13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4773 í B-deild Alþingistíðinda. (4182)

149. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli á því, þar sem það kom ekki fram hjá frsm. félmn., að ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara.

Fyrr í vetur lagði ég fram fsp. til hæstv. félmrh. um skattheimtu sveitarfélaga. Kom þá fram í máli mínu að allt stefndi í það að um aukningu á greiðslubyrði útsvarsálagningar yrði að ræða milli ára. ~ þeirri umr. kom það fram hjá hæstv. félmrh. að ríkisstj. mundi kappkosta að koma í veg fyrir auknar skattaálögur á fólkið í landinu.

Í þessari umr. um tekjustofna sveitarfélaga verður ekki hjá því komist að vekja athygli hv. þdm. á því, hve um gífurlega þyngingu greiðslubyrðar útsvars og fasteignagjalda verður að ræða á þessu ári.

Ég hef beðið Þjóðhagsstofnun að reikna út hver skattbyrði yrði í útsvari og fasteignasköttum á yfirstandandi ári. Í því svari sem mér hefur borist kemur í ljós að um gífurlega þyngingu skattbyrðar verður að ræða á þessu ári. Í forsendum Þjóðhagsstofnunar er gert ráð fyrir að álagningarhlutfall útsvars brúttó lækki um sem næst 1 prósentustig á þessu ári, en flest ef ekki öll sveitarfélög hafa nú ákveðið sína útsvarsprósentu. Útsvarsprósentan yrði skv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar því að meðaltali um 10.5%. Skv. því hækkar álagning útsvars um rúmlega 40% frá fyrra ári, úr 2 milljörðum 133 millj. kr. í um 3 milljarða, eða um 867 millj. milli ára.

Á sama tíma og álagning útsvars hækkar um rúmlega 40% milli ára hækka tekjur einstaklinga um rúmlega 20% í heild á þessu ári og álagning tekjuskatts ríkisins hækkar um svipað hlutfall.

Skv. þessum upplýsingum Þjóðhagsstofnunar taka sveitarfélögin til sín í útsvar 433 millj. umfram launahækkanir milli ára. 433 millj. leggja því sveitarfélögin á fólkið í landinu umfram hækkun launa milli ára. Þetta þýðir að skattbyrði eykst á vísitölufjölskylduna um u. þ. b. 5 þús. kr. umfram launahækkanir milli ára, en skattbyrði vísitölufjölskyldunnar vegna álagðs útsvars milli áranna 1983 og 1984 eykst um 10 þús. kr., þar af 5 þús. kr. umfram launahækkanir.

Í yfirliti sem ég hef frá Þjóðhagsstofnun hafa álagðir skattar sveitarfélaga, þ. e. útsvar og fasteignaskattar, í hlutfalli við tekjur greiðsluárs aldrei verið hærri, a. m. k. ekki s. l. 10 ár. Í áætlun frá Þjóðhagsstofnun um skattbyrði einstaklinga á árunum 1975–1984 kemur í ljós að þegar álagðir skattar sem hlutfall af tekjum greiðsluárs voru hæstir voru þeir 7.6%. Það var á árinu 1975. Í ár verða álagðir skattar sveitarfélaga 8% í hlutfalli við tekjur greiðsluárs, en á árinu 1983 voru þeir 6.8%.

Skv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar verður heildarskattbyrði einstaklinga um 13.7% miðað við tekjur þessa árs, þar af vegna skatta sveitarfélaga, útsvars og fasteignaskatta um 8%. Til samanburðar má sjá í þessum gögnum Þjóðhagsstofnunar að á árinu 1983 nam heildarskattbyrði 12.5%, en skattar sveitarfélaga námu á því ári um 6.8% af heildartekjum. Skattar ríkisins eru hins vegar taldir fela í sér svipaða skattbyrði á þessu ári og í fyrra skv. þessum útreikningum Þjóðhagsstofnunar eða um 5.7% af heildartekjum einstaklinga bæði árin, 1983 og 1984.

Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt fyrir hv. alþm. að gera sér ljósar þessar tölur um gífurlega aukningu skattbyrðar á fólkið í landinu nú þegar við fjöllum um frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem hér er verið að afgreiða, en þetta frv. fjallar um persónuafslátt og frádrátt á útsvari vegna barna.

Ég hef látið Þjóðhagsstofnun reikna út hvað þessar afsláttartölur til útsvars, þ. e. persónuafsláttur og frádráttur frá útsvari vegna barna, þyrfti að hækka til að ríkisstj. stæði við það fyrirheit sem hún hefur gefið um að skattbyrði heimilanna þyngist ekki á þessu ári frá því sem var á árinu 1983. Ef einungis er miðað við að skattbyrðin verði 30% milli ára, sem þýðir að samt sem áður yrði um aukningu á skattbyrði að ræða, eða um 10% umfram almennar launahækkanir milli ára í stað 20% hækkunar umfram hækkun launa, sem nú er fyrirhuguð, þyrftu þessar afsláttartölur, sem um er fjallað í því frv. sem hér er til umr., að tvöfaldast. Í stað 1800 kr. persónuafsláttar til útsvars kæmu 3600 kr. og barnafrádrátturinn yrði 720 kr. með hverju barni í stað 360 kr. sem hér er gert ráð fyrir.

Það er því ljóst að jafnvel þótt afsláttartölurnar í frv. yrðu tvöfaldaðar dygði það ekki til að hæstv. ríkisstj. stæði við það yfirlýsta markmið að skattbyrði heimilanna ykist ekki milli ára. Það yrði engu að síður um verulega aukningu að ræða.

Þar sem búast má við að sveitarfélögin hafi þegar gert sínar tekju- og gjaldaáætlanir verður að telja að ekki geti náðst pólitísk samstaða eða meiri hl. hér á Alþingi fyrir því að gera þær breytingar á þessu frv. sem nauðsynlegar eru til að skattbyrði heimilanna þyngist ekki milli ára. Telja verður því á þessari stundu tilgangslaust, þó freistandi væri, að flytja nauðsynlegar brtt. við frv. til að létta þá auknu greiðslubyrði sem nú er fyrirhuguð á heimilin í landinu.

Yrði 1. gr. frv. breytt og afsláttartölurnar tvöfaldaðar, sem eins og ég áður sagði þýddi samt sem áður aukna greiðslubyrði, þýddi það um 300 millj. kr. tekjutap sveitarfélaga miðað við það sem þau hafa ráðgert að óbreyttum álagningarreglum og afsláttarreglum. Ef sú breyting ætti sér stað á frv. þýddi það að lagðar yrðu á heimilin í landinu um 200 millj. í aukinni greiðslubyrði í stað 433 millj. sem nú er stefnt að. Af þessu 300 millj. kr. tekjutapi sveitarfélaganna rynnu um 230 millj. til einstaklinga en 70 millj. til ríkissjóðs í ónýttum persónuafslætti.

Þó ég telji að þessu sinni tilgangslaust að flytja brtt. við þetta frv. taldi ég nauðsynlegt að vekja athygli hv. þdm. á þessu máli. Lágmarkslaunin í landinu hafa mikið verið hér til umr. á hv. Alþingi í vetur og kjaramálin almennt. Allir eru um það sammála að enginn lifir af þessum hungurlaunum sem lágmarkslaunin eru í landinu. Í nýgerðum kjarasamningum voru þau hækkuð í 12 660 kr., sem ekki dugir einu sinni fyrir matarreikningi vísitölufjölskyldunnar hvað þá annarri framfærslu, svo sem húsaleigu, síma, rafmagni o. fl. sem telst til brýnustu nauðsynja hvers heimilis í landinu.

Ég tel, herra forseti, að það sé tímabært að við skoðum skattaálagninguna í landinu í því ljósi að við hv. alþm. spyrjum sjálfa okkur hvort okkur sé stætt á því að skattleggja nauðþurftatekjur í landinu. Við þm. Alþfl. höfum fjallað um þetta mál og teljum tímabært og brýnt að tekið sé af skarið hér á hv. Alþingi á þann hátt að a. m. k. þessi lágmarkslaun í landinu, 12 660 kr., séu ekki skattskyld. Við bindum vonir við það að um það geti náðst pólitísk samstaða hér á hv. Alþingi. Þetta eru engin laun, ekki fyrir matarreikningi fjölskyldunnar, og hvorki ríkissjóður né sveitarfélögin eiga að geta hrifsað til sín hluta af þessari hungurlús sem lágmarkslaunin eru. Við Alþfl.-menn erum nú með þetta mál í athugun og ef tími vinnst til munum við leggja fram á yfirstandandi Alþingi frv. um skattfrelsi til útsvars sem, ef samþykkt verður, taki gildi um næstu áramót. Hugmynd okkar er sú að a. m. k. þessi hungurlús sem lágmarkslaunin eru verði ekki skattskyld. Erum við með í útreikningi ýmsa möguleika til að mæta tekjutapi sveitarfélaga ef þessi leið yrði farin. Ýmsir möguleikar kæmu til greina. Má þar nefna að útsvarsstofn yrði hækkaður svo að útsvar kæmi þá eingöngu á tekjur sem væru yfir lágmarkslaunum eða þá sá valkostur að persónuafsláttur til útsvars og barnafrádráttur yrði það hár að ekki kæmi til greiðslu útsvars af tekjum sem væru undir lágmarkslaunum í landinu.

Ég vil þó undirstrika það að með þessu móti er ekki verið að leggja til að heildargreiðslubyrði útsvars yrði meiri á þá einstaklinga sem hafa tekjur yfir þessu tekjumarki frá því sem nú er, heldur er tilgangurinn fyrst og fremst sá að þjóðfélagið viðurkenni að engar forsendur séu fyrir því að skattleggja lágmarkslaunin í landinu. Hugsa mætti sér einnig að tekjutapi sveitarfélaga yrði mætt með aukinni hlutdeild sveitarfélaganna í söluskattstekjum. Þessir möguleikar allir eru nú til skoðunar í Alþfl. Við höfum enn ekki fengið nauðsynlega útreikninga til að hægt sé að leggja mat á heppilegustu leiðina í þessu sambandi. En markmiðið liggur ljóst fyrir. Við Alþfl.-menn teljum að haga verði skattheimtu ríkis og sveitarfélaga með þeim hætti að lágmarkslaunin í landinu verði ekki skattskyld. Ef heppilegra þykir vegna framkvæmdarinnar að fara þá leið að auka persónuafsláttinn og barnafrádráttinn til að ná þessu markmiði þá viljum við að sjálfsögðu skoða þann valkost. En markmiðið er skýrt: að ekki þurfi að greiða skatta af nauðþurftatekjum. Höfum við þar a. m. k. í fyrsta áfanga staðnæmst við lágmarkslaunin í landinu og gerum okkur vonir um að geta lagt fram frv. um það á yfirstandandi þingi.

Herra forseti. Ég get farið að ljúka máli mínu. Ég fagna því að sjálfsögðu að samstaða náðist í félmn. um að flytja þá brtt. sem fram kemur á þskj. 635, um að hafi eftirlaun eða launatekjur skert tekjutryggingu almannatrygginga hjá elli- og örorkulífeyrisþega skuli enn fremur draga frá útsvarsskyldum tekjum viðbótarfjárhæð sem svarar til þeirrar skerðingar. Með þeim rökum sem ég hef áður lýst mun ég ekki flytja till. um þær afsláttartölur til útsvars sem hér eru til umr., þó full ástæða væri til, en taldi nauðsynlegt engu að síður að vekja athygli hv. þdm. á hvað stefnt er í mikla aukningu greiðslubyrðar vegna skatta sveitarfélaga á launafólk í landinu á þessu ári. Ég hef þess í stað lagt mikla áherslu á að brtt. sem fram kemur á þskj. 635 næði fram að ganga og um hana gæti náðst samstaða á hv. Alþingi nú við afgreiðslu þessa máls.

Herra forseti. Hér er stigið skref, þó smátt sé, í átt til þeirrar hugmyndar sem ég hef verið að lýsa og felst í því frv. sem við Alþfl.-menn erum nú með í undirbúningi um að lágmarkslaunin í landinu verði ekki skattskyld. Um það mál vænti ég að einnig geti orðið samstaða þegar að því kemur. Stefnt verður að því að slík lagabreyting taki gildi frá og með næstu áramótum.