24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4807 í B-deild Alþingistíðinda. (4224)

292. mál, ráðstöfun kjarnfóðurgjalds

Fyrirspyrjandi (Eggert Haukdal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin svo langt sem þau náðu. Rétt var það, að í vetur var nokkuð gert að því að greiða niður áburð, um 28 millj. En ég vildi ítreka að með ráðstöfuninni í fyrra kom framlagið úr kjarnfóðursjóði á mjög löngum tíma inn í verðlagið og varð það með þeim hætti miklu sársaukaminna. Það er eitt meginmál þessarar ríkisstj. að halda niðri verðbólgu og nota allar mögulegar ráðstafanir til þess. Þess vegna átti í stöðunni núna að semja um að kjarnfóðurgjaldið, og kannske var hægt að semja um það við framleiðendur, færi ekki inn í verðlagið. Það eru allra hagsmunir í dag, bænda sem annarra, að halda verðlaginu niðri og stemma stigu við verðbólgunni.

Ég þakka svörin og fagna þeim ummælum hæstv. ráðh. í lokin að þetta mál er enn til skoðunar. Ég vænti þess að kjarnfóðurgjaldið verði að hluta nýtt í því skyni að greiða niður áburð.