24.04.1984
Sameinað þing: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4817 í B-deild Alþingistíðinda. (4239)

312. mál, lækkun húshitunarkostnaðar

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Þar sem í annað sinn á tiltölulega skömmum tíma á þinginu í vetur koma nú til umfjöllunar störf þingkjörinnar nefndar sem átti að skoða starfsemi Landhelgisgæslunnar þykir mér tilhlýðilegt að gera örstutta grein fyrir því sem við höfum verið að fást við að undanförnu, þessi þingkjörna nefnd sem ég er formaður fyrir. Jafnframt vil ég að þegar verið er að tala hér um nefnd sem er að skoða þyrlurekstur Landhelgisgæslunnar átti menn sig á því að þá er verið að tala um sérstakan starfshóp sem forstjóri Landhelgisgæslunnar skipaði og í eiga sæti tveir eða þrír starfsmenn Landhelgisgæslunnar og einn starfsmaður fjárlaga- og hagsýslustofnunar. Nauðsynlegt er að mönnum sé það ljóst að hér er annars vegar verið að tala um till. hans og hugmyndir um val á þyrlutegund fyrir Landhelgisgæsluna og hins vegar það álit sem þingkjörna nefndin lét frá sér fara um málið.

Eins og fram kom í máli hæstv. dómsmrh. var það að hans ósk að þingkjörna nefndin tók málið til skoðunar og umfjöllunar og við fengum frá honum send þau gögn sem honum hafði borist um málið, þ. á m. álit þessa starfshóps sem forstjóri Landhelgisgæslunnar skipaði sérstaklega.

Eins og fram kom í máli hv. 4. þm. Suðurl., Garðars Sigurðssonar, sem á sæti í þingkjörnu nefndinni, vár það rétt að við töldum það ekki hlutverk okkar í þessari þingkjörnu nefnd að fjalla um það hvaða þyrlutegund ætti að kaupa, a. m. k. ekki á þessu stigi án frekari tilmæla. Ef við hins vegar hefðum fengið þau eða mundum fá slík tilmæli mundum við taka málið upp að nýju. En eins og það var fyrir lagt töldum við það ekki vera okkar hlutverk. Nefndin þyrfti líka sérfræðilega aðstoð ef hún ætti að skoða málið í því ljósi og gefa upplýsingar um þyrlutegundir, um það hvað einstök tegund hefði umfram aðra, bera saman verð o. s. frv., o. s. frv. Þetta gerðum við ekki heldur lögðum við til að Landhelgisgæslunni yrði útveguð þyrla, hún eignaðist þyrlu sambærilega við þá vél sem fórst í vetur, TF Rán, þyrlu sem hefði sömu eða hliðstæða möguleika til þess að vinna að gæslustörfum, björgunar- og hjálparstörfum eins og Rán gerði. Við teljum að eðlilegt sé að Landhelgisgæslan hafi slíka vél til umráða og eigi slíka vél. Hins vegar bentum við á að hugsanlegt væri á þessu stigi að leigja vél að sinni til þess að þjóna þessu verkefni meðan verið væri að semja um kaup á þeirri vél sem menn teldu að réttast væri að Gæslan ætti og ræki. Ég ætla ekki á þessu stigi — enda vart tími til þess — að fjalla neitt um það frekar.

Við fengum álit þessa starfshóps frá Landhelgisgæslunni þar sem fjallað er um hvaða vél ætti að kaupa og þeirra álit á því. Þeir skoðuðu sérstaklega fjórar þyrlutegundir sem þeir töldu að hefðu hliðstæða möguleika og sú vél sem Gæslan átti. Sýnist sjálfsagt sitt hverjum um þær niðurstöður. En við í þessari þingkjörnu nefnd töldum það ekki okkar hlutverk á þessu stigi að skoða það mál nánar, eins og ég hef áður gert grein fyrir, heldur fyrst og fremst að leggja til að Landhelgisgæslan keypti og ætti þyrlu og sem hefði sambærilega möguleika og TF Rán hafði.

Í fsp. er einnig spurt um samstarf við varnarliðið. Við í þingkjörnu nefndinni teljum að það mál megi hugsanlega athuga en það er bara ekki tímabært eins og er. Á döfinni eru veigamiklar breytingar á rekstri varnarliðsins á þeim þyrlum sem það hefur til umráða nú. Við þurfum þess vegna að leysa okkar mál á annan hátt og þá í samræmi við það sem verið hefur og við teljum rétt og eðlilegt að Landhelgisgæslan geri.