25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4841 í B-deild Alþingistíðinda. (4254)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ég vil við þessa umr. þakka hæstv. iðnrh. fyrir vasklega framgöngu í þessu máli, að koma málum járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga í þann farveg að við getum vænt þess að þar verði um bjartari framtíð að ræða en verið hefur. Einnig vil ég þakka sérstaklega stóriðjunefnd sem að þessum málum hefur unnið undir stjórn hæstv. iðnrh.

Að mínu mati hefur tekist vel til með þessar ráðstafanir. Það má auðvitað alltaf deila um einstakar gerðir í hverjum samningum en heildarramminn, sem blasir við mér, er góður. Ég vil sérstaklega færa þakkir vegna þess að í þessari verksmiðju okkar var orðin ríkjandi mikil svartsýni s. l. sumar og lá við að haft væri í hótunum um það að þessari verksmiðju yrði lokað og öllu starfsfólki sagt upp. Það er mjög viðkvæmt mál við slíkt stórfyrirtæki og atvinnusvæði sem þarna er. Þess vegna vil ég aðeins ítreka þakkir mínar til iðnrh. fyrir það hvað hann hefur tekið vasklega á þessu máli og vonast til þess að þarna verði um gæfuríkt spor að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf.