24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4798 í B-deild Alþingistíðinda. (4216)

264. mál, tjón af hringormi í fiski

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég hef varðandi fsp. þessa leitað til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og fengið það svar sem hér fer á eftir:

Erfitt er að meta nákvæmlega heildarkostnað þann er hringormur í fiski veldur íslenskum sjávarútvegi. Hringormur er í einhverjum mæli í öllum okkar helstu nytjafiskum og þorskurinn, okkar aðalnytjafiskur, hefur að meðaltali í fiskholdinu um 10 hringorma og 70% fiska eru sýktir. Úrtak úr bónusskýrslum frystihúsa, sem gert var á vegum hringormanefndar um fjölda orma í þorski sem unninn var til frystingar 1980, leiddi í ljós að hringormur er til vandræða í frystihúsum um allt land, en sérstaklega í þeim húsum sem fá mikið af hráefni sínu frá bátum og þá væntanlega af grunnslóð. Heildarkostnaður frystingarinnar vegna hringorma í þorski hefur verið áætlaður af Árna Benediktssyni framkvæmdastjóra að nemi tugum milljóna árlega. Tekur þetta aðeins til þess aukakostnaðar sem felst í því að tína hringorma úr fiskinum, en í þessari upphæð felast ekki þær aukaverkanir sem fylgja hringormamengun, þ. e. að vinna verður fiskinn í verðminni pakkningar en ella. Vinnslutafir sem gera það að verkum að fiskurinn eldist og verður ekki eins gott hráefni og nauðsynlegt er, auk þess sem hráefnisnýting minnkar, valda einnig miklu tjóni.

Fyrirspyrjandi vitnaði hér í upplýsingar sem birtust nýlega í Ægi, og ég skal ekki endurtaka það hér, en þar kom í ljós að rúmlega eina mínútu tók að tína orma úr hverju kg fisks að meðaltali. 1982 var heildarframleiðsla frystra þorskafurða, þ. e. flakapakkningar og blokk, um 42500 tonn. Kostnaðurinn við að ormahreinsa þetta magn þorskflaka, miðað við þær upplýsingar sem birtust í nefndri grein í Ægi, gæti því verið áætlaður um 83 millj. kr. Á sambærilegan hátt má reikna út að það hafi kostað um 1.8 millj. að ormahreinsa steinbítsflök, en 1724 tonn fóru til frystingar 1982 og er þá reiknað með 2.5 ormum í kg fisks að meðaltali. Hringormur er einnig í löngu, ufsa, ýsu og karfa þó í minna mæli sé. Það má því segja að það sé varlega áætlað að beinn kostnaður frystingarinnar vegna hringorma nú sé um 100 millj. kr. árlega.

Nú er svo komið að einnig verður að ormahreinsa allan saltfisk. Hefur framkvæmdastjóri Sölusamtaka ísl. fiskframleiðenda áætlað að það kosti saltfiskverkunina um 80 millj. árlega að ormahreinsa saltfisk, en það er um 3–5% kostnaðarauki saltfiskverkunarinnar frá því sem áður var. Er þá ekki reiknað með verðmætatapi því sem hlýst af rýrnun, t. d. þegar henda verður þunnildum vegna orma, né heldur þeim mikla stofnkostnaði sem felst í ljósaborðum og öðrum tækjum til tínslunnar. Fiskurinn getur einnig farið illa við ormahreinsunina og verður að hluta til ekki matshæfur eftir þeim reglum sem nú gilda.

Beinan kostnað, sem hringormur í fiski veldur íslenskum sjávarútvegi á ári hverju, má því áætla á bilinu 184–200 millj. kr. Erfitt er að meta hinn óbeina kostnað, en hann felst í miklu markaðslegu óhagræði sem hringormur veldur. Viðskiptaþjóðir okkar vilja ekki hafa hringorm í þeim fiskafurðum sem við seljum þeim og kröfur þeirra þar að lútandi harðna stöðugt. Einnig má segja að hringormar í fiski komi í veg fyrir að mögulegt sé að selja sumar tegundir ferskar beint á borð neytandans og þá fyrir mun hærra verð en áður í eins miklum mæli og æskilegt getur talist.

Talið er að hringormur hafi farið vaxandi í þorski og öðrum nytjafiskum á Íslandsmiðum. Hefur aukningin verið talin um 9% á ári að jafnaði. Búast má við því að þessi aukning haldi áfram á næstu árum ef ekkert er að gert og því hefur verið reynt að spyrna við fótum. 90% hringorma í þorski eru selormar — sú hringormstegund sem selir bera með sér og dreifa í lífríki sjávar.

Þær beinu ráðstafanir sem gerðar hafa verið til þess að draga úr hringormavandanum hingað til hafa fyrst og fremst beinst að því að bæta árangur ormahreinsunarinnar. Um 1970 gekkst Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna fyrir tilraunum um notkun mismunandi ljósgjafa við gegnumlýsingu, mismunandi efna í borðplötum snyrtiborða, lýsingarhlutfall o. fl. Þær tilraunir leiddu til þeirra aðferða sem notaðar eru enn þann dag í dag. Frekari athuganir Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins hafa ekki leitt til endurbóta enn sem komið er. Þá má geta þess að íslensku sölufyrirtækin í Bandaríkjunum, einkum Coldwater Seafood Corporation, hafa leitað til bestu erlendra rannsóknastofnana í þessu skyni án verulegs árangurs. Þá hafa samtök frystiiðnaðarins varið miklum tíma og fyrirhöfn í að brýna fyrir starfsfólki þýðingu þess að fiskur sé vel ormahreinsaður. Margvísleg tæki ný og gömul, t. d. stækkunargler, sogpípur, röntgengeislar og hinar ótrúlegustu aðferðir, svo sem hitun, kæling, rafstraumur, hafa verið reynd til að finna orm og fjarlægja, en árangur hefur verið sorglega lítill.

Árið 1976 skipaði þáverandi sjútvrh. Matthías Bjarnason nefnd til að kynna sér vöxt og viðgang selastofnanna við landið og þátt þeirra í hringormavandamálinu. Nefndin skilaði skýrslu snemma árs 1978 þar sem ráðlagt var að halda áfram rannsóknum, en bent var jafnframt á að þær yrðu kostnaðarsamar. Haustið 1979 var svo hringormanefnd skipuð að beiðni Sölusamtaka fiskiðnaðarins, sem greitt hafa allan kostnað af störfum hennar. Sú nefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé unnt að draga verulega úr þessum vanda nema stemma stigu við fjölgun sela. Þess vegna hóf sú nefnd greiðslu veiðiverðlauna fyrir veidda seli vorið 1982 og hefur haldið því áfram síðan.

Sjútvrn. hefur beitt sér fyrir því að dr. Jón Pétursson í eðlisfræði við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands hefur fengið styrk til að standa straum af kostnaði við áframhaldandi ljósfræðiathuganir sem hófust á s. l. ári. Verði þessar athuganir jákvæðar, þannig að með öruggri vissu megi finna hringorma í fiskflaki með eðlisfræðilegum aðferðum, er eftirleikurinn, þ. e. vélvæðing tínslunnar, auðveldari. Þá er og kunnugt að bæði íslensku sölufyrirtækin vestanhafs hafa veitt styrki til hliðstæðra athugana með öðrum aðferðum. Áformað er að athuga á ný frá öllum hliðum þær aðferðir sem nú eru notaðar til ormatínslunnar með endurbætur fyrir augum.

Að lokum má geta þess að hringormanefnd hyggst halda áfram að greiða veiðimönnum fyrir unninn sel, þó með þeirri breytingu að verðlaun verða mest greidd fyrir kjötþunga sem lagður er inn til loðdýrafóðurs.

Ég vænti þess að svar þetta svari í nokkru þeirri fsp. sem hér hefur verið fram borin.