13.04.1984
Neðri deild: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4783 í B-deild Alþingistíðinda. (4202)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. meiri hl. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Bara örstutt. Ég skal svara því sem hér er búið að spyrja um oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, vegna hvers ekki hafi verið orðið við þeirri beiðni hv. þm. og þá fyrir hönd Péturs Sigurðssonar einnig, að fá skriflega grg. stjórnar Aflatryggingasjóðs um þetta frv. Mér er ljúft að svara því. Staðreyndin í málinu, sem hefur margsinnis komið fram, er að það var lítill eða nánast enginn tími til stefnu til að okkur tækist að afgreiða þetta frv. núna fyrir páskahlé. Það er staðreynd málsins og engu að leyna í því efni.

Hins vegar er rétt að geta um það, að við boðuðum á fund n. fulltrúa sjómanna og fulltrúa útvegsmanna og einnig fiskimálastjóra sem jafnframt er formaður stjórnar Aflatryggingasjóðs. Fulltrúi sjómanna, Guðmundur Hallvarðsson, kom með mann með sér á fundinn, Tómas Ólafsson, sem er fulltrúi sjómanna í stjórn Aflatryggingasjóðs. Á þennan fund tókst okkur því að ná bæði formanni stjórnar Aflatryggingasjóðs og fulltrúa sjómanna í stjórn Aflatryggingasjóðs til viðræðu við n. Nm. eru dreifðir víða og eftir að haft var samband við formanninn töldum við það ekki efni eða tíma til þess að fá skriflegt svar fyrir þennan fund okkar. Þannig gekk þetta fyrir sig. Menn sátu þarna fyrir svörum og ég held að fengist hafi, eftir því sem tími leyfði, svör við því sem spurt var um hjá þessum ágætu mönnum.