24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4808 í B-deild Alþingistíðinda. (4227)

292. mál, ráðstöfun kjarnfóðurgjalds

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Mér láðist að geta um breytingar á innheimtu kjarnfóðurgjalds, sem hv. 1. þm. Norðurt. v. spurði um. Það er vitanlega eitt af því sem hefur áhrif á upphæð þess. Eftir tillögu Framleiðsluráðs hef ég samþykkt að sett verði hámark á gjaldið, af hverju tonni 2 þús. kr. Þar sem þetta er prósentugjald leggst það nokkuð misjafnt á eftir því hvernig aðstaða er fyrir bændur að fá kjarnfóður, eftir því hvort þeir fá það frá innlendum fóðurblöndunarstöðvum eða verða að kaupa það erlendis frá. Samkvæmt samþykktum aðalfundar Stéttarsambands bænda gerði Framleiðsluráð tillögu um hámark gjaldsins til að draga úr þessum mismun. Ég féllst á það þar sem að ég hef talið að rétt væri að reyna að verða við óskum framleiðenda í þessum málum.

Hv. 11. landsk. þm. ræddi um að kjarnfóðurgjaldið væri ekki stjórntæki og vitnaði í að kjarnfóðurverð væri hlutfallslega ekki hærra en það var fyrir 10 árum. Það er rétt að erlendis eru mjög miklar niðurgreiðslur á kjarnfóðri til útflutnings. Það hefur þau áhrif að erlenda fóðrið stendur í beinni samkeppni við innlenda fóðurframleiðslu hér. Má því segja að gjaldið sé að hluta til til þess að vega á móti erlendum niðurgreiðslum þannig að þær hafi ekki óeðlilega mikil áhrif á innlenda fóðurframleiðslu.

Það er stefna allra okkar nágrannaþjóða a. m. k. að reyna að vernda innlendu landbúnaðarframleiðsluna á slíkan hátt. Lög þau sem Alþingi hefur sett heimila Framleiðsluráði þetta stjórntæki til að hafa áhrif á heildarframleiðsluna sem við erum í erfiðleikum með að selja vegna hinna þröngu markaðsskilyrða. Ef þetta væri fellt niður er alveg augljóst að við þær aðstæður sem við búum við yrði að grípa til einhvers annars í staðinn, sem er miklu flóknara mál en hægt er að fara út í umr. um undir þessum dagskrárlið.