24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4812 í B-deild Alþingistíðinda. (4234)

312. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Fyrirspyrjandi (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Skýrsla starfshóps um flugrekstur Landhelgisgæslunnar hefur nú verið trúnaðarmál ríkisstj. í hartnær tvo mánuði. En í blaðinu Flight International frá 9. mars s. l. segir að starfshópurinn hafi mælt með kaupum á Aerospatiale SA 365 N og fyrirhugi íslenska ríkisstj. þessi kaup. Hvaða aðili hefur tekið sér þann rétt að upplýsa erlend blöð um atriði sem ekki hefur mátt segja landsmönnum sjálfum núna í tvo mánuði?

Komið hefur fram í umræðum um þyrlukaupamálið að Landhelgisgæslan hefur ekki gert upp við sig hvert hlutverk og starfssvið þyrlunnar á að vera. Það þýðir að þær kröfur sem settar eru fram um getu vélarinnar byggjast á öðrum forsendum en fyrirhuguðum þörfum Gæslunnar. Sem dæmi til skýringar má nefna að bandaríska strandgæslan hefur ákveðið kaup á Aerospatiale SA 365 N til að sinna skilgreindum verkefnum á stuttum vegalengdum af því að hún á aðrar þyrlur til að sinna verkefnum á fjarlægari slóðum. Hefði ekki verið eðlilegra við þessar aðstæður að starfshópur þeirra aðila sem sinna björgunarstörfum hefði í samráði við Landhelgisgæslu unnið verklýsingu þar sem skilgreint væri verksvið fyrirhugaðrar þyrlu með það í huga að nýting hennar yrði sem mest og best?

Nú er það að því er okkur er fortalið ekki fastákveðið hvaða þyrla verði keypt nema maður trúi fréttum erlendra blaða. En margt virðist þó benda til þess að það verði Aerospatiale SA 365 N sem verði fyrir valinu.

Við það tel ég mjög margt að athuga. Ég tel nauðsynlegt að menn fái að ræða þessi kaup opinskátt en ekki í einhverjum bakherbergjum ráðuneyta fyrir luktum dyrum. Vil ég þar til athugasemda einkum nefna tvö atriði:

Eins og áður segir hefur bandaríska strandgæslan ákveðið kaup á sams konar þyrlum og hér um ræðir. Upphaflega átti að afhenda þessar þyrlur 1. nóv. 1981. Sá frestur var framlengdur til september 1982, síðan til nóvember 1982, svo til október 1983, síðan til desember 1983 og nú síðast til janúar 1984. Enn hefur ekki ein einasta þyrla verið afhent. Það sem lengst af hefur valdið vandræðum núna s. l. ár er að þyrla sú sem hér um ræðir missir vélarafl í snjókomu. Má það sjá í grein í ritinu Aviation Week and Space Technology, 23. janúar 1984.

16. janúar er skýrt frá því í sama blaði að fyrirtækið Aerospatiale eigi í miklum kröggum og komi það einkum niður á flugvéla- og þyrluframleiðslu. Sem dæmi er tiltekið að fjöldi framleiddra SA 365-véla lækki úr 16 í 5 á mánuði á þessu ári. Þessi staðreynd gæti skýrt ýmsa erfiðleika fyrirtækisins við að uppfylla þau skilyrði sem bandaríska strandgæslan hefur sett eins og drátturinn á afhendingunni sýnir.

Ég tel það mjög vanhugsað og meira að segja hættulega tilraun að ætla sér að kaupa þyrlu sem lítil sem engin reynsla er af og íslenskum sjófarendum sé lítill greiði gerður ef af þessum kaupum yrði. Þess vegna hef ég leyft mér að setja hér fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um þessi þyrlukaup í fjórum liðum:

1. Verður Alþingi kynnt hvernig vali á björgunar- og gæsluþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna er háttað?

2. Verða Alþingi kynntar umsagnir Slysavarnafélags Íslands, Flugbjörgunarsveitarinnar, Hjálparsveitar skáta og annarra aðila sem umsagnir hafa gefið um þyrlukaupin?

3. Hefur verið leitað umsagnar Björgunarsveitar varnarliðsins eða annarra erlendra, sérfróðra aðila í björgunar- og gæslustörfum um fyrirhuguð þyrlukaup?

4. Hvaða skýringar gefur dómsmrh. á þeirri frétt sem ég nefndi áðan?

5. Hvort á að kaupa eina eða tvær þyrlur?