13.04.1984
Neðri deild: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4783 í B-deild Alþingistíðinda. (4203)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svarið. Ég taldi nauðsynlegt að þetta lægi fyrir, vegna þess að það ég best veit er ekkert um þetta í frv. Ég taldi nauðsynlegt að þm. vissu a. m. k. hvað hér væri um að ræða. Og nú liggur það fyrir skv. yfirlýsingu hæstv. ráðh. að þetta á líka við um þessar veiðar, bæði grásleppuveiði og úthafsrækjuveiði. Þó að þar sé ekki um kvótaskiptingu að ræða eiga að gilda sömu reglur þar um. Það virðist liggja alveg ljóst fyrir skv. þessari yfirlýsingu.

Að því er varðar hitt atriðið er það náttúrlega hreinn fyrirsláttur hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, formanni sjútvn., að ekki hafi verið tími til að fá skriflega umsögn stjórnar Aflatryggingasjóðs. Það er hreinn fyrirsláttur, vegna þess að í gærdag, eftir að fundum var lokið hjá hv. n., kom hér plagg undirskrifað af meiri hl. stjórnar Aflatryggingasjóðs. Er það ekki rétt? Fer ég rangt með það? (Gripið fram í: Þremur.) Þremur? Þá biðst ég afsökunar. Alltaf vil ég sem sannur jafnaðarmaður hafa það sem réttara reynist. Það er engin spurning um það. En það kom undirskrifað plagg frá þremur stjórnarmönnum Aflatryggingasjóðs seinni part dags í gær. (Gripið fram í.) Var ekki hæstv. sjútvrh. að bera sig illa undan frammíköllum undir ræðu í dag? En ekkert harma ég það. Hæstv. ráðh. má kalla eins og hann vill mín vegna.

Ég tel því að þetta sé hreinn fyrirsláttur og menn hafi bara ekki viljað fá þessa umsögn stjórnar Aflatryggingasjóðs um málið. Enda hygg ég, án þess að ég vilji neitt um það fullyrða, að hefði eftir því verið leitað þá hefði komið samdóma umsögn allrar stjórnarinnar á líkan veg og sú umsögn er sem þessir þrír sendu Alþingi í gær. En einhverra hluta vegna hefur mönnum ekki þótt girnilegt að fá slíkt plagg í hendur áður en þetta mál yrði afgreitt á Alþingi.