24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4816 í B-deild Alþingistíðinda. (4238)

312. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Þegar þyrlukaup, þyrlurekstur ber á góma verður mönnum gjarnan heitt í hamsi, að maður nú ekki tali um björgunarflug eða Björgunarsveit varnarliðsins. Mér datt því f hug í þessu sambandi að rifja upp minnisblað sem fyrrv. flugmálastjóri Agnar Kofoed-Hansen lét mér eitt sinn í té, með leyfi forseta, því að mér finnst að menn séu oft heldur fákunnandi um aðdraganda þessara mála:

„Í mars-apríl 1946 stóð fyrsta ráðstefna ICAO, þá PICAO, um málefni flugs og flugöryggis á Norður-Atlantshafi. Á dagskrá ráðstefnunnar voru málefni varðandi stofnun og staðsetningu framtíðarskipulags flugbjörgunarsveita fyrir Norður-Atlantshaf. Eftir miklar umr. var m. a. samþykkt að flugbjörgunarsveit skyldi staðsett á Íslandi, kostuð af alþjóðafé og rekin af Íslendingum. Bretar höfðu beitt sér gegn þessari samþykkt þar sem í þeirra hlut hlaut að koma allstórt framlag af sameiginlegum kostnaði. Sneru þeir sér því til Bandaríkjanna og fóru fram á það að þeir tækju að sér að reka þessa þjónustu á sinn kostnað meðan þau héldu aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Var að sjálfsögðu á þetta fallist af öllum aðilum af hagkvæmnisástæðum.

Þannig er því tilkoma hinnar alþjóðlegu flugbjörgunarstöðvar á Keflavíkurflugvelli sem veitt hefur mörgum þjóðum, þ. á m. Sovétmönnum og Íslendingum, ómetanlega þjónustu á undanförnum áratugum. Allt tal um það að Íslendingar geti ekki verið þekktir fyrir að láta Bandaríkjamenn bjarga íslenskum mannslífum á sjó eða landi er því með öllu óskiljanleg staðhæfing þar sem hér er um hlekk úr alþjóðlegu kerfi að ræða.

Kaup stórrar þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna, til þess að hún geti tekið þetta verkefni að sér, eru einnig út í bláinn. Til þess þyrfti að koma upp algerlega hliðstæðri þjónustu við þá sem nú er á Keflavíkurflugvelli, en það mundi árlega hafa milljarðakostnað í för með sér.

Hjálagt leyfi ég mér að senda upplýsingar um fyrirkomulag starfsemi þessarar í nágrannalöndunum sem einnig er hluti af heildarskipulagi flugbjörgunarþjónustu á Norður-Atlantshafi skv. samþykkt í mars 1946 í Dublin.“

Þetta vildi ég leyfa mér að rifja upp nú til skýringa. En þó ég hafi látið þessi orð falla og upplýsingar skal það skýrt tekið fram að ég er heils hugar fylgjandi því að Landhelgisgæsla Íslands verði sem allra best búin gæslu- og björgunartækjum, skipum, flugvélum og þyrlum með fullkomnasta öryggis- og tæknibúnaði sem völ er á og svarar kröfum tímans. Hlutverk Gæslunnar er vissulega mikilvægt hér eftir sem hingað til. Hana verðum við að efla svo sem frekast er kostur og fjárhagur leyfir eins og nágrannaþjóðir okkar telja sér skylt og sjálfsagt.