13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það hefur mjög margt komið fram í þessum umr. sem ástæða væri til að tala ítarlega um. Einkum er það ræða hæstv. fjmrh. sem ástæða væri til að svara. Hann hefur úr þessum ræðustól viðhaft slíkar dylgjur og ásakanir á mig og minn flokk að það væri full þörf á því að fara um það ítarlegum orðum. Síðan hefur hann bætt gráu ofan á svart með því að hlaupa á dyr, þegar loksins er möguleiki á því fyrir mig að svara þessum spurningum og árásum, hlaupa á dyr norður í land til að halda fund á vegum Sjálfstfl. sem heitir: „Á réttri leið“. Það var nauðsynin hin brýna sem hæstv. forseti gat um áðan. Þó að hæstv. fjmrh. væri ekki að lesa prófarkir að bæklingi, eins og hér var giskað á, þá lá hitt fyrir, að hann þurfti að fara norður í land að prédika á fundi Sjálfstfl. Eftir að hafa ausið hér svívirðingum yfir Alþb., ráðist persónulega m.a. að mér og dylgjað um afstöðu fjarstadds þm. með gersamlega ósæmilegum hætti, þá er hlaupið hér út. Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að það lofi ekki góðu um þinghaldið í vetur ef hæstv. ráðherrar ætla að hafa þennan hátt á. Ég tel það alveg óhjákvæmilegt fyrir hæstv. forseta að reyna að kenna flokksbræðrum sínum vissar lágmarksreglur varðandi þinghaldið og flokksfélögin. Ég tel að framkoma hæstv. fjmrh. hér í dag sé fyrir neðan allar hellur, þó ekki sé minnst á munnsöfnuðinn sem hann hafði hér uppi.

Í þingsköpum er talað um að hæstv. forseti Sþ. geti sett ofan í við þm. fyrir ósæmilegan munnsöfnuð. Það hefði verið full ástæða til þess undir þeim undarlegu ræðuhöldum sem hæstv. fjmrh. hafði hér uppi áðan.

Það sem var hins vegar alvarlegast í máli hæstv. fjmrh. voru árásir hans á verkalýðssamtökin í landinu. Það var hvernig hann talaði um að verkalýðssamtökunum væri stjórnað af einhverri kommúnistadeild í Alþb., að hinn almenni launamaður á Íslandi væri svo ósjálfstæður að hann léti einhverja deild í Alþb. segja sér fyrir verkum. Átti hæstv. fjmrh. hér við Björn Þórhallsson, formann Landssambands ísl. verslunarmanna? Er hann í kommúnistadeild í Alþb.? Átti hann hér við Magnús L. Sveinsson, formann Verslunarmannafélags Reykjavíkur? Er hann í einhverri kommúnistadeild í Alþb.? Ég spyr um þessa menn vegna þess að þeir hafa sérstaklega gagnrýnt árásir fjmrh. á undirskriftasöfnun alþýðusamtakanna núna á dögunum.

Er hæstv. fjmrh. hér aðeins að lýsa ástandinu í eigin flokki? Er hann hér að veitast að þeim verkalýðsforingjum sem með veikum mætti eru að minna forustuna í Sjálfstfl. á það að Sjálfstfl. hefur til þessa talið að verkalýðshreyfingin ætti að hafa frjálsan samningsrétt? Er hæstv. fjmrh., þegar hann ræðst á þm. Alþb. hér, fyrst og fremst í rauninni að beina spjótum sínum að flokksfélögum sínum í Sjálfstfl.? Er hann að svara gagnrýni Guðmundar H. Garðarssonar á fundum í Sjálfstfl. síðustu dagana? Er hann að svara gagnrýni Magnúsar L. Sveinssonar eða Björns Þórhallssonar? Mig grunar að hann sé að því. Í stað þess að snúa sér beint að þessum mönnum ræðst hann að Alþb. og segir: Kommúnistadeildin í Alþb. er að skipuleggja átök á vinnumarkaði í landinu. Þannig þorir hæstv. fjmrh. ekki að beina spjótum sínum beint að þeim mönnum sem hann er í rauninni að ráðast að, heldur kýs að gera það með þessum sérkennilega millilið, sem eru þm. Alþb.

Það kann að verða verkalýðsforingjum, sem ennþá styðja Sjálfstfl., nokkurt umhugsunarefni að hæstv. fjmrh. og trúnaðarmaður þeirra hér á Alþingi hagar sér svona og viðhefur þann munnsöfnuð sem hér mátti heyra. Telur Sjálfstfl. virkilega að launamenn á Íslandi láti einn flokk, Alþb. eða einhvern annan flokk, segja sér fyrir verkum? Er hæstv. fjmrh. að tala fyrir hönd Sjálfstfl. þegar hann gerir svo lítið úr sjálfstæði hins almenna launamanns í landinu að hann láti einhvern einn stjórnmálaflokk, hvað sem hann heitir, segja sér fyrir verkum?

Það var enginn stjórnmálaflokkur, sem ákvað aðgerðir verkalýðssamtakanna núna, heldur verkalýðssamtökin sjálf og einhuga, menn úr öllum stjórnmálaflokkum. Það var engin kommúnistadeild í Alþb., sem ákvað það á sínum tíma að efnt yrði til útflutningsbanns eða tveggja daga verkfalls 1. og 2. mars 1978. Það voru verkalýðssamtökin öll, það voru menn úr öllum stjórnmálaflokkum sem stóðu að því.

Það má greinilega heyra á ummælum hæstv. fjmrh. að hann skilur ekki frekar en aðrir forustumenn Sjálfstfl. nú til dags að verkalýðshreyfingin er fjölþætt og breið hreyfing einstaklinga úr öllum stjórnmálaflokkum sem meta ákvarðanir verkalýðssamtakanna á hverjum tíma út frá hagsmunum launamannsins eins og þeir liggja fyrir.

Og auðvitað er það hárrétt líka, sem hv. þm. Eiður Guðnason benti á hér áðan — og vík ég þá aðeins að síðustu ríkisstj. sem hér hefur borið á góma — að auðviðað bar Albert Guðmundsson, hæstv. fjmrh., verulega ábyrgð á því að sú ríkisstj. varð til. Það þýðir ekkert fyrir hann að hlaupast undan því að bréf sem hann skrifaði þáv. forseta Íslands, um að hann teldi rétt að hann fæli Gunnari Thoroddsen stjórnarmyndunartilraun, réð úrslitum á sínum tíma. Það er hins vegar kannske ekki skrýtið að hæstv. fjmrh. skuli reyna að klóra yfir þetta, eins og hann hefur komið fram hér á undanförnum árum. En hitt verð ég að segja, að ég varð undrandi á ræðu hæstv. forsrh. hér áðan. Ég trúi því ekki að hann hafi í rauninni sagt hlutina nákvæmlega eins og hann telur að þeir hafi verið.

Vegna ummæla hans verð ég að fara nokkrum orðum um útgáfu brbl. ríkisstj. Gunnars Thoroddsens 22. ágúst í fyrra. Þau brbl. voru gefin út í þeirri góðu trú, af okkur eða a.m.k. af mér, að fyrir þeim væri meiri hluti í þinginu. Þáv. forsrh., dómsmrh. og landbrh. höfðu átt ítarlega fundi með þáv. og núv. hv. þm. Eggerti Haukdal um efni þessara laga og það kom ekkert fram á ríkisstjórnarfundum um þetta mál, sem benti til þess að þessi hv. þm. myndi snúast gegn setningu brbl., þannig að þeir sem stóðu að setningu laganna hlutu að vera í þeirri góðu trú að lögin hefðu meiri hl. í þinginu.

Daginn eftir að brbl. voru gefin út tilkynnti hins vegar þessi nefndi hv. þm., Eggert Haukdal, í Morgunblaðinu að hann væri andvígur lögunum, m.a. með skírskotun til þess, að ríkisstj. hafði staðið að því að ganga frá einhverjum efnahagssamvinnusamningi við Sovétstjórnina. Og hann sagðist vera snúinn frá þessari ríkisstj. Þar með var staðan sú, að allt benti til þess að ríkisstj. yrði í vanda með að koma lögunum í gegnum Nd. Alþingis. Einn af þm. Sjálfstfl. var þá spurður í blöðum, hver er þín afstaða? Og hann sagði: Ég mun láta hana koma fram þegar Alþingi kemur saman. Þessi maður, hæstv. núv. fjmrh., hafði sjálfur tekið ábyrgð á myndun ríkisstj. á sínum tíma, þannig að einnig eftir þessa yfirlýsingu hv. þm. Eggerts Haukdals var full ástæða til að ætla að mögulegt væri að koma þessum brbl. í gegnum þingið. Og hæstv. þáv. forsrh. gaf um það hverja yfirlýsinguna á fætur annarri, eftir að brbl. höfðu verið sett, m.a. í frægu viðtali sem tekið var við hann í Vestmannaeyjum, að hann væri þess fullviss að lögin héldu. Þess vegna var það ekki þannig að við teldum, og þá er ég a.m.k. að tala fyrir mig, að við værum á ystu nöf út frá þingræðislegu og lýðræðislegu sjónarmiði þegar þessi lög voru sett. Hins vegar var það skoðun mín, eftir að hv. þm. Eggert Haukdal og hæstv. núv. fjmrh. Albert Guðmundsson höfðu snúist gegn stjórninni eftir að þingið kom saman, að það ætti að leggja frv. um staðfestingu á brbl. fram strax. Og það var líka skoðun hæstv. núv. forsrh. En svo kemur hann hér núna og ræðst að Alþb. og mér fyrir það að við höfum í rauninni borið ábyrgð á því að frv. var ekki lagt fram fyrr en raun ber vitni um. Þetta er ekki heiðarleg gagnrýni því að þetta var ekki svona. Það veit hæstv. forsh. Hann veit nákvæmlega jafnvel og ég hvað olli því að frv. til l. um staðfestingu á þessum brbl. var ekki lagt fram. (Gripið fram í: Hvað var það?) Það var m.a. sú afstaða þáv. hæstv. forsrh. að það lægi ekki á að leggja þetta fram fyrr en síðar. Hann lét þá afstöðu koma fram hvað eftir annað. Það lá fyrir í fundarsamþykkt Alþb. og Framsfl. að við teldum að þetta frv. ætti að leggja fram strax. Hins vegar ræður ráðh.því hvar og hvenær hann leggur viðkomandi frv. fram. Ég veit að þetta eru hlutir sem er alveg óhjákvæmilegt að menn segi um sem svo: Þetta er ekki mál sem skiptir sköpum í augnablikinu. Þetta ræður ekki úrslitum um stjórnmálaþróunina í dag. Og það er alveg hárrétt. En ég segi við ykkur: Þegar menn eru að dylgja um það að ráðherrar hafi staðið að útgáfu brbl. svo að segja frammi á hengiflugi upp á von og óvon um það hvort þau stæðust reglur lýðræðis og þingræðis, þá verða menn að svara fyrir sig. Þetta vildi ég láta koma hér fram, hæstv. forseti.

Ég tel að það sé í rauninni margt fleira í umr. í dag sem þarfnast nánari athugunar og umr., einkum úr ræðu hæstv. fjmrh. Það verður gert síðar í umr. þegar tækifæri gefst til. En ég ætla aðeins að svara einni spurningu hæstv. fjmrh. og vona að svarinu verði skilað til hans. Hún var um það hver hefði kostað fundi Alþb., sem við höfum haldið víðs vegar um land núna að undanförnu, á Akranesi, í Reykjavík, á Húsavík, á Akureyri, í Stapa í Keflavík og víðar. Svarið er: Það er Alþb. sem hefur kostað þessa fundi. Ég spurði hins vegar að því og fékk ekki svör við því áðan frá hæstv. forsrh., hver kostar fundi forsrh., sem hann hefur haldið að undanförnu, og í umr. um bæklinginn, sem ríkisstj. er að gefa út máli sínu til stuðnings og styrktar, kom það fram að ríkisstj. telur það sjálfsagðan hlut að hún taki fé úr almannasjóðum til þess að kosta sinn áróður.

Það er nýlunda að ríkisstjórnir geri slíkt. Hins vegar geta menn velt því fyrir sér hvort þetta gildi þá yfirleitt um alla aðila hér á Alþingi. Ef ríkisstj. er staðráðin í því að eyða þessu fé, mundi hún þá fallast á það að stjórnarandstöðuflokkarnir gætu á sama hátt gengið í almannasjóði til þess að kosta sinn áróður ef þeir vildu? Um það veit ég ekki neitt. Það væri fróðlegt að vita hvort þessi regla um upplýsingaskyldu stjórnvalda gildi bara um þann áróður sem ríkisstj. þóknast að koma á framfæri — eða hvort það gildir líka um stjórnarandstöðuna, því að stjórnarandstaðan hefur lýðræðislegu hlutverki að gegna. Stjórnarandstaðan hefur lýðræðislegu hlutverki að gegna, eins og margoft hefur verið undirstrikað, en virðist hafa komið mönnum á óvart, einkum tíðindamönnum Morgunblaðsins, sem spyrja í almennum útvarpsþáttum og sjónvarpsþáttum um þessar mundir: Þarf þing? Það er kannske að gefnu tilefni vegna þeirrar innrætingar sem viðkomandi hafi orðið fyrir.

Hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. ræddi hér um þinghaldið og taldi það ástæðulaust af stjórnarandstöðunni að gagnrýna vinnubrögð stjórnarflokkanna. Það er rangt hjá honum. Það er full ástæða til þess og alveg sérstaklega framkomu hæstv. forsrh. í sumar. Hins vegar er ljóst að hv. 9. landsk. þm. Ólafur G. Einarsson hefur beitt sér fyrir eðlilegum vinnubrögðum hér í þinginu allt frá því að kosningar fóru fram. Það get ég vottað og staðfest. En hann hefur oft mátt sín lítils andspænis ofríki hæstv. forsrh.