25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4844 í B-deild Alþingistíðinda. (4256)

321. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég lýsi stuðningi við þetta frv. Ég held að þær aðgerðir sem í því felast séu skynsamlegar og raunhæfar í þeirri stöðu sem þetta fyrirtæki er í núna og í ljósi sögu þess og er þeirrar skoðunar að þetta renni styrkari stoðum undir rekstur þessa mikilvæga fyrirtækis. Þess vegna mun ég greiða frv. atkv. þegar þar að kemur í þessari hv. þd.

Það er vissulega rétt að gengið hefur á ýmsu um rekstur þessa fyrirtækis fram til þessa, en vonandi breytist það nú til betri vegar. Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði í sinni ræðu að þegar þetta mál var á byrjunarstigi hefðu legið fyrir viðamikil gögn sérfræðinga margra greina um hversu bjarta og blómlega framtíð þetta fyrirtæki ætti í vændum og þessi gögn og þessar spár hefðu reynst fleipur eitt. Rétt er það að spár hafa ekki ræst á þann veg sem menn vonuðu þegar þetta fyrirtæki var stofnað, það er alveg rétt, en þegar menn gera sér hugmyndir um hvernig slíkum fyrirtækjum muni vegna áður en þau eru sett á stofn er það auðvitað mörgum óvissuþáttum háð. Hér reyndust óvissuþættirnir vissulega fleiri en menn höfðu átt von á og þróun okkur miður hagkvæm í þessum efnum kom á daginn. En að kalla stofnun þessa fyrirtækis mestu fjárfestingarmistök sem Íslendingar hafi gert, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði, er auðvitað gersamlega út í hött og úr lausu lofti gripið. Mér þætti fróðlegt að vita hvort hv. 4. þm. Vesturl. tekur undir þau ummæli flokksbróður síns og vill endurtaka þau fyrir sínum kjósendum á Akranesi. Ég trúi ekki að hann taki undir þau og veit raunar að hann gerir það ekki.

Ef meta á hver eru mestu fjárfestingarmistök seinni ára og hver fjárfestingarmistök stjórnvalda hafi orðið íslenskum skattborgurum dýrust hygg ég að þar sé ofarlega á blaði fyrirtæki sem hv. 3. þm. Norðurl. v. þekkir næsta vel og ber nokkra ábyrgð á, þar sem er Kröfluvirkjun í Mývatnssveit. Ég held að það liggi langtum nær að kalla það ólukkufyrirtæki, sem því miður hefur verið, mestu fjárfestingarmistök seinni ára, að ekki sé sterkar að orði kveðið. Þar var það nefnilega ekki svo að það lægju fyrir ítarlegar greinargerðir hinna færustu sérfræðinga, sem sjálfsagt hefðu getað reynst mistraustar, heldur var þar látið vaða á súðum án tillits til varnaðarorða ýmissa sérfræðinga. Í þessu felst auðvitað reginmunur.

Það er svo aftur saga sem ekki er ástæða til að rifja upp í löngu máli hver afskipti flokkur þeirra tveggja hv. þm. sem töluðu síðast hafði af upphafi þessa máls, þegar stofnað var til samninga og samskipta við bandaríska auðhringinn Union Carbide, sem síðan dró sig út úr málinu, og allt það frumkvæði sem Alþb. á sínum tíma hafði um upphaf þessa máls, þó að þar væru raunar skiptar skoðanir innan dyra og ýmislegt gerðist síðar þegar Alþb. hvarf úr ríkisstj. Þá breyttist skoðun þess skyndilega og undrafljótt á þessu máli. Þá fór hv. þm. flokksins og reisti níðstöng þar sem verksmiðja þessi nú er risin. Allt var þetta með miklum endemum.

Svo gerist það aftur síðar, þegar Alþb. er aftur komið í ríkisstjórn og hefur þar forræði iðnaðarmála, að þá leggur sá flokkur til, þrátt fyrir erfiðleika Grundartangaverksmiðjunnar sem öllum voru ljósir og blöstu við, að nær sams konar, allavega mjög skyld og lík, verksmiðja verði reist á fjörðum austur, og má þó segja að ekki hafi horfurnar þar verið miklu byrlegri í rauninni um reksturinn og kannske nákvæmlega jafnmikið að marka spár og tillögur sérfræðinga um framtíð þeirrar verksmiðju. En þá horfðu hlutirnir öðruvísi við. Þetta er satt best að segja undarleg og merkileg tvöfeldni.

Við höfum öðlast nokkra reynslu að því er varðar rekstur stóriðjufyrirtækja af þessu tagi. Hún hefur vissulega verið dýrkeypt að ýmsu leyti. Við erum reynslunni ríkari. Það má auðvitað endalaust um það deila hvort sú reynsla hafi verið þess verðs virði sem hún var keypt. Hún var keypt dýru verði, það skal ég játa. En ég hygg þó að þær framkvæmdir sem við höfum ráðist í á þessu sviði hafi verið óhjákvæmilegar og við eigum ekki að láta staðar numið þar. Við eigum að nýta okkar orku í þessum efnum, en við eigum ekki að einblína á stóriðju. Það er auðvitað hárrétt, sem hv. síðasti ræðumaður Skúli Alexandersson sagði, að við eigum líka að horfa á annan iðnað — þann iðnað sem einkum og sér í lagi krefst þeirra hráefna sem eru menntun, tækniþekking og kunnátta.

Kannske skortir okkur mest á í þeim efnum reynslu og kunnáttu til að selja framleiðsluvörur okkar, til að selja tækniþekkingu, til að selja ýmiss konar hugvit. Og hver er skýringin á því? Ég held að skýringin á því sé sumpart sú, að meðan innflutningur hér á landi hefur verið gefinn frjáls er útflutningur enn í viðjum einokunar og leyfakerfis. Þeir einstaklingar sem hafa viljað starfa á þessum vettvangi, sem hafa viljað starfa að kaupsýslu, sölumennsku og ýmiss konar framkvæmdum á þessu sviði, hafa allir snúið sér að innflutningi og að selja innflutningsvörur. Ég held að það hefði verið nokkuð hagkvæmara í þeirri þróun sem orðið hefur ef fleiri einstaklingar hefðu fengið að spreyta sig á útflutningi og þeirri sölumennsku sem þar fylgir. Staðreyndin er sú að allur útflutningur héðan hefur verið og er í höndum örfárra manna, í höndum örfárra fyrirtækja sem sum hver eru hrein einokunarfyrirtæki. Ég held að þarna sé ein af meginmeinsemdum okkar atvinnulífs. Okkur hefur ekki lærst og við kunnum ekki að koma okkar nýjungum, okkar framleiðslu nægilega vel á framfæri, að markaðssetja eins og það hefur verið kallað á vondu máli. Ég held að þarna sé veikur hlekkur í okkar kerfi.

Það mætti svo sem sitt af hverju fleira segja um þetta mál. En að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka stuðning við þetta mál og leggja ríka áherslu á að utanaðkomandi aðstæður hafá valdið erfiðleikum í þessari grein — aðstæður sem við höfum átt ómögulegt með að sjá við eða bregðast við, sem við höfum ekki með neinu móti fengið við ráðið. En rekstur þessa fyrirtækis, reksturinn sjálfur, hefur gengið vei. Þarna eru hæfir starfsmenn og þetta fyrirtæki er vel rekið, þar er vel unnið og því er vel stjórnað. Ég hygg að framleiðni og afköst og vinnubrögð öll í verksmiðjunni á Grundartanga séu með því besta sem þekkist í veröldinni í verksmiðjum af þessu tagi. Hingað hafa menn meira að segja komið um langan veg erlendis frá til að kynnast þeim og fylgjast með hvernig þarna er unnið. Þar er allt til fyrirmyndar. Loks endurtek ég að hér er um að ræða skynsamlegar ráðagerðir til að treysta þetta fyrirtæki, sem á ýmsan hátt hefur lent í mótbyr sem menn sáu ekki fyrir í upphafi og engin leið var að sjá fyrir, en margt bendir nú til þess og vonandi verður það raunin að í þessum efnum sé betri og bjartari tíð fram undan.