13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4754 í B-deild Alþingistíðinda. (4155)

276. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Eins og í ljós kom í framsögu hv. 4. þm. Norðurl. v. er ég samþykkur áliti minni hl. fjh.- og viðskn. og ætla ég að gera grein fyrir hvernig á því stendur.

Ég ætla að byrja á að reyna að velta því fyrir mér hvers vegna þetta frv. er til komið. Ég þori að fullyrða að í raun hafa engir þm. haft beinan áhuga á að flytja frv. um þetta mál. Ég efast líka um að nokkrum ráðh. hafi dottið það í hug að fyrra bragði, heldur er hér trúlega um ákveðinn þrýsting viðkomandi embættismanna að ræða, og reyndar að því er mér skilst fleiri, sem æskja þess, eins og hv. 4. þm. Norðurl. v. orðaði það, að komast undan því að samið sé um laun þeirra í samningum opinberra samstarfsmanna. Það er eðli þessa máls og mér finnst það í hæsta máta óaðlaðandi og tel það vera megingallann á þessu máli öllu.

Allir þeir menn sem hér eru nefndir, nema í hæsta lagi ráðherrar og ríkisskattanefndarmenn hafa ákveðinn viðsemjanda að semja við. Ég get ekki séð með nokkru móti að þeir séu of fínir til að semja um sín kjör eins og gengur og gerist með opinbera starfsmenn, þ. e. að láta einhverja fulltrúa sína semja fyrir sig. Ég sé þess vegna ekki enn þá nein rök fyrir því að taka undir áhuga þessara manna á því að komast undan venjulegum kjarasamningum með þessum hætti.

Mér er tjáð, án þess að ég hafi fyrir því nokkra vissu, að hér búi að baki, a. m. k hvað suma þessara manna snertir, ákveðin vandamál í sambandi við lífeyri að loknu starfi, þar sem þeir hafi búið við það um mjög langt skeið að grunnlaun þeirra eru nánast ekki nema helmingur þeirra launa sem þeir fá borguð, en lífeyrissjóðsgreiðslur leggjast við þessi grunnlaun og þeir standi allt í einu frammi fyrir þeim óhugnanlega vanda að verða að lifa af 60% af þingmannslaunum, sem þeir telja með öllu ófært og þurfa endilega að fá breytt. Ég sel ekki þessa sögu reyndar dýrar en ég keypti hana.

En það er annað í þessu máli sem vekur líka athygli. Hér fara saman sjónarmið ansi margra, a. m. k. rita undir þetta fulltrúar hinna fjögurra gömlu flokka. Auðvitað er ekkert erfitt að skilja að fulltrúar þeirra flokka sem hvað lengst hafa tengst valdi hér á Íslandi, þ. e. Sjálfstfl. og Framsfl., undirriti slíkt plagg, þar sem hér eru á ferðinni þeir valdamenn sem oft hafa verið mest áberandi í íslensku þjóðlífi. Ég á samt sem áður afskaplega erfitt með að skilja hvernig þeir flokkar sem telja sig vera fulltrúa verkalýðsins á þingi geta fengið af sér að skrifa undir svona lagað og þá sérstaklega þeir sem telja sig fulltrúa jafnaðarmanna. Hér er ekki á ferðinni mál til jafnaðar, heldur er hér þvert á móti verið að búa til ákveðinn einkaklúbb embættismanna sem nánast geta látið ákveða sín laun með þeim hætti sem þeir kjósa. Eins og allir menn vita sitja í kjaradómi menn sem yfirleitt tengjast störfum þessara aðila mjög náið. Ég býst við að viðhorf þessara einstaklinga, sem hér er um að ræða, mundu breytast ansi mikið ef það yrði ákveðið á morgun að draga fimm menn úr Iðju og Dagsbrún inn í Kjaradóm og láta þá ákveða laun þeirra. Ég er hræddur um að þá snérust spjótin mjög fljótt og fram kæmi krafa um annars konar fyrirkomulag.

Það er annað líka sem ég hræðist í þessu máli. Ég hafði spurnir af því að orðinn væri alllangur sá biðlisti manna sem langar til að komast í þennan fína klúbb. Ég er mjög hræddur um að við eigum von á því að hér sigli inn frv., kannske á næsta þingi, um fjölgun í þessu fagra liði og þessum mönnum fjölgi jafnt og þétt þangað til skapast einhverjar þær aðstæður í þessu þjóðfélagi að þeir telji aftur gagnlegt að komast með öðrum hætti að niðurstöðu í sínum kjaramálum.

Eins og ég sagði í upphafi míns máls er ég mjög andvígur þessari þróun.