13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4778 í B-deild Alþingistíðinda. (4188)

140. mál, lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Pálsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. um frv. til 1. um lántöku vegna byggingar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Frv. gerir ráð fyrir því að heimilt verði að taka lán að fjárhæð 616 millj. kr. eða jafnvirði allt að 22 millj. Bandaríkjadala. Lánsfjárhæð vegna framkvæmda ár hvert skal síðan ákveðin í lánsfjárlögum í samræmi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun.

Enn fremur er með þessu frv. leitað eftir nauðsynlegum heimildum til lántöku og niðurfellingar aðflutningsgjalda og söluskatts vegna framkvæmda við flugstöðvarbygginguna. Það er alkunna að núverandi flugstöð er með öllu óhæf. Það hefur verið lengi í undirbúningi og athugun að reisa nýja flugstöð. Allt frá því að varnarsamningurinn var gerður hefur verið að því stefnt að aðskilja starfsemi varnarliðsins og almennt farþegaflug. Undirbúningur að þessu máli hófst á árinu 1970, síðan með endurskoðun varnarsamningsins 1974 voru teknar ákvarðanir um það að stefna að aðskilnaði farþegaflugs og varnarstarfsemi og ljóst var að ný flugstöð væri forsenda þess að unnt væri að ná því markmiði fram.

Á árunum 1978–1979 náðist samkomulag á vegum þáv. ríkisstj. við Bandaríkin um 20 millj. Bandaríkjadala framlag til þess að hefja framkvæmdir við nýja flugstöð. Í tíð síðustu ríkisstj. var gengið frá hönnun sem núverandi teikningar eru byggðar á og Alþingi samþykkti enn fremur lántöku til upphafs framkvæmda. Gólfflatarmál 1. og 2. hæðar flugstöðvarbyggingarinnar er samtals rúmir 12 þús. fermetrar miðað við utanmál byggingar. Á þessum gólffleti á að koma fyrir aðstöðu vegna móttöku, brottfarar og komu farþega, svo sem skráningu, farangursskála, tollskoðun, biðsal, veitingaaðstöðu, pósti og síma, verslunaraðstöðu fyrir fríhöfn og íslenskan markað o. fl. og ýmiss konar annarri þjónustu við farþega. Þar eiga að vera skrifstofur fyrir starfsfólk flugvallarstjóra, flugfélög, fríhöfn og aðrar stofnanir og starfsemi í flugstöðinni, aðstaða fyrir starfsfólk flugvallar og flugstöðvar, veitingabúð fyrir gesti aðra en farþega, flugeldhús og nauðsynlegt athafnarými fyrir tæknibúnað svo sem spennistöð og vararafstöð. Í núverandi flugstöð er sambærilegt gólfflatarmál rúmir 7 þús. fermetrar en eins og kunnugt er er flugeldhús, starfsmannaaðstaða, veitingaaðstaða og biðsalur farþega svo og farangursskáli allsendis ófullnægjandi. Ekki síst er starfsmannaaðstaða óviðunandi eins og nú er.

Aðalframkvæmdum er skipt í fjóra þætti. Fyrsti þáttur fólst í jarðvinnu sem farið hefur fram að undanförnu. Í öðrum áfanga er að því stefnt að gera húsið fokhelt. Þeim áfanga á að ljúka í okt. 1985. Í þriðja áfanga verður lokið innri frágangi hússins. Þeim áfanga á að ljúka í apríl 1987. Í fjórða áfanga verður unnið að frágangi utanhúss og veitukerfi. Að því er stefnt að þeim framkvæmdum ljúki 1987. Samið er um að framkvæmdum, sem Bandaríkin ein greiða, þ. e. hlöð ásamt lögnum og aðkeyrslubrautum og vegarlagningu, verði lokið eigi síðar en í apríl 1987. Heildarkostnaður við byggingu flugstöðvar, þar með taldar svæðislagnir, er nú áætlaður um 42 millj. Bandaríkjadala og munu Bandaríkin greiða um 20 millj. af þeirri upphæð. Hlutur Íslands, 22 millj. Bandaríkjadala, er háður samþykki Alþingis. Kostnaður miðast við bygginguna tilbúna til notkunar með farþega-, þjónustu- og skrifstofurými sem er samtals rúmir 12 þús. fermetrar eins og áður getur.

Stjórnunarkostnaður, viðbótarhönnunarkostnaður og ófyrirséð er tekið með í áætluninni, svo og áætlaðar verðhækkanir á byggingartíma. Samkomulag er um að skipta greiðslum milli Íslands og Bandaríkjanna við fyrsta þátt, allt að 20 millj. kr., til helminga. Vegna seinni áfanga skiptast greiðslur þannig að á árinu 1984 munu Bandaríkin greiða 67% af framkvæmdakostnaði en Ísland mun greiða 33% . Frá byrjun árs 1985 verður greiðsluhlutfall Bandaríkjanna u. þ. b. 60% af byggingarkostnaði. Helst það hlutfall þar til lokaframlög Bandaríkjanna verða innt af hendi og Ísland tekur að sér að greiða lokaútgjöld við bygginguna. Áætlað er að rekstur þessarar flugstöðvar muni standa undir afborgunum og vöxtum af lánum.

Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta frv. og fengið allar nauðsynlegar upplýsingar. Fulltrúar byggingarnefndar hafa verið kvaddir á fund n. og gefið upplýsingar og lagt fram gögn um málið.

Nefndin varð ekki einhuga um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþykkt. Páll Pétursson var fjarstaddur afgreiðslu málsins en minni hl. skilar séráliti.