13.04.1984
Neðri deild: 75. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4785 í B-deild Alþingistíðinda. (4210)

296. mál, áfengislög

Flm. (Jón Magnússon):

Virðulegi forseti. Á þskj. 575 hef ég ásamt hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni flutt frv. til laga um breytingu á áfengislögum nr. 82/1969.

Í 1. gr. frv. er lagt til að 3. mgr. 3. gr. laga nr. 82/1969 falli brott. Með því að fella þessa grein brott er áfengislögum fer um innflutning á áfengu öli með sama hætti og innflutning á öðru áfengi. Í því sambandi má minna á lög nr. 63/1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf, en þessu frv. er að sjálfsögðu ekki ætlað að raska þeim ákvæðum.

Með 2. gr. grv. er lagt til að sömu reglur gildi varðandi meðferð, tilbúning og sölu allra áfengra drykkja og er þá haldið þeirri skilgreiningu áfengislaga um að áfengi teljist hver sá vökvi sem hefur meira en 21/4% af vínanda að rúmmáli.

Með 3. gr. frv. er lagt til að 15. gr. áfengislaganna verði breytt til samræmis, verði 1. og 2. gr. frv. þessa samþykktar. Þá er enn fremur lagt til að lög þessi taki ekki gildi fyrr en í ársbyrjun 1985 og verður sú tímasetning skýrð sérstaklega hér á eftir.

Í grg. gera flm. grein fyrir tilgangi með flutningi frv. þessa í fimm liðum á þessa leið:

1. Að draga úr hinni miklu neyslu sterkra drykkja.

2. Að breyta drykkjusiðum þjóðarinnar til batnaðar.

3. Að afla ríkissjóði tekna.

4. Að efla þann hluta íslensks iðnaðar sem annast framleiðslu á öli og gosdrykkjum.

5. Að samræma áfengislöggjöfina.

Ég tel óþarfa í framsöguræðu þessari að rekja sérstaklega sögu bjórmálsins hér á landi eða þau lagafrv. og brtt. sem fluttar hafa verið frá setningu bannlaganna til þessa dags. Það er þó ástæða til að benda á að eftir að brennivínið tók yfirhöndina hvað áfengisneyslu snertir hér á landi upp úr 1730 fyrir tilstilli danskra stjórnvalda og kaupmanna jókst drykkjuskapur ákaflega mikið. Ölneysla hafði þá um nokkurt skeið dregist saman en brennivínsneysla aukist.

Þess ber einnig að geta að í upphafi aldarinnar, meðan aðflutningur og sala sterks áfengis var verulega takmarkað en sala áfengs öls leyfð, minnkaði áfengisneysla nokkuð. Þessi tvö dæmi höfum við úr áfengissögu þjóðarinnar varðandi áhrif áfengs öls. Samkvæmt þeim virðast drykkjusiðir batna og drykkjuskapur minnka eftir því sem meira er neytt af áfengu öli í hlutfalli við sterk vín.

Enn eitt dæmi höfum við varðandi þá viðleitni að draga úr neyslu áfengis og útrýma því úr landinu, en það var við setningu bannlaganna. Niðurstaða af þeirri tilraun var einfaldlega sú, að það er þýðingarlaust í áfengismálum að berjast gegn hlutum sem stór hluti þjóðarinnar vill, jafnvel þó að meiri hluti þjóðarinnar sé andvígur áfengisneyslu. Þessi dæmi skipta máli þegar reynt er að meta réttmæti þeirra staðhæfinga sem koma fram hjá flm. að með þeirri skipun sem lagt er til í frv. þessu megi draga úr neyslu sterkra drykkja og drykkjusiðir þjóðarinnar muni breytast til batnaðar.

Bjór hefur verið bruggaður í mörg þúsund ár. Frá alda öðli var hann áfengi þeirra þjóða sem bjuggu svo norðarlega að þær gátu hvorki ræktað þar þrúgur né útvegað hunang til að laga borðvín. Sterkasti bjórinn sem bruggaður er í dag, Kulminator frá Kulmbach í Bayern, er um 13.2% vínanda að rúmmáli en sá bjór sem atgengastur er og mest drukkinn er milli 3.5% og 5% vínanda að rúmmáli. Í Þýska sambandslýðveldinu er bjórneysla mest eða 147 lítrar á mann á ári, í Danmörku er neyslan 128 lítrar á mann á ári, 60 lítrar í Svíþjóð, 55 lítrar í Frakklandi en mun minni í Noregi samkvæmt upplýsingum úr bókinni The World Guide of Beer, útgefin 1979.

Ég hygg að óþarfi sé að rekja þær reglur um framleiðslu og sölu á bjór sem gilda á hinum Norðurlöndunum því þm. er vafalaust sú framleiðsla og þær reglur kunnar. Það er þó ástæða til að minnast á Svíþjóð í þessu sambandi því hin síðari ár hafa verið settar fram alrangar fullyrðingar um stöðu bjórmála í Svíþjóð af andstæðingum bjórsölu hér á landi. Af slíkum fullyrðingum hefur helst mátt ráða að bjór væri bannaður í Svíþjóð. En það er rangt eins og sést m. a. af því að í Svíþjóð eru árlega drukknir 60 lítrar af bjór fyrir hvert mannsbarn í því ágæta landi og Svíar eru 17. mesta bjórneysluþjóð heims.

Framleiðslu á bjór í Svíþjóð er skipt í þrjá flokka. Flokkur I, léttöl, hefur minna vínandainnihald að rúmmáli en 2.8%. Fram til 1977 var flokki II skipt í tvo hluta, annan með bjór að styrkleika um 2.8% en hinn að styrkleika um 3.6%. Árið 1977 voru þessir hlutar sameinaðir í einn og þá miðað við framleiðstu á bjór um 2.8%. „Melianöliet“ svokallaða sem var um 3.6% var þar með afnumið. En fram að þeim tíma hafði það verið mjög aðgengilegt, þ. e. selt mjög víða tiltölulega ódýrt og var um 65% af allri bjórneyslu í landinu. Þessi breyting hefur frá þeim tíma verið mjög mikið til umræðu í Svíþjóð og menn greint mjög á um réttmæti hennar.

Þriðji flokkurinn af bjór sem seldur er í Svíþjóð er um 4.5% af vínanda að rúmmáli. Þegar andstæðingar bjórsins hér vitna til Svíþjóðar máli sínu til stuðnings er því ljóst að þeir gera það á fölskum forsendum því að um leið og þeir hampa réttmæti þeirra breytinga sem gerðar voru á bjórlögum í Svíþjóð 1977, þá virðast þeir hinir sömu menn ekki gera sér grein fyrir því að þeir sem mæla fyrir bjór á Íslandi hafa lagt til að skipan bjórsölu á Íslandi yrði svipuð og nú gerist í Svíþjóð og jafnvel enn takmarkaðri hvað dreifingu varðar.

Þó að ég nefni þessi dæmi hér vil ég alls ekki gera lítið úr ýmsum ábendingum bjórandstæðinga. En á það ber samt að líta að flest rök þeirra eru í eðli sínu rök gegn áfengisneyslu og varða því bjórinn ekki sérstaklega öðruvísi en sem eina tegund áfengis. Menn eiga hins vegar aldrei að loka eyrunum fyrir rökum andmælenda sinna. Þeir sem harðast leggjast gegn sölu bjórs hér á landi byggja höfuðröksemdir sínar á því að þeir óttast að bjór muni sérstaklega auka drykkju unglinga. Sjálfur tel ég ekki að svo muni verða. En þessi mótbára er tvímælalaust það veigamikil að grannt verður að fylgjast með því, eftir að bjórinn hefur verið leyfður, hvernig þróunin verður í þessu efni og kippa í taumana varðandi sölumeðferð og verðlagningu á bjór ef þessi staðhæfing reynist eiga við rök að styðjast.

Í nágrannalöndum okkar hefur þróunin orðið sú að byrjunaraldur áfengisneyslu hefur lækkað töluvert á undanförnum árum og það sama virðist gilda hér á landi, sbr. það að tala ungmenna, sem gista fangageymslur lögreglunnar vegna ölvunar, hefur farið vaxandi. Þá leyfi ég mér að benda á ummæli Helga Seljans í þingræðu fyrir nokkrum árum þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Mín skoðun er sú að eina réttlæting þess að færa aldurstakmarkið niður í 18 ár, svo sem við Páll Þorsteinsson lögðum til fyrir fjórum árum, var og er sú að eftirlitið yrði þá stórbætt og vel verði með því fylgst hverjar afleiðingarnar verða á enn yngri aldursflokka þó ég hljóti að telja það staðreynd að drykkjan sé þegar komin ískyggilega langt niður, jafnvel allt niður í 11–12 ára aldur.“

Þessar staðhæfingar Helga Seljans eru mjög alvarlegar. Sé það rétt að byrjunaraldur áfengisneyslu sé í raun orðinn það lágur hér á landi að mjög svipi til þess sem gerist í nágrannalöndunum getur tilkoma bjórsins varla breytt hér til hins verra svo að neinu nemi. Það skiptir verulegu máli varðandi drykkju unglinga að stjórnvöld marki skynsamlega áfengisstefnu og stórauki fræðslu meðal unglinga um áfengi og áfengisneyslu og skaðsemi hennar. Þessi fræðsla er nú í molum. Það sýndi sig hins vegar þegar SÁÁ-menn voru með fræðsluherferð í skólum í tengslum við JC-hreyfinguna fyrir nokkrum árum að sú fræðsla hafði mikið að segja og var mjög góð. Unglingarnir fylgdust vel með og tóku mark á því sem þar var sagt. Það vantaði hins vegar að fylgja þessu eftir í skólastarfinu en það er einmitt það sem verður að gerast.

Önnur mótbára bjórandstæðinga er sú að drykkja á vinnustöðum aukist. Mér er ekki kunnugt um að drukkið sé á vinnustöðum á Íslandi í dag. E. t. v. eru til einhver undantekningartilvik. Ég hef satt að segja enga trú á því að um þetta geti orðið að ræða. Vinnubrögð og vinnumórall almennt eru með þeim hætti hér á landi. Hér skiptir einnig máli hvernig bjór er verðlagður og hversu aðgengilegur hann er.

Sú röksemd bjórandstæðinga að bjórinn muni auka heildarneyslu þjóðarinnar á áfengi getur vel verið rétt. Það þarf þó ekki að hafa neitt tjón í för með sér eða auka ölvun og drykkjusýki. Ég held því fram að jafnvel þó áð til þess geti komið að heildarneyslan aukist eitthvað, þá geti drykkjusiðir batnað með bjórnum og minna verði neytt af sterkum drykkjum. Í þessu efni sem og öðrum sem varða mótbárur gegn bjór skiptir mestu máli hvernig verðlagningu og sölu bjórsins verður háttað. Um leið og bjórinn verður leyfður verður að móta samræmda stefnu í áfengismálum, freista þess með verðstýringu að beina áfengisneyslu inn á þær brautir sem taldar eru skaðminnstar. Mín skoðun er sú að heppilegast sé að ódýrasta alkóhóleiningin yrði í léttum vínum, næstódýrust í bjór en dýrust í sterkum vínum.

Reynsla allra þjóða sýnir að hafa má áhrif á áfengisneyslu almennings með verðstýringu. Því hærra verð sem er á áfengi þeim mun minni neysla. Hér á landi er áfengi dýrara en víðast í veröldinni og meðalneysla jafnframt ein sú lægsta. Þrátt fyrir það að um mjög litla heildarneyslu áfengis sé að ræða hér á landi miðað við aðrar þjóðir er misnotkun áfengis og drykkjusýki með því hæsta sem þekkist í veröldinni. Ástæðurnar eru vafalaust margar, en drykkjuvenjur okkar, mikil neysla sterks áfengis, og skortur á samræmdri áfengisstefnu og fræðslu ræður hér vafalaust miklu. Einhvern veginn virðist svo vera sem við höfum tileinkað okkur flesta ókosti áfengisneyslu en farið á mis við það skásta.

Það er óneitanlega nokkuð sérstakt að hafa áfengislöggjöf sem bannar léttustu tegund þessa vímugjafa og að margra mati þá skaðminnstu en leyfir það sterkasta og skaðmesta. Í þessu sambandi má benda á ummæli í greinum sem dr. Jón Óttar Ragnarsson manneldisfræðingur hefur að undanförnu birt í dagblöðunum og þýðingu Halldórs Laxness á grein sem birtist í heilbrigðisdálki Süddeutsche Zeitung í München 26. apríl 1977. En í inngangi þýðingar sinnar segir Halldór með leyfi forseta:

„Hér veit almenningur ekki gjörla um hvað verið er að tala þegar bjór er á dagskrá, þar sem drykkurinn hefur verið krímínaliséraður hjá okkur í tvær kynslóðir, það er að segja látinn jafnbrýna glæp allar götur síðan árið 1915.“

Þessi ummæli Halldórs Laxness eru mjög lýsandi um þau viðhorf og viðbrögð sem hér hafa lengst af verið ríkjandi gagnvart bjór. Bjórnum hefur æ ofan í æ verið lýst sem einu því hættulegasta sem komið geti yfir íslenska þjóð og svo hefur farið að ýmsir trúa þessu og neita algerlega að skoða málið með opnum huga.

Bestu lýsingu sem ég hef fundið á afleiðingum þeirrar hörðu andstöðu sem hér hefur verið haldið uppi af fámennum hópi er að finna í bókinni Guðsgjafaþula eftir Halldór Laxness, en þar er því lýst að bátur skipaði upp farmi í Djúpvík. Grunur lék á og almannarómur taldi að smyglvarningur, m. a. bjór, væri í bátnum.

Tveir menn létust þegar þeir neyttu efnis úr tunnu nokkurri sem þeir álitu að hefði að geyma bjór í föstu formi, en reyndist vera arsenik. Síðan segir í bókinni með leyfi forseta:

„(Eftirmáli.) Ég get ekki stillt mig um að prenta hér að lokum skeytaskifti milli Landssambands Kvenfélaga Í Sveitum Gegn Bjórflutningi Til Íslands og ritstjóra Norðurhjarans á Djúpvík. Skeytið er sent áðuren leiðrétting mín til Ríkisútvarpsins kom fram:

Guðrúnarstöðum vestan Helkunduheiðar osfrv.

Herra ritstjóri, sakir voveiflegrar morgunfréttar í útvarpinu í dag, þess efnis að tveir verkamenn hafi orðið bráðkvaddir af bjór á ritstjórnarskrifstofu verkamannablaðsins Norðurhjarans á Djúpvík í morgun, leyfum vér oss að láta í ljós skelfíngu vora útaf lífshættulegum drukk sem ógnar eiginmönnum vorum og sonum. Vér treystum yður að gefa í blaði yðar fullnægjandi skýringar á þessu voðalega atviki. Vér krefjumst þess í nafni heilsu og velferðar íslensku þjóðarinnar að þessum óttalega vökva verði helt niður í niðurhellíngarstöðinni á Akureyri. Undirskrift 25 kvenmannsnöfn.

Skeyti frá blaðinu Norðurhjara, Djúpvík, til formanns kvenfélagasambands bjór-bindindiskvenna að Guðrúnarstöðum vestan Helkunduheiðar, pr Akureyri.

Háttvirtu frúr: Það var ekki bjór, heldur arsenik. Virðingarfyllst, ritstjóri Norðurhjarans, Djúpvík.

Svar frá Kvenfélagasambandinu, Guðrúnarstöðum, osfrv.

Til herra ritstjóra blaðsins Norðurhjara, Djúpvík.

Guði sé lof það var bara arsenik. Stjórnin.“

Þó að sem betur fer hafi aldrei jafn dramatískir og alvarlegir hlutir gerst og lýst er hér, þá sýnir þessi frásögn vel hvernig viðhorfin hafa oft verið til bjórs og álit ýmissa á skaðsemi hans úr öllu samhengi við raunveruleikann. Þó að í frv. því sem hér ræðir um fetist einungis þær breytingar á áfengislögum að innflutningur, bruggun og sala bjórs verði heimiluð með þar til greindum skilyrðum er það skoðun flm. að verði frv. samþykkt beri svo fljótt sem auðið er að undirbúa sérstakt frv. um bjór þar sem tilgreind verði gjaldtaka ríkissjóðs af bjórframleiðslu, sett almenn ákvæði um skilyrði til að fá ölgerðarleyfi, svo og skilgreiningar og flokkun bjórsins eftir styrkleika hans. Við leggjum jafnframt til að gildistaka laganna verði ekki fyrr en 1. jan. 1985, eða jafnvel síðar, til þess að innlendir framleiðendur fái nægilegt svigrúm til að undirbúa framleiðslu og sölu bjórs. Til greina kemur einnig að okkar mati að leyfa einungis innlendan bjór fyrst um sinn. Með slíkum aðgerðum mundi markaðshlutdeild innlendu framleiðslunnar verða mikil og skilyrði yrðu sköpuð til útflutnings. Þetta mundi skapa ný störf og skilyrði yrðu sköpuð til útflutnings. Þetta mundi skapa ný störf og efla öl- og gosdrykkjaiðnað í landinu. Jafnframt því mundu tekjur ríkissjóðs aukast.

Nú liggur fyrir Sþ. till. til þál., 111. mál, þskj. 138, um almenna atkvgr. um áfengt öl. Án þess að ég vilji leggja flm. þeirrar till. orð í munn hygg ég að viðhorf þeirra séu að þoka málinu áfram þannig að út af fyrir sig ætti ekki að vera ágreiningur á milli okkar, sem flytjum þetta frv., og flm. þáltill. Hér er ekki verið að neita þjóðaratkvgr. en á það bent að Alþingi á ekki að skjóta sér undan því að ráða fram úr málum með því að láta fara fram þjóðaratkvgr. um þau mál sem eru einhver feimnismál eða ef þm. óttast að einhver hluti kjósenda þeirra felli sig illa við afstöðu þeirra. Ef öll ákvæði um framkvæmd áfengismála ættu að vera samkvæmt þjóðaratkvgr. gæti orðið tafsamt með úrbætur sem reynslan sýndi að þyrfti að gera.

Í þessu sambandi bendi ég á ummæli úr kafla úr áramótabréfi áfengisvarnaráðs til áfengisvarnanefnda. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Hitt er svo annað mál, að við kjósum alþm. til að setja okkur lög, m. a. áfengislög, og þeim ber að axla þá ábyrgð sem þjóðin ætlast til að þeir beri en skjóta sér ekki bak við almenning í máli sem varðar heill og hamingju yngstu kynslóðarinnar og raunar allrar þjóðarinnar.“

Það sem ég er í raun hræddastur við varðandi þetta bjórmál er það, að þegar stíflan brestur og bjórinn verður leyfður, þá gerist það svo snögglega að ekkert svigrúm gefist til þess að móta skynsamlega stefnu í málinu fyrir fram og hlutur innlendrar framleiðslu verði af þeim sökum rýr.

Ég geri mér fullljóst að skoðanakannanir eru enginn heilagur sannleikur eða staðreynd um afstöðu fólks. Hins vegar hefur reynslan sýnt að vel unnar skoðanakannanir eru marktækar þó að í þeim geti verið ákveðnir skekkjuvaldar. Fyrirtækið Hagvangur er þekkt fyrir að hafa framkvæmt vandaðar og marktækar skoðanakannanir á undanförnum árum. (Gripið fram í: Nei.) Nokkuð svo. (Gripið fram í: Ekki alltaf í kosningum.) Í skoðanakönnun sem Hagvangur gerði í okt.-nóv. á s. l. ári um sölu á bjór úr útsölum ÁTVR kom eftirfarandi í ljós. Það eru sex mánuðir síðan þessi skoðanakönnun var gerð. Spurt var um það hvort fólk væri því meðmælt að sala á áfengu öll yrði leyfð úr útsölum ÁTVR. Niðurstaðan varð sú að þeir sem vildu að þetta yrði leyft voru 63.5% aðspurðra. Á móti voru 33.7% aðspurðra og þeir sem kváðust ekki vita afstöðu sína voru 2.8%. Það sem er auk þessa athyglisvert við þessa skoðanakönnun er hvernig dreifingin er á afstöðu eftir aldurshópum. Þannig kemur í ljós að á aldrinum 20–29 ára eru 82.9% aðspurðra hlynntir því að leyfð verði sala á áfengu öll úr ÁTVR, einungis 14.2% á móti. Á aldrinum 30–39 ára eru 71.6% fylgjandi, 26 á móti. Á aldrinum 40–49 ára 60.4% með, 36.7% á móti og síðan á aldrinum 50–59 ára eru 48.7% með og 48.7% á móti. Af þeim sem eru 70 ára og eldri eru aftur á móti 26.8% með en 69% á móti.

Þetta er einkar athyglisvert og raunar í samræmi við það sem hefur verið að gerast í sambandi við sölu á áfengi á Íslandi, þar sem léttu vínin virðast sækja nokkuð á á kostnað sterku drykkjanna. Er það vitanlega af hinu góða. Ég hygg að þetta sýni líka að yngra fólkið í landinu kýs aðrar neysluvenjur hvað áfengi snertir en þeir eldri. Þá kemur einnig fram í þessari skoðanakönnun töluverður munur á skoðunum fólks á höfuðborgarsvæðinu og í þéttbýli annars vegar og svo hins vegar í dreifbýli, þar sem meiri hluti er á móti sölu áfengs öls í dreifbýli en aftur á móti töluvert mikill meiri hluti í þéttbýli hlynntur henni og þó sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Ég tel þessa skoðanakönnun sýna í raun hver meirihlutavilji þjóðarinnar er í þessu máli. Niðurstöðurnar eru svo eindregnar og ótvíræðar að þótt tekið sé tillit til hugsanlegra skekkjuvalda, þá liggur þó fyrir að meiri hluti fólksins í landinu vill að leyfð verði sala á bjór. Jafnvel þó að meiri hluti fólks væri ekki fylgjandi sölu á bjór tel ég samt að leyfa ætti sölu hans. Ég byggi það á því að þegar um er að ræða leyfðan vímugjafa, þá eigi meiri hlutinn ekki að geta ráðið því hvort aðrir vilja hafa eitthvert annað form en hið viðtekna á þessari neyslu. Þetta er spurning um neyslumunstur almennings og ég álít að varðandi það atriði eigi meiri hlutinn ekki endilega að geta sagt minni hlutanum fyrir verkum. Ég lít á þetta sem spurningu um réttindi einstaklingsins og virðingu meiri hlutans fyrir skoðunum og vilja minni hlutans sem er grundvallarundirstaða lýðræðisviðhorfa.

Af því sem hér er rakið tel ég því skynsamlegt að Alþingi móti nú þegar stefnu í bjórmálinu og samþykki frv. þetta í samræmi við það sem virðist vera meirihlutavilji fólksins í landinu. Það sem knýr á um að Alþingi taki nú þegar afstöðu er að bjórneysla á Íslandi er staðreynd í dag í töluverðum mæli. Það þýðir ekki að loka augunum fyrir því. Ef við skoðum aðeins ástandið í dag, þá sjáum við hversu fráleitt það er að taka ekki á þessu máli. Nú geta menn keypt létt vín að styrkleika um eða undir 9% að vínandarúmmáli. Fjöldi veitingastaða selur bjórlíki sem er um 5% að styrkleika. Fjöldi umsókna liggur fyrir um leyfi til að setja upp veitingastaði og/eða selja slíkt bjórlíki í veitingahúsum, þannig að áður en þessi mánuður er á enda getur fjöldi þessara ölstofa sem selja bjórlíki verið orðinn hátt á þriðja tuginn ef hann er hreinlega ekki orðinn það nú þegar. Þessir staðir njóta mikilla vinsælda og það með öðru sýnir að stór hópur fólks kýs að hafa hér bjór. Væri nú ekki skynsamlegra, betra og heppilegra að. hafa hér alvörubjór heldur en öl styrkt með sterku áfengi? Og mér er spurn: Að hvaða leyti getur falist í því meiri skaði að hafa bjór að styrkleika 5% en bjórlíki að sama styrkleika?

Til viðbótar þessu er selt töluvert magn af ölgerðarefnum. Þá er ótalið það magn sem árlega er flutt inn af bjór. Skv. upplýsingum sem ég hef aflað mér hjá tollgæslunni voru fluttar inn til landsins löglega árið 1979 413 400 flöskur af bjór, þ. e. 0.33–0.5 lítra flöskur. Þarna er Keflavíkurflugvöllur þó ekki inni í myndinni en talan mundi hækka í kringum 5–6 þús. flöskur ef hann bættist við. Á þeim tíma var bjórinnflutningur í gegnum Keflavíkurflugvöll bundinn við áhafnir flugvéla. En hver er síðan talan fyrir síðustu ár? Árið 1983 voru fluttar inn löglega 1 354 500 flöskur 0.33–0.5 lítra, eða um eða yfir 500 þús. lítrar af bjór. Það eru um 5.6 flöskur á hvert mannsbarn í landinu og neyslan rúmlega tveir lítrar á mann af bjór. Ljóst er að árið 1984 verður þessi innflutningur enn meiri, m. a. vegna þeirrar rýmkunar sem nýlega hefur verið gerð varðandi innflutning á íslenskum bjór. Þeir sem best þekkja áætla að löglegur innflutningur á bjór verði á yfirstandandi ári um 2 millj. bjórflöskur eða um 750-800 þús. lítrar af bjór yfir árið.

Til viðbótar þessu vita allir að mjög miklu magni af bjór er smyglað til landsins, en hvað það er mikið er erfitt að gera sér grein fyrir. Mér kæmi þó ekki á óvart þó að það væri annað eins magn, líklega þó meira. Þessu til viðbótar má benda á ferðamenn sem neyta bjórs erlendis og íslenska námsmenn og fleiri og er þá ótalinn sá leki sem kemur frá varnarliðinu og erlendum sendiráðum. Þegar allt kemur til alls má áætla að bjórneysla hér á landi á hvern íbúa geti nú verið um eða yfir 5 lítrar á ári eða um 10% af heildarársneyslu Finna, svo að dæmi sé tekið, en Finnar eru átjánda mesta bjórneysluþjóð heims. Mér er ekki ljóst hve mikils er neytt af bjórlíki, en það kemur þar fyrir utan. Aðstaðan nú er því allt önnur en hún hefur verið þegar mál þetta hefur áður komið til kasta Alþingis.

Í dag er bjórneysla og neysla áfengis af sama styrkleika og bjór staðreynd. Þeirri staðreynd þýðir ekkert að loka augunum fyrir. Af þeim sökum verður að marka þá stefnu sem er í samræmi við tíðarandann. Það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn. Þegar stór hluti þjóðar vill ákveðið neyslumunstur, þá finnur fólkið þeirri neyslu farveg jafnvel þó að hún sé ólögleg. Þetta sýnir reynslan alls staðar, bæði á bannárunum hér á landi og í Bandaríkjunum, en síðast en ekki síst sýna þær tölur og það ástand sem ég hef hér gert að umræðuefni það að þeir sem vilja bjór hafa orðið sér úti um leyfi til þess að neyta hans eða einhvers í líkingu við hann. Í bókinni sem ég vitnaði til áður, The World Guide of Beer, segir um bjórneyslu á Íslandi með leyfi forseta:

„Fyrr á öldum þótti það sýna mikla gestrisni á Íslandi að bjóða gestum upp á bjór. Í dag eru hlutirnir því miður öðruvísi. Aðeins má selja öl sem ekki hefur meiri styrkleika en 2.25% vínanda að rúmmáli. Pólarbjórinn sem framleiddur er í landinu er bara til útflutnings.“ Og síðan kemur: „Í raun getur þó hver sá sem ætlar sér það komist yfir bjór, ef hann vill það.“

Þetta var árið 1979. Síðan hefur bjórstreymið orðið enn meira til landsins. Stundum er sagt að glöggt sé gests augað, en þetta hafa þeir sem önnuðust útgáfu bókarinnar aflað sér upplýsinga um. Staðreynd sem æðimargir skjóta sér undan að kannast við.

Þessi tvískinnungsafstaða varðandi bjórinn þýðir í raun að tekjur ríkissjóðs af bjór eru minni en þær gætu verið. Stór hópur fólks verður lögbrjótar með því að flytja inn og veita viðtöku smygluðum bjór og inniendir framleiðendur eru að mestu leyti dæmdir úr leik.

Hér er um umfangsmikið mál að ræða og ég vona að málið geti fengið umfjöllun og afgreiðslu á þessu þingi. Eftir að frv. þetta var lagt fram hefur fjöldi fólks haft samband við mig, sem án undantekninga hefur mikinn áhuga á framgangi málsins. M. a. sendi einn áhugamaður norðan af landi mér eftirfarandi kvæði eftir Baldur Eiríksson frá Dvergasteini sem heitir Egill og ölið. Er það svohljóðandi, með leyfi forseta:

Á Alþingi forðum fjörugt var,

flokkadrættir og stympingar

og umræður ærið snarpar.

Sátu þeir þar með sorfið stál,

sömdu um grið og vígamál

Egill og aðrir garpar.

Við höfum það fræga Alþing enn,

á því sitja nú spakir menn

og eru í ærnum vanda.

Með atkvæðabrask og orðatog,

útreikninga á máli og vog

hve mjöð okkar megi blanda.

Aldrei hefði hann Egill nefnt

orðaskaki um tvö prósent

né daufum drykkjum að sinna.

Vísað hefði hann broti á bug

og bara látið það standa á tug

svo bragð mætti að bjórnum finna.

Niðjar Egils um aldaröð

ómælt supu hinn sterka mjöð

og vóðu í svima og villu.

Okkur með réttu er nú kennt

hve eitt eða jafnvel hálft prósent

má orka miklu og illu.

Brott eru horfin brekin forn,

brottu hin stóru drykkjarhorn,

margt er þar fleira falið.

Ýmislegt mundi Agli nú

allgott þykja um föng og bú

en minna í mjöðinn varið.

Egill var sinnar aldar barn,

ekki til sparðatínings gjarn

og viðskotaillur að vonum.

En handtökin snör við hlíf og stál,

hornadrykkju og skáldamál

voru hundrað prósent hjá honum.

Ég ítreka það síðan að ég vona það að þetta frv. fái afgreiðslu á þessu þingi því að það getur orðið um seinan að móta skynsamlega áfengisstefnu ef sú þróun sem orðin er í landinu fær að halda áfram enn um sinn. Þetta er spurning um það að menn þori að horfast í augu við staðreyndir og taka á þeim staðreyndum með raunhæfum hætti.