25.04.1984
Efri deild: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4853 í B-deild Alþingistíðinda. (4262)

181. mál, sala jarðarinnar Bæjarstæðis í Seyðisfjarðarhreppi

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Það er með góðri samvisku hægt að mæla fyrir samþykkt þessa frv. Hins vegar vildi ég geta þess — og það ættu menn að athuga þegar þeir flytja frv. um jarðasölur almennt séð, það nær ekki til hliðstæðna sem þessara hér — að í jarðalögum eru ákvæði um það að eftir 10 ára ábúðarrétt á jörð eignist leiguliði kauprétt á sama grundvelli og heimildarlög, sem almennt fjalla um jarðasölur, kveða á um. Ég held að í mörgum tilvikum sé allt í lagi þó að slík viðskipti bíði þess að menn eignist þá heimild.

En hér er hins vegar um að ræða miklu einfaldara mál og sjálfsagðara því að þessi jörð hefur verið nytjuð frá nábýlisjörð og þaðan hefur verð séð um fjallskil og aðra hirðu á jörðinni þannig að það er öllum fyrir bestu að jörðin komist að fullu og öllu í góðra manna hendur.

Það hefur aðeins verið gerð sú breyting frá upphaflega frv. að vitna til ábúðarlaga, jarðalaga, þar sem tilgreint er að viss og ákveðin réttindi séu undanskilin við jarðasölu, t. d. vatnsréttindi og námuréttindi. Það er í rauninni það sem hefur viðgengist að væri tekið undan þegar ríkissjóður hefur selt sínar jarðir þannig að á þessu er ekki mikil breyting frá því sem verið hefur.

Með hliðsjón af framangreindum skýringum hefur landbn. samþykkt að mæla með samþykkt frv. Einn nm., Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, er með fyrirvara en að öðru leyti eru nm. sammála.