo verður. En alla vega er ásókn í að komast í þennan hóp núna og mjög vandmeðfarið. En við reyndum okkar besta til þess að komast að heilbrigðri og eðlilegri niðurstöðu og leggjum til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum sem ég nú hef gert grein fyrir á þann hátt sem ég held að skýrast sé. Og ég legg til brtt. sem ég hef hér flutt eftir að ég fór með aðstoð starfsmanna Alþingis í gegnum þessi plögg og reyndi að komast til botns í frumskóginum. Ég held að það sé sjálfsögð breyting að fella þetta allt inn í eina og sömu löggjöfina.