24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4797 í B-deild Alþingistíðinda. (4215)

264. mál, tjón af hringormi í fiski

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Það þarf ekki orðum að því að eyða að það blæs ekki byrlega í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir. Botnfiskaflinn verður ekki nema helmingur þess sem hann var fyrir tveimur árum og þorskaflann hefur reynst nauðsynlegt að skerða vegna ástands stofnsins um allt að 40% á þessu ári. Þetta ástand kemur kannske einna best fram ef litið er á nýbirtar tölur um útflutningsverðmæti þorskaflans á þessu ári eins og hann er áætlaður og eins og hann var árið 1981.

Árið 1981 var útflutningsverðmæti þorskafla landsmanna 9.8 milljarðar kr. Á þessu ári er reiknað með að hann verði aðeins 4.7 milljarðar kr. Hér er því um nánast helmingssamdrátt, helmingslækkun að ræða. Þegar svo er komið er ekki nema eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvaða ráðstafanir sé unnt að gera til þess að bæta hag útgerðar og fiskvinnslu í landinu. Eitt af því sem þar þarf að taka til sérstakrar athugunar er hvernig draga má úr því mikla tjóni sem íslenskur sjávarútvegur verður fyrir á ári hverju vegna hringorms í fiski. Þar kemur til greina að gera ráðstafanir sem vegið gætu að nokkru leyti upp á móti þeim áföllum sem átt hafa sér stað í þessari atvinnugrein að undanförnu. Ég hef því leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp. til sjútvrh.:

1. Er vitað hve miklu tjóni og beinum kostnaði hringormur í fiski veldur í íslenskum sjávarútvegi á ári hverju?

2. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að draga úr þessum vanda?

3. Eru uppi einhver áform um frekari rannsóknir eða aðgerðir til lausnar þessu vandamáli?

Herra forseti. Það fer ekki á milli mála að á síðustu árum hefur hringormur í fiski hér við land verið vaxandi vandamál. Hins vegar liggur ekki ljóst fyrir hve mikið það tjón er sem hann leiðir af sér á ári hverju. Er þess skemmst að minnast er Portúgalir neituðu að taka við saltfiskförmum frá Íslandi fyrir skömmu af þessum ástæðum. Áætlað hefur verið að sá viðbótarkostnaður í saltfiskvinnslunni sem af hreinsun fisksins leiðir nemi árlega allt að 80 millj. kr. Ekki liggja fyrir neinar opinberar tölur um sambærilegan kostnað vegna vinnslu í frystihúsum landsins, en menn sem þessum hlutum eru kunnugir telja að sá aukakostnaður sé vart undir 120 millj. kr. Verður því fróðlegt að heyra hvert er mat sjútvrh. á því tjóni sem sjávarútvegurinn verður árlega fyrir vegna þessa.

Eitt dæmi skal hér nefnt sem greint var frá í 11. tölublaði Ægis á síðasta ári. Þar var um að ræða hraðfrystihús á Vestfjörðum sem fékk til vinnslu 60% togaraþorsk og 40% bátaþorsk. Var ársframleiðsla hússins alls 2 þús. tonn af frystum þorskflökum. Í ljós kom að vinnan við að tína orma úr fiskinum var 40% af snyrtingar- og pökkunartíma. Heildarkostnaður þessa eina húss vegna þessa eina útgjaldaliðar var samtals 3 millj. 875 þús. kr.

Það er ljóst að eftir því sem minna hefur verið veitt af sel hér við land hefur þetta vandamál aukist. Í grein í Ægi um athugun á selastofnum við Ísland og nýtingu þeirra er frá því skýrt að þorskormar fundust í öllum útsel sem rannsakaður var og í um 75% landsela þeirra sem rannsóknin náði til. Áður en til verðfalls á selaskinnum kom fyrir nokkrum árum veiddust árlega hér við land 6–7 þús. dýr. Síðan hefur veiðin minnkað verulega og stofninn því vaxið. Telja vísindamenn að hann sé nú um 35 þús. dýr eða jafnvel allt að 40 þús. dýr og hér sé um ótvíræða fjölgun að ræða. Þar sem augljóst samband er milli fjölgunar selsins við strendur landsins og hringorms í fiski er eðlilegt að spurt sé hvaða áform yfirvöld hafi uppi til lausnar þessu vandamáli. Eitt svarið er augljóslega að sjá svo um að selastofnum hér við land sé haldið í eðlilegri stærð og jafnvægi en þeir vaxi ekki úr hófi fram. Nauðsyn þess hefur ekki aðeins verið rökstudd með tilvísun til hringormavandans heldur einnig til samkeppninnar um fiskinn í sjónum sem nú fer æ harðnandi. Talið er að selir hér við land éti árlega um 75 þús. lestir af nytjafiski. Það jafngildir hvorki meira né minna en ársafla 25 togara miðað við aflamagn árið 1983. Ég endurtek: Þetta er sambærilegt við aflamagn 25 togara.

Að lokum skal á það lögð áhersla að brýn nauðsyn er á að auka rannsóknir á þeim selastofnum sem hér við land búa. Á undanförnum árum hafa farið fram allnokkrar rannsóknir á lifnaðarháttum þeirra og útbreiðslu, en ítarlegar rannsóknir eru tvímælalaust undirstaða frekari aðgerða í þessum efnum öllum, enda er rétt að fara þar í hvívetna fram með skynsemi og aðgát.