25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4843 í B-deild Alþingistíðinda. (4255)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem um þetta mál mun fjalla og sé því ekki ástæðu til að fjölyrða um það á þessu stigi. Þó þótti mér ástæða til að koma hingað upp og láta þá von í ljós að þetta mundi verða í síðasta skipti sem það yrði hlutskipti iðnrh. að koma í ræðustól á Alþingi með gögn og tillögur í höndum um að leysa fjárhagsvanda járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Ég vona að með þeim aðgerðum, sem hér er verið að leggja til, og með þeim er verið að rétta hag þessa fyrirtækis, en létta fjárhagsbyrðum af almenningi, sé þessari göngu nú lokið og rekstur fyrirtækisins á næstu árum og áratugum verði ekki með því lagi sem verið hefur hingað til. Hæstv. iðnrh. lýsti í ræðu sinni áðan að á fyrirtækinu hefði verið taprekstur allan tímann, en að öðru leyti hefði rekstur þess gengið að óskum. Það er að mínu viti ekki góð lýsing á rekstri fyrirtækis.

Ég vil benda á það líka að hér er verið að leggja til að samið sé við japanskt fyrirtæki um eignarhlut og þátttöku í rekstri járnblendiverksmiðjunnar. Það minnir okkur á að Japanir, þessi mikla iðnaðarþjóð, eru á þeirri leið núna að losa sig við stórverksmiðjurekstur. Japanir eru að koma því á aðra aðila að annast framleiðslu á járnblendi, jafnvel stáli og öðrum slíkum þungavarningi. Í staðinn fyrir það koma þeir sér nú í auknum mæli upp léttiðnaði. Stefna þeirra viðskiptaaðila sem við Íslendingar erum nú að tengjast í sambandi við stóriðjurekstur er á þann veg að þeir eru að losa sig við slíkan rekstur og koma honum yfir á aðra, en sjálfir byggja þeir upp léttan iðnað. Ætti það e. t. v. að vera hlutskipti okkar að snúa á þann veg líka?

Í öðru lagi kemur fram í þessu frv. að hlutur Elkem minnki í sama hlutfalli og þátttaka Sumitomo verður í fyrirtækinu, en samningur við Elkem í sambandi við kostnað af tækniþjónustu skal óbreyttur standa. Okkur sem höfum fylgst með gangi verksmiðjunnar á Grundartanga hefur fundist sárt að vita til þess að erlent fyrirtæki tæki allt of mikið fyrir slíka þjónustu. Það er almennt viðurkennt að íslenskir verkamenn og íslenskir tæknimenn séu í engu eftirbátar Norðmanna í sambandi við rekstur fyrirtækis eins og verksmiðjunnar á Grundartanga. Það er að mínu mati, og ég veit að það er að mati starfsmanna verksmiðjunnar, alrangt að Elkem séu borgaðar stórar fjárhæðir vegna slíkrar þjónustu. Ég gagnrýni að enn skuli sá hlutur standa óbreyttur að Elkem njóti ákveðinnar greiðslu fyrir tækniþjónustu við verksmiðjuna þrátt fyrir að Elkem hafi minnkað sinn hlut í rekstrinum.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að ég vænti þess að það sem hér er verið að leggja til að gert verði verði til þess að taprekstur á þessu fyrirtæki sé úr sögunni og, eins og hæstv. iðnrh. sagði í ræðu sinni, að þátttaka þriðja aðilans í rekstri og eignaraðild að þessu fyrirtæki leysi aðalvandamál þess til framtíðar. Að öðru leyti áskil ég mér vitaskuld allan rétt til að leita frekari upplýsinga um þetta mál við vinnu í nefndinni. Ég veit að hv. 4. þm. Vestf., formaður iðnn., mun leggja sig fram um að veita okkur upplýsingar og leita að upplýsingum í sambandi við þetta mál þegar málið verður til umr. í iðnn.