24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4801 í B-deild Alþingistíðinda. (4218)

264. mál, tjón af hringormi í fiski

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin við fsp. á þskj. 502. Þar komu fram ýmsar fróðlegar og gagnlegar upplýsingar. M. a. var fróðlegt að heyra þá tölu um hvert beina tjónið af hringormi á Íslandsmiðum er á ári hverju fyrir sjávarútveginn eða varlega áætlað, eins og ráðh. nefndi, 200 millj. kr. Hér er aðeins um beinan útlagðan kostnað við hreinsunina að ræða en ekki tekið með í reikninginn hið mikla óbeina tjón sem, eins og ráðh. benti á, þarna er um að ræða, bæði hvað varðar markaðsvandkvæði og það að fiskur nýtist ekki og verði jafnvel að kasta.

Jafnframt komu fram þær upplýsingar að ormavandamálið í saltfiskvinnslunni eykur vinnslukostnaðinn um 3–5%. Á tímum eins og nú þegar við stöndum frammi fyrir rýrnandi fiskistofnum er þetta vitanlega mjög alvarlegt vandamál. Því er eðlilegt að menn velti því fyrir sér, ekki aðeins hagsmunaaðilar í sjávarútvegi heldur og aðrir, hvað unnt er að gera til úrbóta í þessum efnum.

Ég minntist einnig á það, sem alkunna er og náttúrufræðingar hafa vitað áratugum saman ef ekki mun lengur, að selurinn er í harðri samkeppni við sjómennina um auðlindir hafsins. Ég hafði þær upplýsingar sem ég rakti hér í ræðunni úr tímaritinu Ægi. Talið er af náttúrufræðingum að selurinn éti u. þ. b. 75 þús. tonn af nytjafiski árlega sem jafngildir, miðað við afla á síðasta ári, ársafla 25 togara. Þó svo að ég sé sammála hv. alþm. Hjörleifi Guttormssyni að sú tala þurfi alls ekki að vera nákvæm — hún gæti verið minni, hún gæti einnig verið stærri — þá er það engu að síður ljóst að hér er um mikla og harða samkeppni að ræða um fiskinn í sjónum. Þegar menn heyra nefnda 25 árstogaraafla er ljóst að hér er um stórt vandamál að ræða.

Þá komum við að því hvaða ábendingarleiða, úrbóta er þörf. Þar sakna ég í máli ráðh. markvissari úrræða, en þar komu fram. Út af fyrir sig er ágætt að heyra að hringormanefnd muni starfa áfram að athugun þessa máls og jafnframt að vísindarannsóknir séu fyrirhugaðar og séu raunverulega í gangi. En ég vil aðeins undirstrika það í framhaldi af því sem ég sagði áðan að það er kominn tími til að þessu vandamáli sé meiri gaumur gefinn. Við getum ekki litið fram hjá því, sem einnig kom fram í máli ráðh., að 90% af öllum ormi í fiski hér við land er selormur. Miðað við hina gífurlegu fjölgun selastofnanna hljótum við þess vegna að velta því fyrir okkur hvort ástæða er til að þeim sé haldið í meira jafnvægi en verið hefur síðustu árin eftir að ónefnd frönsk kvikmyndaleikkona eyðilagði markað fyrir selaskinn, a. m. k. í Evrópu. Ég er hér ekki að tala um neina herferð gegn selnum sem slíka. Ég er aðeins að benda á þetta vandamál og jafnframt það að selastofnarnir voru hér mun minni fyrr á árum og þá var líka hringormurinn mun minna vandamál. Það liggur því í augum uppi hvert samhengi er í þessum efnum. Því er greinilega nauðsynlegt fyrir ráðamenn í sjávarútvegi og sjútvrn. að velta því fyrir sér hverjar raunhæfar ráðstafanir er unnt að gera á næstunni til bóta á þessum mikla vanda.