03.11.1983
Sameinað þing: 13. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

48. mál, stöðvun framkvæmda við byggingu Seðlabanka Íslands

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær undirtektir sem þessi till. hefur fengið hér. Sýnist mér allir þeir sem hér hafa talað, nema ef vera kynni hæstv. viðskrh., vera málinu hlynntir. Og hann hef ég sterklega grunaðan um að vera hlynntari því en hann vildi vera láta.

Varðandi þau örfáu atriði sem ég sé ástæðu til að gera athugasemd við vil ég segja þetta: Þær lögskýringar sem hæstv. viðskrh. hafði hér í frammi í upphafi síns máls held ég að séu ekki sérlega sannfærandi. Allur andi laga um skipan opinberra framkvæmda er í þá veru að opinberar framkvæmdir verði sem hagkvæmastar fyrir þjóðina alla. Telji menn í n., sem fær þetta mál til meðferðar, að rétt sé að leita sérfræðilegs álits á því hvort ríkisstj. hafi vald til að stöðva framkvæmdir við Seðlabankahúsið, þá er það auðvitað alveg sjálfsagt. Ekki vil ég fara fram á það við hv. Alþingi að mál hljóti hér óþinglega meðferð. Þau rök sem hæstv. viðskrh. hafði í frammi, um að erfitt væri að hætta nú við byggingu Seðlabankans vegna þess hve langt hún væri komin, verka hins vegar dálítið hlægilega á fólk sem nýlega hefur gert sér grein fyrir að það á að stöðva byggingu Þjóðarbókhlöðu. Ég er hrædd um að hún sé þó nokkuð lengra komin en umrædd Seðlabankabygging. Þar stangast því allt hvað á annað.

Þriðja athugasemdin, sem hæstv. ráðh. gerði, var um orðalag till. og þá einkum orðin tvö: „þær framkvæmdir“ við byggingu seðlabanka Íslands sem ekki hefur þegar verið samið um við verktaka. Þetta þykir mér nú ekki vera sérlega óljóst, en meinlaust af minni hálfu þó að orðalagi yrði hnikað til í n. T.d. mætti í stað orðanna „þær framkvæmdir“ standa „þá verkþætti“. Það er mér útlátalaust og breytir ekki í neinu því sem till. snýst um.

Ég vil heilshugar taka undir það sem hér hefur fram komið, að ef ljóst er að ekki er hægt að stöðva þessa byggingu þá finnst mér sterklega koma til greina, eins og ég minntist á í minni framsöguræðu, að nýta þessa byggingu til einhvers annars, til einhverra annarra og þarfari hluta, því ég held að það hafi kannske ekki komið hér fram að hér er ekki um að ræða aðeins að byggja þetta hús. Þó að búið sé að steypa það upp hygg ég að mikið sé eftir enn af þarflausri og ónauðsynlegri eyðslu. Við skulum gera okkur fyllilega grein fyrir því að það verður dýrt að innrétta þetta hús. Þetta er æðimiklu stærra húsnæði heldur en bankinn hefur áður haft til afnota og halda menn virkilega að það vindi ekki upp á sig um aukið starfslið og allan rekstur, tækjabúnað og annað slíkt? Ef ég þekki þá rétt sem stýra Seðlabanka verður þar hvergi til sparað. Það er miklum peningum enn óeytt í þessa byggingu þó að hún sé uppsteypt.

Hvað varðar jag manna um fortíðina, hverjir bera ábyrgð á hverju, get ég ekki séð hvað í ósköpunum ég get gert að því þó að einhver Alþb.- maður hafi setið í bankaráði og ekki haft rænu á að stoppa þessa endaleysu, síst af öllu hafi hann verið gullkistuvörður Alþb. Ég held að það hafi nú verið lítið verk og löðurmannlegt og maðurinn þar með með litla reynslu í peningamálum. Löngum hefur mér sýnst og heyrst glamra í botninum á þeirri góðu kistu og oftlega til þingmanna og annarra leitað til þess að reka þann góða flokk, svo að lítil starfsreynsla er nú fólgin í því að fara af gullkistum Alþb. yfir í stjórn Seðlabankans, ég tala nú ekki um að gerast bankastjóri líka.

En það fer oft þannig fyrir mér þegar hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson talar að ég átta mig ekki alveg á hvort hann er að tala í alvöru eða gamni. Ég vona að hann hafi verið að tala í gamni þegar hann var að tala um nytsemi bókasafns Seðlabankans: Vel má vera að fræðimenn á borð við hann fái þar inngöngu, en það er ekki öllum leyft. Sauðsvartur almúginn fær ekki að stíga þar fæti sínum inn fyrir dyr, og hingað til hef ég aldrei séð það ákveðið í nokkrum lögum að seðlabankinn skuli annast fræðimannabókasafn fyrir þjóðina. Ég hélt að það væru allt aðrar stofnanir sem ættu að sjá um það. Og ég hygg að Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður yrði mér nokkuð sammála um það svo og þjóðskjalavörður og háskólabókavörður. Eigum við ekki bara að láta þá um að sjá um þennan þátt þjóðfélagsins? Ég hygg að hv. þm. mundi fúslega fá að setjast í Þjóðarbókhlöðu, þegar þar að kemur, með fræðidoðranta sína. (Gripið fram í.) En ef þm. er það virkilega alvara að íslenskir embættismenn, — ég get ekki skilið það öðruvísi en svo — sem vita upp á sig skömm af einhverju tagi, eigi svo að nota almannafé til að gefa fyrir sálu sinni, þá þykir mér nú skörin færast upp í bekkinn. Mættu nú margir taka til að gefa fyrir sálu sinni og yrði dýrt, trúi ég.

Ég skal ekki lengja þessa umr. mikið. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góðar undirtektir og ég vil sér í lagi taka undir mál síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem hún gerði að umtalsefni aðra útþenslu þessara galtómu banka. Ég held að þar væri í raun og veru efni í aðra umr. því eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir minntist á er það hálfhlægilegt að því minni peninga sem við finnum í þessu þjóðfélagi því fleiri hirslur þurfum við utan um þá. Þetta er ekki hægt að bjóða landsmönnum lengur upp á.

Ég vænti þess að lokum, herra forseti, að hv. allshn. Sþ. taki þetta mál til athugunar og vinni það vel og þinglega og skili því sem fljótast aftur, svo að þm. geti tekið hér af skarið og stöðvað það að embættismenn ráðskist með þjóðarbúið að eigin vild og fram hjá valdi Alþingis.