03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Það er nú af hreinni tilviljun sem ég er staddur hér á leið minni annað, því annars var ég með fjarvistarleyfi. En hv. þm. Jóhanna sigurðardóttir beindi til mín spurningum, sem ég vil gjarnan svara. Annað snertir ummæli mín — líklega eftir mér höfð í Þjóðviljanum í dag, þó ég hafi ekki séð Þjóðviljann, því hún vitnar í það blað, — varðar húsnæðismál almennt og kom fram í umr. í Ed. í gær vegna fsp. Ég svaraði þeirri fsp. þannig, að ef ríkisskuldabréf seldust ekki að því marki sem þau þurfa að seljast til þess að við leysum húsnæðisvandann væru ekki mörg úrræði önnur en að skera frekar niður ríkisútgjöld þar sem ekki kæmi til greina að taka frekari erlend lán, ekki kæmi til greina að yfirdraga frekar í Seðlabankanum og ekki heldur að leggja frekari skatta á fólkið. Það eru því tvær leiðir eftir. Það er að skera frekar niður ríkisútgjöld, og ég er tilbúinn með góðri aðstoð allra þm. að ganga til þess verks ef með þarf, eða hreinlega að viðurkenna að eina úrræðið sem þá er eftir er að húsbyggjendur verða sjálfir að draga í land og fresta sínum framkvæmdum. Við skulum ekki vera að blekkja okkur með því að halda að fjmrh., Alþingi eða ríkissjóður geti á neinn annan hátt leyst þessi vandamál. Peningarnir verða ekki til af sjálfu sér, en vandamálið er mikið, því verður fólk að fara að trúa.

Þetta er svar við fyrri spurningunni sem hv. 2. landsk. þm. beindi til mín í sambandi við umr. um Seðlabanka Íslands og stöðvun á byggingu þess húss.

Ég er hér með Ólafslög fyrir framan mig, þótt ég fengi nú ekki höfundinn sjálfan til að gefa mér eitthvað bitastætt í nesti hér upp í ræðustólinn nú, en þar stendur í 13. gr. III. kafla, um ríkisfjármál, svohljóðandi:

„Fjárlaga- og hagsýslustofnun skal annast hagsýslustarfsemi fyrir ríkisbúskapinn í því skyni að auka á hagkvæmni og ráðdeild í ríkisbúskapnum og í meðferð opinberra mála.

Meðal þess háttar verkefna fjárlaga- og hagsýslustofnunar skulu vera, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð:

1. Mat á fyrirhuguðum ríkisframkvæmdum með tilliti til arðsemi, kostnaðar, nytja og þjóðfélagslegs gildis.“ — Síðan heldur þetta áfram. Það eru fjórir liðir undir þessari grein.

Þetta eru sem sagt verkefni fjárlaga- og hagsýslustofnunar og eru í 13. gr. í III. kafla.

Í IV. kafla segir, með leyfi forseta, svohljóðandi: „Ríkisstj. skal leggja fyrir Alþingi fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir fyrir eitt ár í senn, og skulu þær fylgja fjárlagafrv. Áætlununum skal fylgja stefnumótun í meginatriðum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs sem fjárlagafrv. tekur til. Markmið áætlananna er að tryggja að heildarumsvif í fjárfestingu og þróun peningamála og lánamála samrýmist þjóðhagslegum markmiðum.“

Síðan heldur 15. gr. áfram:

„Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlunum skulu m.a. eftirtalin atriði koma fram:

1. Heildaráætlun um opinberar framkvæmdir og fjármögnun þeirra með framlögum á fjárl., eigin fjármögnun opinberra fyrirtækja og lánsfé, enn fremur um framkvæmdir annarra aðila.“

Ég sé ekki ástæðu til að lesa úr 15. gr. frekar, en þá kemur hér XII. kafli, Reglugerðarheimild, gildistaka o.fl., 65. gr. Þar er fyrst talað um heimildir forsrh. og síðan fjmrh. Þar segir:

„Fjmrh. er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd III. og IV. kafla.“

Ef þessum lögum og þessum reglugerðarheimildum samkv. XII. kafla hefur ekki verið breytt mun ég taka til alvarlegrar endurskoðunar hvort ég hef heimild til að breyta framkvæmdaröð Seðlabankabyggingarinnar, og ef samningur hefur verið gerður, eins og hæstv. bankamálaráðh. gat um í sinni ræðu, til lengri tíma en eins árs í senn, sem lög leyfa samkv. þessu, þá verður það skoðað sérstaklega.