13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4757 í B-deild Alþingistíðinda. (4174)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Við 1. umr. þessa máls komu fram býsna alvarlegar aths. við frv. sem aðallega voru fólgnar í tveimur atriðum: Í fyrsta lagi að taka fé almennu deildar Aflatryggingasjóðs úr verkefni sem sú deild hefur séð um til margra ára, sem var að tryggja sjómönnum lágmarkslaun ef um aflabrest var að tefla. Í öðru lagi voru aths. fólgnar í því að taka meira en allar eignir almennu deildar sjóðsins í það að flytja fjármagn, sem nemur 4% af fiskverði, yfir í Stofnfjársjóð fiskiskipa, inn á reikning hvers skips eftir afla, án þess að þessi verðmæti kæmu til skipta. Það var sem sagt flutt eingöngu til útgerðarinnar, sem þýðir að nú koma aðeins til skipta milli útgerðar og sjómanna 59 fiskar af hverjum 100.

Sannleikurinn er sá, að hlutur sjómanna hefur minnkað mjög á undanförnum árum vegna minni afla. Við það ræður löggjafarsamkoman ekki. Fyrir því eru náttúrlegar ástæður. Hins vegar hefur sjómönnum alls ekki verið bætt að neinu það tekjutap sem þeir hafa orðið fyrir, sem er annað en hefur gilt um ýmsar aðrar vinnustéttir.

En það er ekki látið duga. Í fyrra var aukin mjög kostnaðarhlutdeild sjómanna og með því að taka nú 4% í viðbót af þessum fjármunum utan skipta er hlutur sjómanna, skiptaverðið, orðinn minni en 60%. Þetta er ákaflega alvarlegt mál.

Virðulegi forseti. Á þskj. 646 er nál. frá minni hl. sjútvn. Í þessum minni hl. eru tveir hv. alþm., sá sem hér stendur og hv. 4. landsk. þm. Guðmundur Einarsson. Í meiri hl., sem svo er kallaður, eru hins vegar tilnefndir fjórir hv. alþm. Að vísu gat einn þessara hv. þm. ekki að þessu sinni tekið mikinn þátt í störfum nefndarinnar. Það er nú eins og stundum hefur verið áður og við skyldum varla tala mikið um það, þó að það sé nokkuð alvarlegt mál að afgreiða tvö stórmál á einum fundi með svo fáum mönnum. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að benda á að aðeins einn þeirra fjögurra manna sem mynda meiri hl. er úr fastaliði þingsins. Hinir þrír eru varamenn. Með þessum orðum er ég alls ekki — ég tek það mjög skýrt fram –að kasta neinni rýrð á þá ágætu hv. alþm. sem komið hafa inn sem varamenn. En á þessum fundi var verið að afgreiða tvö stórmál og eins og hv. alþm. þekkja er það svo, að þó varamenn séu góðir og gegnir hafa þeir yfirleitt ekki haft tækifæri til að kynna sér mál af þessu tagi eins og æskilegt væri, af eðlilegum ástæðum. Ég undrast satt að segja að þegar verið er að fást við í nefnd að vinna að málum skuli stjórnarliðar hv. ekki sjá sóma sinn í því að koma allir til fundar. Ég hefði talið, og við í minni hl., skynsamlegra, a. m. k. varðandi frv. um ríkismat sjávarafurða, að við fengjum tóm til þess fram yfir páska að taka saman brtt. og nál. og ganga betur frá því máli en gert var með því að lemja það svona áfram.

Varðandi það frv. sem hér er til umr., virðulegi forseti, stendur í nál. hins svokallaða meiri hl. n. að nefndin hafi fjallað um málið. Í nál. minni hl. er síðasta mgr. svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Minni hl. n. átelur málsmeðferð og mun flytja brtt. á sérstöku þskj.

Það er ekki oft sem menn leyfa sér að setja slíkt í nál. Fyrir því hljóta að vera ástæður og þær ærnar. Ég vil taka það fram að formaður n., hv. þm. Stefán Guðmundsson, átti svo sem ekki margra kosta völ því að hann fékk frv. ekki til meðferðar í n. fyrr en í gær. Hins vegar hafði Ed. verið að fikta við þetta mál í marga mánuði.

Þetta mikla mál er raunar býsna stórt hvernig sem á er litið. Með því er verið að breyta í grundvallaratriðum eðli ákveðins sjóðs og með þessari breytingu er verið að færa til mjög mikla fjármuni, á þriðja hundrað millj. kr. Ég gæti sem best trúað því að þessir fjármunir yrðu á þessu ári líklega nær 250 millj., þó að í frv. séu nefndar 210–220, vegna þess að nú hefur verið bætt við aflakvótann m. a. og verðbólgan er ekki alveg stopp, eins og menn hafa séð. Ég gæti trúað því að þarna væri um að tefla um 240–250 millj. kr. þegar allt kemur til alls. Allar eignir almennu deildarinnar í Aflatryggingasjóði voru um áramót 200 millj. kr., þannig að þarna er verið að færa til fjármuni sem eru allmiklu meiri eða 12.5% meiri en öllum eignum nemur.

Það er rétt að ræða það aðeins hvaðan þessir fjármunir, sem komnir eru af útflutningsgjaldi, eru komnir og spurninguna um hverjir eiga þá. Venjulega fara menn, persónulega a. m. k., einungis með sína fjármuni eins og þeim sýnist en ekki annarra. Meira að segja eiga hæstv. ríkisstjórnir ekki að fara með fjármuni sem þær eiga ekki einhvern rétt á eða a. m. k. þeir sem eiga að fá þá. Hverjir eiga þennan hluta af útflutningsgjaldi, sem runnið hefur til almennu deildar Aflatryggingasjóðs? Það má auðvitað horfa á þetta mál frá ýmsum sjónarhornum eins og fleiri. En það er alveg augljóst að ef útflutningsgjald af sjávarafurðum er ekki tekið gæti fiskverð orðið þeim mun hærra sem því nemur, fiskverð gæti orðið jafn mörgum prósentum hærra og gjald er tekið. Þeir fjármunir væru að sjálfsögðu sameign útgerðar og sjómanna, eins og önnur verðmæti sem þessir aðilar draga að landi. Um það eru bæði lög og samningar hvernig þessum verðmætum er skipt. Ég tel að fjármunir sem þarna eru teknir úr almennu deild Aflatryggingasjóðs séu sameign útgerðar og sjómanna á sama hátt og annað aflaverðmæti sem á land er dregið. Það þýðir að þessi 4% af heildaraflaverðmæti sem á land er dregið á þessu ári eigi ekki síður að koma til skipta en annar afli. Menn hafa gagnrýnt þessar röksemdir í mín eyru, en ég verð að segja að mér finnast þær aths. ekki sannfærandi og tel að það vanti býsna sterkar röksemdir með því að fara með þessa fjármuni eins og ætlast er til hverju sinni.

Forustumenn Landssambands ísl. útvegsmanna hafa beinlínis haldið því fram og sagt það undir vitni m. a. í okkar nefnd, að þeir hafi alltaf átt þessa peninga. En til hvers voru þessir peningar? Það hef ég nú þegar sagt. Þegar um aflabrest var að tefla fengu útgerðarmenn þessa peninga til að borga sjómönnum með. Þeir voru sem sagt ætlaðir til handa sjómönnum þegar svo stóð á. Að mínum dómi fer ekki milli mála að þessir fjármunir eigi að koma til skipta á sama hátt og annar afli.

Í ræðu minni við 1. umr. beindi ég máli mínu til hæstv. ríkisstj. og óskaði eftir því að hún ræddi þetta á sínum fundi og gerði sér grein fyrir alvöru þess að ganga nú enn á sjómenn, undirstöðustétt í þessu þjóðfélagi. Íslenskir sjómenn vinna langan vinnudag við erfið og hættuleg skilyrði. Það er hættulegra að vera sjómaður á Íslandi en stríðsmaður í útlöndum, það sýna allar tölur. Á sama tíma og hlutur sjómanna skerðist af náttúrlegum ástæðum og af völdum brbl. frá því í fyrra á nú enn að ganga á þeirra hlut. Ég er ekki viss um að hv. alþm. geri sér grein fyrir því hver eru laun sjómanna. Maður sér það stundum í blöðum að þegar eitthvert skip fær mikinn afla í veiðiferð er strax reiknað út hversu mikið menn hafi haft út úr þessum túr og reiknaðir svo allir aðrir túrar ársins á sama hátt og gert ráð fyrir að hver einasti sjómaður hafi verið hvern einasta dag á sjó. Allt er þetta tóm vitleysa. Menn verða að fá sín frí frá þessari miklu vinnu. Sjómenn eru auðvitað ekki allt árið í hafi. Ég er alveg sannfærður um það, og ég er viss um að það þyrfti ekki athugunar við einu sinni, að tímalaun sjómanna eru ábyggilega lægri en nokkurra annarra í landi. Ég fór í saumana á þessu við 1. umr. málsins og talaði fyrir daufum eyrum. Þó sitja í hæstv. ríkisstj. menn sem gerþekkja þessa hluti, sumir hverjir.

Ég undrast að þeir gera sér ekki grein fyrir því hversu varasamt er að gera hluti eins og þessa eins og á stendur. Sjómenn á Íslandi hafa yfirleitt ekki verið miklir kröfugerðarmenn, það er nú eitthvað annað. Það er stétt sem hefur ekki verið hörð í kjarabaráttunni, látið mikið á sér bera eða sett úrslitakosti. Þess eru varla dæmi. Sjómenn eru raunsæir menn í beinum tengslum við að afla þeirra verðmæta sem öll þjóðin lifir á. Þess vegna eru þeir, þegar illa árar og búið er að koma þjóðarbúinu af einhverjum ástæðum í erfiða stöðu, fyrstir manna til að sætta sig við að taka þátt í að axla byrðar sem á þjóðina verður að leggja, á því er enginn vafi, og hafa oft sjálfviljugir gengið lengra vegna þess skilnings sem þeir hafa á þessum efnum. Sjómenn þurfa ekki að lesa langar töflubækur og skýrslur frá sérfræðingum sem flækja alla hluti. Þeir eru líklega snjallari en flestir hagfræðingar að átta sig á meginstaðreyndum í íslensku hagkerfi og þjóðskipulagi og þurfa ekki doktorspróf til.

Ef við skoðum það sem á landsmenn hefur verið lagt vegna hinna erfiðu glímu við verðbólguna og aðra óáran, heimatilbúna m. a., og annarra áfalla, þá dreg ég ekki úr því að fólk hefur þurft að láta mikið af sínum hlut og sættir sig raunar við margt af því eins og skynsamra manna er háttur. En ef litið er til þess hversu farið hefur með laun sjómannastéttarinnar, þá er skerðingin þar miklu, miklu meiri. Allir sjómenn í landinu verða að bera frá 40–55% kjaraskerðingu í þorskveiðum. Það liggur í augum uppi eftir aflasamdrátt. Það er ærið. En þegar breytt er hlutaskiptunum enn, þó með óbeinum hætti sé, er gengið, að mínum dómi, allt of langt. Þó þessi 4% kæmu til skipta fengi útgerðin auðvitað bróðurpartinn af því hvort sem væri. Og til hvers er hæstv. ríkisstj. að gera tilraun til þess að bæta stöðu útgerðar með þessum 4%? Það er vegna þess að staða hennar hefur versnað, það vitum við. En veit ekki hæstv. ríkisstj. að staða sjómanna hlýtur að versna nákvæmlega með sama hætti því að þeir fá hlutfallslega part af aflaverðmæti þó misjafn sé? Það sem hæstv. ríkisstj. er í rauninni að gera er að reyna að lyfta ofurlítið undir bagga útgerðarinnar í landinu, en leyfir sjómönnum að bera þá einum og engin tilraun gerð til að bæta það. Þeir mega halda á aukapinklunum. Kannske er orðið pinkill eiginlega of smátt orð. Þetta eru byrðar sem þeir bera.

Virðulegi forseti. Ég hef með mér í ræðustól allmörg blöð frá Sjómannasambandi Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, skeyti frá fjölmörgum fiskiskipum, annað bréf frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og upplýsingar um fund í Aflatryggingasjóði. Allt það sem sagt er á þessum blöðum er á eina lund: allir mótmæla og allir færa sín rök fyrir sínum mótmælum.

Við í minni hl. hv. sjútvn. höfum ekki gengið eins langt og minni hl. hv. sjútvn. Ed. Þar leggja þeir til að frv. verði fellt. Við erum svo lítillátir að við leggjum það ekki einu sinni til. Ég ætla ekki að fara að mæla þeirri afstöðu sérstaklega bót, en til þess eru ástæður og þá fyrst og fremst sú, að þessi lög, ef frv. verður að lögum, eigi aðeins að gilda jafnlengi og kvótinn, til áramóta. Út af fyrir sig eru röksemdir fyrir því. Ég ætla hins vegar ekki að gerast sérstakur málsvari þess. En hitt er auðvitað ljóst, að það fékk lítinn stuðning í Ed. og ég geri ekki ráð fyrir að unnt yrði að koma því þangað aftur. Í stað þess höfum við látið nægja að leggja til að þessir fjármunir komi til skipta milli útgerðar og sjómanna eftir venjulegum hætti. Það er ekki farið fram á meira. Ég tel að röksemdirnar fyrir því séu ákaflega skýrar og einfaldar og þurfi ekki að leita liðsinnis í félagasamtökum úti í bæ til að finna aðrar lögskýringar. Við þekkjum þær. Þetta mál er einfalt í raun og veru.

Ég vildi leyfa mér, virðulegi forseti, að fara örfáum orðum um málsmeðferðina, þó að ég hafi nefnt það fyrr, því að svo alvarlegt tel ég að sé af hálfu hv. alþm. að setja slíkt í nál. að það þurfi að skýra. Við högnumst lítið á stóryrðum sem lítið stendur á bak við.

Ég verð að segja að það er að mínum dómi til ansi mikils ætlast af nm. að fá aðeins eins og sem svarar hálfum fundi til að afgreiða þetta mál. Okkur er ekki gefinn neinn kostur á að kynna okkur það. Það var hálftími eftir, þegar við höfðum talað við fulltrúa sjómanna og útgerðarmanna á fundinum, til þess að ganga frá þessu máli. Ég verð að segja að það fer oft býsna miklu lengri tími í að rífast um það sem öðruvísi er í þessari hv. stofnun, á hinu háa Alþingi. Hér er bitist um upphæðir sem eru kannske 200 sinnum minni en þessi í ýmsum hornum og nefndum og í umr. Örfáar millj. og jafnvel hinir smæstu hlutir taka langan tíma. En það má fara hálftími í 250 millj. Svona er þetta nú, því miður, að við erum stundum að fást við ýmis mál, daga og stundum nætur, um alls kyns þáltill. og hitt og annað af því tagi, sem oft er lítils virði, smámál, auglýsingamál einstakra þm. og ýmislegt annað, eins og þið þekkið, hv. alþm., en þegar kemur að stóru ákvörðununum eru þær hristar fram úr erminni á nokkrum mínútum og varnarlausir stöndum við frammi fyrir því að út úr nefnd skuli málinu sparkað án athugunar. Það vill svo til að kannske höfum við einhverjir í þessari nefnd haft grun um að þetta mál væri á leiðinni, það má vera, en formlega séð er auðvitað óforsvaranlegt að haga sér með þessum hætti. Ég veit ekki einu sinni til þess að það hafi verið lesnar umsagnir á þessum fundi. Það var kannske ekki tími til þess. Það eru lesnar umsagnir um aðra og minni hluti í þessari háu stofnun.

Ég vona, virðulegi forseti, að slíkt endurtaki sig ekki. Við í minni hl. skiljum vel að þetta mál verður að fá afgreiðslu og það fljótt. Þarna er um að tefla það stórt mál og mikla fjármuni, sem þarf að færa til og greiða, að þetta mái verður að fá einhverja afgreiðslu, annaðhvort samþykkt eða synjun eða samþykkt með breytingum. Við tökum ekki þátt í að tefja þau mál sem hljóta að fá afgreiðslu, hvort sem þau eru vond eða góð. Við verðum áreiðanlega ekki sakaðir um það í þessari hv. nefnd að við höfum lamið eitthvað af ástæðulausu á ríkisstj. bara til að vera á móti henni, það er nú eitthvað annað. Við höfum meira að segja stundum stutt ríkisstj. dyggilega til þess að koma fram nauðsynlegum málum, þótt vond hafi verið. En þessi háttur á meðferð þessa máls, sem kemur upp vegna fiskverðsákvörðunar í febr., að láta það dankast svo í þeirri deild að síðari deildin fái í raun og veru ekki til þess tækifæri að skoða það, er ekki til eftirbreytni. Ég vil vekja athygli á að fjórir hv. þm. sem eiga sæti í hv. sjútvn. hafa ekki séð þetta frv. Meiri hl. í nefndinni hefur ekki séð frv. Hugsið ykkur bara! Að vísu þurfum við Íslendingar líka að stjórna heiminum og er ekki nema gott um það að segja — ég tala ekki um sérstakar ráðstefnur eins og menn flykktust á um daginn, norður/suður — spurninguna, sem við leysum að sjálfsögðu með aðstoð enskra lorda og fleiri góðra manna. En þrátt fyrir það er augljóst að þarna er farið að með óviðfelldnum hætti svo vægt sé til orða tekið.

Virðulegi forseti. Ég er ekki vanur að tala lengi og ætla mér ekki að gera það nú fremur en áður. Ég hef ekki tamið mér að velta mér lengi upp úr hneykslismálum. En það er einmitt það sem þetta mál er. Það er auðvitað hneyksli að ganga enn á hlut sjómanna og það væri skömm af því að afgreiða þetta óbreytt. En ég held að það þýði ekkert að höfða til einna eða annarra kennda hæstv. ríkisstj. Hún ætlar að láta sig hafa það að hirða þessa peninga og láta útgerðina hafa þá. Þeir ætla að gera það, því miður.

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Guðmundur Einarsson í minni hl. höfum skilað nál. og ég tel það við hæfi og raunar er það venjan, að lesa þetta nál. Það er stutt. Í því hefði e. t. v. þurft að koma fram margt fleira, en aðrar röksemdir hafa verið tíndar hér til í löngu máli svo að við létum duga að hafa nál. tiltölulega fá orð. Stundum eru fá orð betri en mörg. Ég leyfi mér, með leyfi forseta, að lesa upp nál.:

„Nefndin fjallaði um frv. á einum fundi ásamt öðrum stórmálum. Á fundinn komu fulltrúar útgerðar og sjómanna, og frv. síðan afgreitt úr nefnd.

Með flutningi þessa frv. er gert ráð fyrir því að taka meira en allar eigur almennu deildar Aflatryggingasjóðs og færa þær yfir í Stofnfjársjóð fiskiskipa, inn á reikning hvers skips, upphæð sem nemur 4% af fiskverði.

Af sjálfu leiðir að niður falla allar bótagreiðslur almennu deildar sjóðsins árið 1984. Þessi 4% af fiskverði eru færð útgerðinni og koma ekki til hlutaskipta.

Vegna samdráttar í afla verður staða útgerðar lakari sem honum nemur og afkoma sjómanna versnar að sama skapi. Nú hefur ríkisstj. ákveðið að færa þessa fjármuni til útgerðar vegna versnandi afkomu, en leyft sjómönnum náðarsamlegast að bera skaðann óbættan.

Hin almenna deild sjóðsins hefur gegnt því hlutverki að tryggja sjómönnum sín laun þrátt fyrir aflabrest ef útgerðin hefur ekki greitt þau. Minni hl. n. lítur svo á að fjármunir Aflatryggingasjóðs séu sameign útgerðar og sjómanna og séu þessir fjármunir fluttir til eigi útgerð og sjómenn að skipta þeim sín á milli eftir lögbundnum leiðum og samningum milli þessara aðila um hlutaskipti.

Minni hl. n. lítur svo á að með því að koma því svo fyrir að umrædd 4% af afla komi ekki til hlutaskipta vegi ríkisstj. enn í sama knérunn og telur allra síst ástæðu til þess nú að auka þann hlut sem tekinn er fram hjá skiptum.

Minni hl. nefndarinnar átelur málsmeðferð og mun flytja brtt. á sérstöku þskj.

Virðulegi forseti. Sú brtt. sem hér var vikið að er á þskj. 647 frá minni hl. sjútvn. og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Niðurlag fyrri mgr. ákvæðis til bráðabirgða orðist svo: og komi þær til hlutaskipta með sama hætti og annað aflaverðmæti.“

Þessi breyting er við ákvæði I til bráðabirgða og hljóðar þá þessi setning eftir breytinguna, sem ég vona að verði, með leyfi forseta:

„Bætur þessar skal greiða inn á reikning hvers skips hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa, sbr. lög nr. 4 13. febr. 1976, og komi þær til hlutaskipta með sama hætti og annað aflaverðmæti.“

Í þessu er breytingin fólgin. Ég er ekki viss um að það sé til mikils að halda áfram ræðuhöldum af þessu tagi. Það ætti ekki að vera nauðsynlegt að segja hlutina nema einu sinni og þeir breytast ekkert þó að maður segi þá tvisvar. En ég held að það sé varla hægt að komast hjá því að nefna örfáum orðum það sem hefur komið fram í umsögnum sjómannasamtakanna og í því hvað fiskimenn segja. Ég vil vekja athygli á skeytum frá fjölmörgum skipshöfnum, skipum, sem hafa ekki komið fram. Við í nefndinni sáum auðvitað ekki neitt, ég fékk þessi plögg annars staðar. Ég er ekki að segja að verið sé að liggja á hlutunum vísvitandi, en það var bara ekki tími til að fá að sjá nein rök í málinu.

Þá er kannske fyrst til að taka að samþykkt barst frá Sjómannasambandi Íslands, og ég leyfi mér að lesa, virðulegi forseti, nokkurn hluta þess:

„Formannafundur Sjómannasambands Íslands, haldinn föstudaginn 9. mars 1984 að Borgartúni 18, mótmælir harðlega framkomu frv. til l. um breyt. á lögunum nr. 51 28. apríl 1983, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins.

Fundurinn minnir á að upphaflegt markmið sjóðsins var eingöngu að tryggja sjómönnum laun sín ef um verulegan aflabrest væri að ræða eða ef útgerð brygðist fjárhagslegri skuldbindingu sinni gagnvart sjómönnum. Enn í dag er eitt meginverkefni sjóðsins hið sama og í upphafi.

Með frv. þessu, sem nú liggur fyrir Alþingi, er ætlunin að bótagreiðslur Aflatryggingasjóðs gangi til Stofnfjársjóðs fiskiskipa sem hefur allt öðru hlutverki að gegna en að tryggja sjómönnum laun sín.

Þessum breytingum mótmælir fundurinn harðlega og krefst þess að hlutverk Aflatryggingasjóðs verði óbreytt.

Fundurinn skorar á alþm. að fella þetta frv. og minnir á í því sambandi að vegna stjórnvaldsaðgerða í sjávarútvegsmálum þurfa sjómenn enn frekar en áður á núgildandi lögum Aflatryggingasjóðs að halda.“

Þarna kemur auðvitað greinilega fram eitt atriði sem ég hef ekki nefnt og það er að hafi skipshöfn orðið fyrir því að ná litlum sem engum afla, útgerðarmaðurinn ekki getað borgað, þá hafa sjómenn geta gengið til Aflatryggingasjóðs og fengið fast kaup. Með þessari breytingu geta sjómenn ekki gert það. Það er lagt á þeirra herðar að ná sínum launum. Slíkt gæti tekið og tekur langan tíma. Hver hefur efni á því, ekki síst þegar illa gengur, að fá ekki kaupið sitt fyrr en eftir marga mánuði eða jafnvel enn lengri tíma ef um gjaldþrotamál er að ræða? Hver hefur efni á því í þeirri feiknadýrtíð sem er í þessu landi? Ég held að það hafi enginn og ekkert fremur sjómenn en aðrir. Þarna þyrfti auðvitað að koma eitthvað í staðinn frá hæstv. ríkisstj., einhver fyllri trygging til þess að sjómenn gætu fengið sitt kaup.

Virðulegi forseti. Alþýðusamband Íslands sendir hér einnig erindi þar sem þessu frv. er harðlega mótmælt með sömu röksemdum.

Í bréfi frá 9. mars frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands er þessu frv. harðlega mótmælt og sérstaklega því að þessir fjármunir skuli vera færðir til aðeins annars eiganda fiskjarins, því útgerðarmenn o sjómenn eiga hann saman en ekki útgerðarmenn einir. Í þessu bréfi, virðulegi forseti, segir, eftir að mótmælin hafa komið fram, með leyfi forseta:

„Sú endurskoðun og uppskipti á sjóðakerfi sjávarútvegsins, sem gerð var 1976 í samráði við sjómenn leiddi af sér 6% lækkun á hlutaskiptum, gegn því að sjóðakerfi sjávarútvegsins yrði afnumið í áföngum sem þó var aldrei framkvæmt eins og samið var um 1976. Við viljum því vara Alþingi við því að samþykkja þessa lagabreytingu án þess að þessir fjármunir komi til skipta.“

Og að lokum, virðulegi forseti:

„Með því er hið háa Alþingi að efna til ófriðar við sjómenn og ekki að setja réttlát lög, sem er þó hlutverk Alþingis Íslendinga.“

Vegna þess virðulegi forseti, að efni áðurnefnds símskeytis hefur ekki komið fram, þá vil ég leyfa mér að lesa það. Þetta símskeyti er ekki komið frá stofnun, það er ekki úr byggðadeildinni, það er ekki úr Seðlabankanum eða einhverjum þessara stofnana sem við fáum skjalabunkana frá sem eru stundum varla virði pappírsins eins. Þetta símskeyti kemur frá sjómönnum. Það kemur utan af sjó. Það er ekki komið héðan af hitaveitusvæðinu. Það er ekki komið úr sölunum með þykku gólfteppunum eða palisanderklæddu veggjunum. Það er komið utan af sjó, utan úr vetrinum sem við sjáum nú varla nema rétt þá stund sem við erum að ferðast milli þessarar stofnunar og heim til okkar. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Skipshafnir eftirfarandi skipa mótmæla harðlega þeirri breytingu á 27. gr. laga nr. 51 frá 1983, um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, sem nú liggur fyrir Alþingi.

Í brtt. er lagt til að almenna deild Aflatryggingasjóðs, sem á undanförnum árum hefur tryggt sjómönnum lágmarkskaup, verði á þessu ári notuð til þess að greiða fjármagnskostnað útgerðar og að í stað 10% greiðslu í stofnfjársjóð verði nú 14% tekin fram hjá skiptum til útgerðar. Ef hið háa Alþingi samþykkir þessa lagabreytingu um að 4% verði tekin framhjá skiptum, þá verður orðið lögfest, að tekið verði 41% fram hjá hlutaskiptum á þessu ári.

Sú endurskoðun og uppskipti á sjóðakerfi sjávarútvegsins, sem gerð var 1976 í samráði við sjómenn, leiddi af sér 6% lækkun á hlutaskiptum, gegn því að sjóðakerfi sjávarútvegsins yrði afnumið í áföngum sem þó var aldrei framkvæmt eins og samið var um 1976. Við viljum því vara Alþingi við að samþykkja þessa lagabreytingu án þess að þessir fjármunir komi til skipta, með því er hið háa Alþingi að efna til ófriðar við sjómenn og ekki að setja réttlát lög, sem er þó hlutverk Alþingis Íslendinga.“

Þessi texti er kominn utan af sjó. Og undir þessum texta eru nöfn skipanna og það á eftir að margfalda nafnafjöldann með líklega 14–15 að meðaltali, þannig að hér er um mjög marga sjómenn að ræða. Skipin eru þessi, með leyfi forseta: Páll Pálsson ÍS, Vestri BA, Sléttanes ÍS, Þrymur BA, Guðbjörg ÍS, Jón Jónsson SH, Akureyrin EA, Fróði SH, Tálknfirðingur BA, Steinunn SH, Dagrún ÍS, Haraldur AK, Albert Ólafsson KE, Kaldbakur EA, Gunnjón GK, Sigurvon ÍS, Sólfari AK, Vatnsnes KE, Víkingur III ÍS, sigurborg AK, Orri Ís, Elliði GK, Guðný ÍS, Grótta AK, Ásgeir Torfason ÍS, Guðmundur Ólafur ÓF, Stálvík SI, Jakob Valgeir ÍS, Björgúlfur EA, Sif ÍS, Gaukur GK, Hugrún ÍS, Þuríður Halldórsdóttir GK, María Júlía BA, Arney KE, Núpur BA, Faxi GK Happasæll GK, Hjörleifur RE, Júlíus Geirmundsson ÍS, Ottó Nóvember Þorláksson RE, Guðbjartur ÍS, Viðey RE, Sigurey BA, Ingólfur Arnarson RE, Hólmadrangur ST, Rifsnes SH, Ásgeir RE, Garðar II SH, Otur GK, Halldór Jónsson SH, Þorlákur ÁR, Dalborg EA, Snorri Sturluson RE, Haukur KE, Skipaskagi AK, Ólafur Jónsson GK, Sjóli RE, Júní GK, Gyllir IS, Dagstjarnan KE, Sigurfari II SH, Klakkur VE, Runólfur SH, Gullberg NS, Fylkir NK, Ljósafell SU, Glettingur NS, Kambanes SU, Sunnutindur SU, Vigri RE, Snæfugl SU, Breki VE, Svalbakur EA, Hólmanes SU, Arinbjörn RE.

Upptalningu er lokið, virðulegi forseti. Hún hefði getað orðið miklu lengri. Á svona skeyti komast ekki nálægt því allir yfirleitt. Það er misjafnt að ná í menn. Menn eru í kringum allt land. En þetta er skeyti af mörgum merkum skipum, sem bera mörg merk nöfn eins og þið hafið heyrt. Þau eru kennd við ættmenni útgerðarmannanna, við örnefni, heimabæ og byggð, við kaþólska biskupa eins og Þorlák, við ritsnillinginn Snorra Sturluson og fleiri og fleiri. Kennd við sjófugla og boða og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Mennirnir sem vinna á þessum skipum eru með þessu skeyti að senda hinu háa Alþingi sína kveðju. Og kveðjan er um það í örfáum orðum að sjómönnum þykir nú nægilega langt gengið og of langt gengið.

Fyrir þessu frv. hefur auðvitað barist formaður Landssambands ísl. útvegsmanna. Það er ekkert leyndarmál. Það er hart fyrir okkur hv. alþm. að vera einhvers konar afgreiðslustofnun fyrir þennan mann og þennan félagsskap, næstum því sama um hvað er að tefla. Og það er ekki beysið og það er áreiðanlega ekkert gaman fyrir ungan mann, kornungan mann, hæstv. ráðh. í sjávarútvegsmálum, sem vill taka á hlutunum eftir bestu getu, að þurfa að vera eins og í bandi þessa félagsskapar. Félagssamtök sjómanna eru hundsuð, en ríkisstj. er öll í bandi þessara samtaka.