24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4804 í B-deild Alþingistíðinda. (4221)

292. mál, ráðstöfun kjarnfóðurgjalds

Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Með breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. frá 29. maí 1981 voru Framleiðsluráði veittar víðtækar heimildir til stjórnunar á landbúnaðarframleiðslunni. Skv. lögunum er landbrh. heimilt með reglugerð, að fengnum tillögum Framleiðsluráðs og Stéttarsambands bænda, að ákveða gjald á innflutt kjarnfóður. Að fengnum tillögum sömu aðila getur landbrh. ákveðið endurgreiðslu kjarnfóðurgjaldsins til bænda áð hluta eða öllu leyti eða niðurfellingu þess, m. a. mismunandi eftir svæðum vegna harðæris, uppskerubrests eða til að auka framleiðslu búvöru sem skortur er á, eins og í lögum segir. Með reglugerð sumarið 1981 var kjarnfóðurgjald lagt á og hefur svo verið síðan. Bændur hafa ekki verið á eitt sáttir um álagningu þessa gjalds né ráðstöfun þess.

Á s. l. vori stefndi í meiri áburðarhækkun milli ára en dæmi voru til eða 120%. Orsakir þessa voru fyrst og fremst óðaverðbólga sem þá geisaði og slæm staða Áburðarverksmiðju ríkisins. Þáv. ríkisstj. fór þá leið til að koma í veg fyrir hina gífurlegu áburðarhækkun að greiða hækkunina annars vegar niður úr ríkissjóði og að verja úr kjarnfóðursjóði 40 millj. til niðurgreiðslu á áburði hins vegar. Þrátt fyrir þetta varð hækkunin um 70% til bænda. Nokkur óánægja varð meðal bænda um þessa ráðstöfun kjarnfóðurgjaldsins, en játa verður að hún var óhjákvæmileg í stöðunni.

Frá því að þessi ráðstöfun var gerð í fyrravor hefur verðbólga farið mjög niður. Nú hefur nýlega verið tilkynnt nýtt áburðarverð og er þar um að ræða 43.5% hækkun. Enn sem fyrr var nauðsynlegt að áburður hækkaði sem minnst svo sú hækkun færi ekki út í verðlagið og afleiðingin yrði stórhækkun á landbúnaðarvörum. Það er trúa mín að ef tekist hefði að halda áburðarverði að verulegu leyti niðri með því m. a. að verja kjarnfóðurgjaldi til niðurgreiðslu hans, sem ekki var gert að þessu sinni, þá hefði það sannarlega verið gott innlegg í verðbólgubaráttunni. Þótt allir hefðu ekki verið á eitt sáttir um þá ráðstöfun held ég að hún væri óhjákvæmileg við núverandi aðstæður. Því vænti ég þess eindregið að þetta mál verði endurskoðað.

Með ofangreint í huga hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 567 svohljóðandi fsp. til landbrh. um ráðstöfun kjarnfóðurgjaldsins:

„1. Hverjar voru tekjur af kjarnfóðurgjaldi árið 1983?

2. Hvernig var þeim varið?

3. Hvað eru þessar tekjur áætlaðar miklar árið 1984 og hvaða áætlanir liggja fyrir um ráðstöfun þeirra?

4. Hvers vegna var ekki hluta gjaldsins ráðstafað upp í áburðarverð í ár eins og árið 1983?“