24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4814 í B-deild Alþingistíðinda. (4236)

312. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er slæmt að hafa ekki nema tvær mínútur til þess að ræða þetta stóra mál. Vonandi fær maður að taka til máls aftur.

Hæstv. dómsmrh. sagði að sú nefnd sem vinnur að málefnum Gæslunnar hafi fengið þetta mál til skoðunar. Nefndin var aðeins spurð um eitt atriði og það var: Mælir nefndin með því að keypt verði björgunarþyrla eða ekki? Auðvitað sagði nefndin já. Hún var hins vegar ekki spurð neitt um það hvort hún vildi kaupa miklu minni þyrlu, þyrlu sem er hrein „prototypé“ og hefur ekki verið flogið nema 80 til 100 klst. Nefndin var sem sagt ekki spurð um það hvaða tegund henni litist best á.

Það sem mér finnst alvarlegast í því sem hæstv. ráðh. sagði var að Landhelgisgæslunni hefði verið heimilað að leita eftir kaupum á þyrlu í trausti þess að þeir mundu velja hagkvæmustu og heppilegustu flugvélarnar. Hver er reynslan í því? Muna menn það ekki þegar Landhelgisgæslan fór á stúfana til að kaupa sér flugvél fyrir nokkrum árum? Þeir keyptu sér ekki ódýra flugvél, þeir keyptu sér 50 manna farþegaflugvél, tækjalausa og allslausa, ekki einu sinni tilbúna undir tréverk. Hvað segja þeir nú sem vilja hæla Fokkernum og segja að ekki þurfi annað en að kaupa í hann 360 gráðu radar? Það er ekki eins og það eigi að fara að hengja auglýsingu upp á vegg, það þarf að gerbreyta flugvélinni. Sú aðgerð ein að setja í hann 360 gráðu radar með scannerhúsi kostar það að lengja þarf á henni lappirnar, það þarf að breyta burðarbitum flugvélarinnar. Þessi breyting með tækinu kostar á þriðju milljón dollara. Ef ég fengi þá peninga í hendurnar skyldi ég kaupa handa hæstv. dómsmrh. miklu betri flugvél, sem getur meira, þolir meira, flýgur hærra og flýgur hraðar og er miklu betri í alla staði, bara fyrir þann pening einan. Ég treysti Landhelgisgæslunni ekki til þess að velja heppilegasta kostinn og þaðan af síður þann hagkvæmasta. (Gripið fram í.) Já, er það sölumaður Puma-verksmiðjunnar sem veifar? Menn hafa orðið býsna franskir í hugsunarhætti þegar þeir hafa verið að tala um þyrlur að undanförnu og það er svo sem ekki að undra vegna þess að á s. l. ári komu hér franskir sölumenn með geysilega öfluga þyrlu til Íslands til sýnis. Eftir að þeir sáu þær hafa þeir ákveðið að kaupa mjög litlar þyrlur og óreyndar. Hins vegar er Puma-vélin svo dýr að við teljum okkur ekki hafa efni á að kaupa hlutinn.

Herra forseti. Ég tel einmitt nauðsynlegt að láta þá nefnd, sem hefur verið að fjalla um þessa hluti fyrir Gæsluna, fá það verkefni að selja vélar og kaupa vélar í staðinn. Ég treysti ekki þeirri nefnd, jafnvel þótt stjórnmálafræðingur sé formaður hennar.