25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4859 í B-deild Alþingistíðinda. (4278)

141. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Karvel Pálmason):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan kosið, ef forseti gæti séð svo til, að hæstv. iðnrh. væri viðstaddur þessa umr. vegna þess að ég tel að þetta, bæði umr. sem slík og málið í heild, höfði ærið mikið til hans: Vildi hæstv. forseti ekki grennslast fyrir um hvort hæstv. iðnrh. er í húsinu? (Forseti: Ég skal láta athuga hvort ekki er hægt að ná í hæstv. iðnrh.)

Ég skal á meðan, virðulegi forseti, halda áfram minni framsöguræðu, sem ég flutti hluta af fyrir röskum þrem vikum. — Hvað segir hv. þm. Halldór Blöndal á flækingi hér um deild, sem sjaldan er nú þó? — Það hugsa ég að heyri til nokkurra undantekninga að framsöguræða fyrir máli sé slitin í sundur með þeim hætti sem hér gerist í þetta langan tíma og sýnir kannske betur en margt annað þá áþreifanlegu staðreynd hve óbreyttir þm. stjórnarandstöðu á hverjum tíma eiga erfitt um vik að koma áfram málum sem þeir gjarnan vildu koma a. m. k. til skila í umr. þó svo ekki yrði nú meira. — Ég heyrði að einn stjórnarþm. kallaði hér fram í: Þetta á við um stjórnarliða líka.

Auðvitað er þetta gersamlega óþolandi. Ég vil taka það strax fram að ég er ekki að deila á núv. hæstv. forseta, en það er auðvitað óþolandi fyrir þm. að þeir skuli ekki með nokkuð eðlilegum og skikkanlegum hætti geta komið málum hér til umr. Þetta mál er lagt fram í des. s. l., 2. apríl fer fram hluti af framsögu fyrir málinu og núna 25. apríl fæst vonandi a. m. k. að ljúka framsögunni fyrir því. Þetta sýnir að á þessum tíma hefur verið hrúgað upp og þröngvað í gegn frumvörpum frá hæstv. ríkisstj. sem kannske er eðlilegra að gangi að öllu jöfnu fyrir í þinghaldinu. En það er með ólíkindum að mál skuli dragast á langinn með þeim hætti sem þetta frv. hefur þó gert og ég hygg að svo sé um mörg önnur frv. hv. þm. stjórnarandstöðunnar t. d., þó að við tökum ekki hina með.

Í fyrri hluta framsögunnar var ég búinn að rifja upp meginefni þessa frv., fór að vísu ekki í mjög ítarlegu máli út í allar greinar þess, en í meginatriðum var ég búinn að gera grein fyrir því hvað væri hér um að ræða: sem sagt að létta, a. m. k. gera tilraun til þess að létta, byrði þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem búa á hinum „köldu svæðum“ og búa við okurorkuverð á ýmsum sviðum, og á það ekki síst við um þann kostnað sem er samfara upphitun á íbúðarhúsnæði. Það ætti að liggja í augum uppi og ætti að vera öllum hv. þm. ljóst að ekki getur gengið að leggja slíkar byrðar á einstaklinga á þessum svæðum. Rösklega helmingur mánaðartekna verkamanns fer til að standa undir þessum þætti einum í heimilishaldinu. Það eru dæmi þess, a. m. k. á mínum heimavígstöðvum, að menn borga allt að 8–9 þús. á mánuði fyrir að hita upp sitt íbúðarhúsnæði á sama tíma og verið er að skammta launafólki lágmarkslaun í kringum 12 þús. kr. á mánuði. Ég hélt satt að segja að það ætti ekki að þurfa að hafa um það mörg orð hversu brýnt er að leiðrétta þennan þátt hjá þessu fólki.

Ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár í desembermánuði, rétt um þær mundir sem 2. umr. fjárlaga átti að fara fram, og gerði þá að umræðuefni einmitt þetta, að fá um það vitneskju með hvaða hætti hæstv. ríkisstj., og þá fyrst og fremst hæstv. iðnrh., ætlaði að taka á þessu máli við fjárlagaafgreiðsluna. Hæstv. iðnrh. lýsti því þá yfir í þingræðu í des., að strax á fyrstu dögum í janúar, eftir að þing kæmi saman eftir jólaleyfi, mundi hann leggja fram frv. þessa efnis. Fyrir um þrem vikum, þegar þetta mál var hér á dagskrá og ég vitnaði til þessarar yfirlýsingar hæstv. iðnrh., kallaði hann fram í úr sínum stól að frv. kæmi á morgun. Þetta er skjalfest í þingtíðindum. Fyrir um þrem vikum kom önnur yfirlýsing frá hæstv. iðnrh. þess efnis að frv. að þessu lútandi kæmi „á morgun“. Ég veit ekki til — ég bið menn að leiðrétta mig fari ég með rangt — að slíkt frv. sé fram komið enn, mér er ekki um það kunnugt, þannig að mér sýnist að það ætli að dragast hjá hæstv. iðnrh. að koma frá sér frv., og fer nú að verða hver síðastur, eigi það að afgreiðast á þessu þingi, að það fari að sjá dagsins ljós á borðum þm. Enn sé ég ekki hæstv. iðnrh. genginn í salinn, en það er ástæða til að spyrja: Hver er orsökin fyrir því að margítrekaðar yfirlýsingar hæstv. iðnrh. í þessum efnum standast ekki? Hver er dragbíturinn á að slíkt frv. sjái dagsins ljós hér á Alþingi, sem efnislega ætti að verða til þess að létta þessar byrðar? Hvaða aðilar eru það, séu þeir einhverjir, sem eru dragbítar í þeim efnum? Það er nauðsynlegt að fá vitneskju um slíkt, ekki síst í ljósi þessarar yfirlýsingar hæstv. ráðh. og umfram allt í ljósi þeirra erfiðleika sem þeir einstaklingar, sem hér eiga hlut að máli, eiga við að etja. Ég trúi því ekki að það hafi ekki fleiri hv. alþm. en ég fengið kvartanir, ályktanir, undirskriftir, allar á þann veg að þessu oki verði létt af heimilum almennings á hinum „köldu svæðum“, en ekkert virðist duga.

Í desembermánuði lauk þar til skipuð nefnd störfum, en hún átti að gera tillögur um úrbætur í þessum efnum. Nokkru áður hafði önnur nefnd, að ég best veit, skilað áliti varðandi þetta mál. Hæstv. iðnrh. lýsti því yfir í des. í utandagskrárumr. að svo stutt væri síðan sú nefnd, hin seinni, hefði skilað sér áliti og hann gæti ekki greint frá því þá. Mér vitanlega hefur ekki verið greint frá því síðan hvað sú nefnd lagði til að gert yrði. Mér sýnist því allt bera að sama brunni í þessu máli á þann veg að mestar líkur eru á því að ekkert eigi hér að gera í þessum efnum áður en Alþingi verður sent heim.

Ég held að ég hafi sagt það einhvern tíma áður í umr. um þessi efni að ég vildi ekki trúa því að núverandi hæstv. iðnrh. hefði ekki dug í sér til að koma máli af þessu tagi fram hér í þinginu og leiða það til lykta. En mér sýnist allt benda til þess, a. m. k. verður ekki annað séð, en þetta þing líði án þess að neitt verði gert í þessum efnum.

Ég hugsa að hv. alþm., ef þeir fengjust til að velta því fyrir sér hversu gífurlegar byrðar hér er um að ræða, þætti það hár reikningur, jafnvel á þeirra laun, að þurfa að borga þetta frá 6–9 þús. á mánuði fyrir þennan þátt einan í heimilishaldinu. Ég hugsa a. m. k. að þingmenn Reykjavíkurkjördæmis mundu kippast við ef þeir fengju reikning með þeirri upphæð heim til sin mánaðarlega bara vegna greiðslu á þessum eina þætti í heimilishaldinu. Því er mér það óskiljanlegt með öllu hversu þm., og þá fyrst og fremst hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðið, daufheyrast við þessum sjálfsögðu kröfum þeirra einstaklinga, sem hér eiga hlut að máli, um leiðréttingu þessa máls.

Menn geta vart vatni haldið sumir hverjir, heyrist mér, vegna þess sem þeir kalla misvægi atkvæða. Menn þvælast hér í ræðustól hver um annan þveran uppfullir fordóma um það óréttlæti, mannréttindabrot og önnur orð nota þeir í þeim dúr varðandi það mál. En það er ekki að sjá að menn finni neitt til með þeim einstaklingum sem þurfa að borga þúsundir króna á hverjum einasta mánuði til að sjá þeim þætti heimilishaldsins borgið sem kyndingarkostnaðurinn er.

Mér er óskiljanlegt hversu hæstv. ríkisstj., og ég tala nú ekki um hæstv. iðnrh., hversu linir þessir aðilar eru í þessu máli. — Virðulegi forseti. Hefur nokkuð orðið ágengt í að grennslast fyrir um iðnrh.? (Forseti: Hæstv. iðnrh. er bundinn í ræðustól í Ed.) Það þýðir að ég verð að tala hér þangað til hann lýkur sér af þar. (Gripið fram í.) Ekki væri það vandamál ef það ruglar hann ekki hinum megin. Það er meiri hætta á því að hann ruglist en ég.

Hæstv. forsrh. er ekki heldur viðstaddur? Það hefði þó verið ástæða til að tala við hann augnablik á meðan hæstv. iðnrh. er upptekinn því að þetta tilheyrir ekki síður hæstv. forsrh. Veit hæstv. forseti nokkuð hvar hann muni vera niðurkominn nú? — Þess vegna segi ég þetta varðandi hæstv. forsrh. að á árinu 1982, þegar samningar stóðu yfir milli Alþýðusambands Vestfjarða og Vinnuveitendafélags Vestfjarða, var gerð sú krafa á hendur ríkisvaldinu, á hendur þáv. hæstv. ríkisstj. sem hæstv. núv. forsrh. átti sæti í, ein af meginkröfunum á hendur þeirrar ríkisstj. var sú að hafist yrði handa um lækkun og jöfnun orkuverðs í landinu. Ég tel að sú hæstv. ríkisstj. hafi gefið um það loforð við lok þeirrar samningsgerðar með símskeyti til ríkissáttasemjara að leiðrétting yrði gerð í þessum efnum, ekki að fullu, um það skal ég ekki neitt segja, en að leiðrétting yrði gerð í þessum efnum og það væri liður í lausn þeirrar deilu sem þá stóð yfir. Ég vildi a. m. k. líta á það sem einn meginþáttinn í því að sú deila leystist að þetta loforð var gefið. Því finnst mér ástæða til þess að hæstv. núv. forsrh. hlýddi á þetta, vegna þess að það væri fróðlegt líka að fá um það vitneskju hvort ekki væri meiningin, a. m. k. af hans hálfu sem eins af þeim einstaklingum og ráðh. sem loforðið gaf á sínum tíma, að við það yrði staðið.

Ég gat þess strax í upphafi míns máls fyrir þrem vikum að frv. efnislega shlj. því sem hér er nú til umr. hefði verið flutt á síðasta þingi. Þá náðist nokkuð góð samstaða meðal hv. flm. þessa frv. úr flestum ef ekki öllum stjórnmálaflokkum sem þá áttu fulltrúa hér á Alþingi, bæði úr þeim armi Sjálfstfl. sem þá var innan ríkisstj. og eins hins sem var í stjórnarandstöðu. Líka hv. þm. Alþb. Ég man ekki betur en þm. úr þeim flokki væru flm. að því frv. Þó bregður svo við nú að enginn þessara aðila vill standa að endurflutningi þessa máls. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég er ekki að segja að það sem hér er lagt til sé eina rétta leiðin til að jafna þarna um. Það kunna að vera til aðrar, kannske margar aðrar, leiðir sem kæmu að svipuðu eða hliðstæðu gagni. Það er ekkert heilagt í mínum huga hver leið verður valin ef hún leiðir til þess að þeim byrðum sem hér er um að ræða verði létt af því fólki sem þær ber nú. Hvort sá afturkippur hv. núv. þm. sem stóðu að flutningi þessa máls á síðasta Alþingi bendi til þess að menn telji nóg að gert, málið sé leyst, skal ég ekki um segja. Ég á þó ekki von á því. Ég a. m. k. trúi ekki öðru en að þm., a. m. k. þm. dreifbýlissvæðanna eða þeirra svæða sem hér eiga hlut að máli, sé ljóst að það er svo víðs fjarri að gengið hafi verið til móts við sanngjarnar og eðlilegar óskir þessa fólks til þess að létta þessar byrðar. Það er víðs fjarri, hvað sem menn kunna að segja um efnisatriði þessa frv.

Sumir hafa haldið því fram að óæskileg leið væri að gera þetta í gegnum skattakerfið, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Um það má endalaust deila. Ég held þó að með þeirri leið sem hér er bent á sé farin leið sem allir mættu geta unað við vegna þess að þar er ekki verið að gefa neinum neitt umfram annan. Þar fá allir frádrátt í samræmi við þann kostnað sem þeir leggja í í þessum efnum.

Í raun og veru gengur jafnt yfir alla yrði farin sú leið sem hér er bent á. Þeir fengju mestan skattafrádráttinn sem mest borguðu og mest þyrftu á honum að halda. Er það óhugsandi nú af hálfu hæstv. ríkisstj., sem hér getur auðvitað ráðið mestu um hvað gerist, er það óhugsandi eftir að hæstv. ríkisstj. hefur létt byrðum á atvinnurekstrinum í landinu í gegnum skattakerfið, er að létta byrðum af bankakerfinu í landinu, er þá óhugsandi að fá hina sömu ríkisstj. til að létta byrðar þess fólks sem er unnvörpum kannske nú eða á næstunni að flosna upp, flytja búferlum frá „köldu svæðunum“ vegna þess að fólk rís ekki undir þeim kostnaði sem er samfara því að búa á þeim landssvæðum og borga í þessum þætti einum eins og hér hefur verið lýst? Er óhugsandi að jafna þarna í gegnum skattakerfið, þó að hæstv. ríkisstj. hafi séð sig tilneydda — kannske talið það sjálfsagt — að létta byrðum af bæði atvinnurekstrinum og bankakerfinu? Er þetta ekki hvað þyngst nú hjá launafólki vegna þeirrar gífurlegu kjaraskerðingar sem átt hefur sér stað á undanförnum mánuðum?

Það má kannske segja sem svo að fólk hafi látið sig hafa að borga þessu meira þegar það gat fengið vinnu, lagt nótt við dag til að afla tekna til að geta borið þetta uppi. Nú er ekki slíku fyrir að fara lengur. Nú verður fólk yfirleitt að láta sér nægja 8–10 tíma vinnu. Það þýðir að það verður að láta rösklega helming þeirra tekna, sem inn koma vegna þeirrar vinnu, til að standa skil á þessum þætti heimilishaldsins. Núv. hæstv. ríkisstj. er sá aðilinn sem fyrst og fremst hefur orðið þess valdandi með gerðum sínum að kjaraskerðingin er jafnmikil og raun ber vitni. Það hvílir því sú skylda á henni ekki hvað síst að gera ráðstafanir til að létta byrðar á því fólki sem er nú að sligast og jafnvel að flosna upp úr sínum heimabyggðum vegna þess að það getur ekki staðið undir þessum kostnaði. Það er hörmulegt til þess að vita í ljósi þess að innan hæstv. ríkisstj. eru margir ráðherrar úr kjördæmum sem þetta hvílir hvað þyngst á. Það eru a. m. k. 4–5 hæstv. ráðh. úr þeim kjördæmum sem þarna hvílir mest á fólki, þar sem fólk er að sligast og flosna upp vegna þessa. Það er ekki að sjá að það hafi nein áhrif á þessa hæstv. ráðh. Þeir virðast una sér vel þrátt fyrir þessa staðreynd sem þó er ein af fleirum sem hér hafa verið gerðar að umræðuefni.

Ég skal, virðulegi forseti, ekki halda áfram öllu lengur að sinni. Ég hefði gjarnan, eins og ég gat um í upphafi, viljað spyrja hæstv. iðnrh. í tengslum við þetta mál hvað liði því frv. sem hann boðaði hér í desembermánuði að fram yrði lagt á fyrstu dögum þings í janúar og ítrekaði fyrir þremur vikum að kæmi „á morgun“, en hefur ekki séð dagsins ljós enn. Það er full ástæða, a. m. k. ég tel mig eiga heimtingu á að fá vitneskju um það og þm. almennt og þjóðin, að fá að vita hverjir það eru, ef einhverjir eru innan stjórnarliðsins, sem eru dragbítar á að þetta mál verði leiðrétt. Það er nauðsynlegt að fá um það vitneskju hverjir þar eiga hlut að máli.

Ég vek líka athygli á því, og raunar kemur það fram í grg. með þessu frv., að formenn hinna gömlu stjórnmálaflokka fjögurra, hinna gömlu segi ég, formenn þeirra stjórnmálaflokka sem áttu fulltrúa á síðasta

Alþingi, gáfu yfirlýsingu um að samhliða breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins mundu verða gerðar ráðstafanir til að jafna aðstöðu fólks og draga þannig úr félagslegu og efnalegu misrétti. Lítið hefur heyrst um þennan þátt málsins. Hann á eigi að síður fullkomlega rétt á sér til umræðu í tengslum við það mál sem hér er nú verið að ræða.

Ekki alls fyrir löngu var beðið um tilnefningu þingflokka, það ég best veit, á mönnum í nefnd til að sinna þessu verkefni, að gera tillögur í ljósi yfirlýsinga formanna stjórnmálaflokkanna um að jafna efnalegt og félagslegt misrétti íbúa þessa lands. Ég spurðist fyrir um það í mínum þingflokki í gær hvernig því starfi þessarar nefndar miðaði. Formaður þingflokks Alþfl. var tilnefndur af honum í þessa nefnd og svarið við þeirri spurningu var: Enginn fundur hefur verið boðaður í þessari nefnd. En samhliða eru öfgaöflin, liggur mér við að segja, í sambandi við kosningaréttarmálið að knýja á um það mál, að ryðja út úr nefndinni sem það mál er í til þess að koma því hér á dagskrá, en ekki er boðaður fundur í hinni nefndinni. Þetta sýnir kannske viðhorfið sem ríkir til þess máls sem hér er nú til umr., viðhorfið sem ríkir hjá þeim sem ráða ferðinni til þess fólks sem er að sligast undan byrðunum, fyrst og fremst þessum en þar að auki öðrum, vegna versnandi lífskjara.

Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. forsrh. um það líka — ég geri ráð fyrir að það mál heyri fyrst og fremst undir hann — hvernig á því standi að nefnd fulltrúa þingflokkanna, sem á að gera tillögur um að draga úr efnalegu og félagslegu misrétti þjóðfélagsþegna, hafi ekki verið kölluð saman og hver það sé sem á að sjá til þess að sú nefnd hefji störf — eða er það meiningin hjá hæstv. ríkisstj. fyrst og fremst, þar eiga auðvitað fleiri hlut að máli, er það meiningin hjá þeim mönnum sem vilja ráða ferðinni í kosningalagamálinu að keyra það eitt hér fram í offorsi, en virða að vettugi gefin fyrirheit og gefnar yfirlýsingar stjórnmálaforingja í landinu um að jafnhliða séu önnur óréttlætismál leiðrétt? Ég fer að halda að sú yfirlýsing sem gefin var í umræddri grg hafi verið gefin vísvitandi í því skyni að svíkja hana. Ég sé ekki betur en öll vinnubrögð sem snúa að þeim þætti málsins séu með þeim hætti að þar hafi verið gefin yfirlýsing sem menn voru fyrir fram ákveðnir í að svíkja. Ég a. m. k. vil fá um það vitneskju hvernig á því stendur að ekkert gerist í því máli.

Það er greinilegt, hæstv. forseti, að það er hvorki von á hæstv. iðnrh. né hæstv. forsrh., a. m. k. ekki enn sem komið er, þannig að það sé hægt að beina spurningum til þeirra. Ég skal því ekki orðlengja þetta öllu meira. Vonandi gefst til þess tækifæri að þeim viðstöddum að leg$ja fyrir þá spurningar þessu máli að lútandi.

Ég vil, virðulegi forseti, að lokum leggja til að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn. deildarinnar.