24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4802 í B-deild Alþingistíðinda. (4219)

264. mál, tjón af hringormi í fiski

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það er greinilegt að það er hörð samkeppni, ekki aðeins um það hver tekur þorskinn okkar og eyðir honum, heldur um hitt líka hver séu mestu vandamálin í íslenskum sjávarútvegi. Þetta er 3. umr. sem fram fer í hv. Sþ. um blessaðan hringorminn — en það má víst ekki kalla það kvikindi blessað. Það mikið vandamál er þetta að hv. alþm. telja nauðsynlegt að tíma Alþingis sé eytt í þrígang til þess að fjalla um þetta mál. Núna er spurt um það hvað mikið hafi kostað að fjarlægja hringorminn úr íslenskum fiskafurðum á undanförnum árum og talað mikið um að nú sé mikill vandi fyrir höndum hjá saltfiskframleiðendum, að 2–3% af þeirra vinnulaunakostnaði fari í það að fjarlægja þennan bansettan orm úr fiskinum.

Hvernig skyldi standa á þessu? Það er vegna þess að Íslendingar uppgötvuðu það allt í einu að ekki var hægt að bjóða þessa vöru á erlendum markaði. Okkur hafði tekist það undanfarandi ár að selja okkar vöru þótt hringormur væri í henni. Þessi kostnaður er allt í einu orðinn eitt áf því sem við verðum að taka á okkur og gera okkur að góðu að greiða. Ég held að þarna hafi ekki átt sér stað nein breyting sem heitið getur frá því sem verið hefur á undanförnum árum. Það er verið að búa til aukavandamál og gera miklu meira úr því en ástæða er til. M. a. s. er talað um að það sé skaði fyrir saltfiskframleiðendur að geta ekki selt þunnildin, hringormaþunnildin á erlendan markað. Hæstv. ráðh. sagði áðan að m. a. væri það skaði í sambandi við saltfiskframleiðsluna að rýrnun ætti sér stað vegna þess að ekki væri hægt að selja þunnildin sem væru skemmd af hringormi. Mikil eru ósköpin.

Mér dettur í hug þegar verið er að tala um þennan kostnað við þennan sjálfsagða þátt í okkar framleiðslu: Hvað skyldi hafa kostað af aflúsa Íslendinga? Þetta er eitthvað nálægt því, að vera að býsnast yfir því að leggja í kostnað til þess að gera vöruna hæfa til sölu á erlendum markaði. Mér finnst furðulegt — ég er sjálfur fiskframleiðandi og hef fengist við þetta í áratugi — að á hv. Alþingi skuli trekk í trekk vera gert svo mikið úr þessu sjálfsagða máli, sem er að koma okkar vöru á erlendan markað. Þetta er ekkert meira vandamál og ekkert meiri kostnaður en ákveðinn hluti við framleiðslu þessarar vöru. Það er býsnast yfir því að hringormurinn sé eitthvað miklu meiri í fiskinum núna en hann hefur verið undanfarandi ár og talað um að nauðsynlegt sé vegna minnkandi sjávarafla að taka nú vel til hendinni að verjast því að hringormurinn komi í fiskinn. Meiri hringormur er m. a. afleiðing þess að minni fiskur er á miðunum. Hver sá sem skilur lífkeðjuna gerir sér ljóst að um leið og minni fiskur er á miðunum leggst þessi ormur frekar á þá fáu titti sem fyrir hendi eru heldur en þegar fullt er af fiski.

Ég get sagt þær fréttir af Breiðafirði núna að sá fiskur sem hefur verið að fiskast þar er mjög hringormalítill. Af hverju er það? (Forseti hringir.) Vegna þess að sá mikli fiskur hefur komið af djúpmiðum, hann er ekki fiskaður á grunnmiðum heldur göngufiskur. Sá fiskur sem við sækjum á djúpmið er tiltölulega ormalítill.

Þess vegna segi ég þetta að mér finnst mikið til lagt að eyða þremur dögum af vinnutíma Alþingis til þess að ræða hringorminn. Ég er ekki endilega að gera mjög lítið úr því að við eigum að fara þessa leið og þetta er einn hluti okkar kostnaðar, en mér finnst vera of mikið gert úr þessu. Þetta er sjálfsögð og eðlileg ráðstöfun sem við áttum fyrir löngu að vera búin að taka upp í saltfiskinum. Við lentum þarna í ákveðnum erfiðleikum vegna þess að við vorum ekki tilbúnir að sinna okkar mörkuðum á þann sjálfsagða máta að hreinsa hringorminn burt.

Ég vil líka segja það að ég er nokkurn veginn viss um að af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir f íslenskum sjávarútvegi í dag séu flestöll mál nærtækari en þetta að spjalla um. Ég veit að við gætum sparað okkur í dag svipað og við eyðum í hringorminn ef við tryggðum það að allur fiskur sem á íslensk skip kemur væri blóðgaður eins fljótt og hægt er eftir að hann kemur inn á skip. Það hefur verið þannig núna á vertíðinni í vetur að um leið og netum hefur fækkað þá hefur mönnum verið fækkað um leið. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að hann er búinn að tala tvöfaldan þann tíma sem leyfilegt er.) Þá mun ég ljúka máli mínu, herra forseti. Þá hefur verið sleppt að blóðga fisk þar til búið er að draga hverja trossu. Hvað ætli þau vinnubrögð kosti íslenskan sjávarútveg? Ég held að menn ættu að velta svona vandamálum fyrir sér frekar en þessu vandamáli sem við erum búin að vera með hér í þrígang.