25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4864 í B-deild Alþingistíðinda. (4279)

141. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er á dagskrá mál sem efnislega hefur oft borið á góma bæði á þessu þingi og áður, og tilefni þessarar umr. er frv. til l. um breyt. á lögum um tekjuskatt og eignarskatt frá hv. þm. Karvel Pálmasyni.

Eins og hann gat um hér í framhaldi framsöguræðu sinnar í dag er þetta mál búið að vera á dagskrá þingsins frá því fyrir áramót og hv. 1. flm. málsins var að ljúka framsögu sinni áðan. Þetta segir sína sögu um hvernig tekið er á málum frá hv. stjórnarandstæðingum varðandi umr., og vil ég út af fyrir sig ekki fullyrða að þar hafi orðið einhver róttæk breyting á nú, en ég tel að háttur eins og hér hefur verið á hafður, einnig það að kljúfa þessa umr. í sundur með þeim hætti sem gert hefur verið, sé ekki farsæll til þess að greiða fyrir eðlilegri meðferð málsins, sem sjálfsagt er að fari sem fyrst til nefndar og hefði þurft að vera komið þangað áður.

Varðandi málið efnislega tel ég að það þurfi að fá sína meðferð í nefnd. Ég er fyllilega samþykkur markmiði því sem fram kemur með frv. þessu, að lækka húshitunarkostnað hjá þeim hluta landsmanna sem þyngstar byrðar bera og menn reyni að ná saman um leiðir í því efni.

Ýmsar tillögur hafa komið fram um þessi mál. Ég minni á þáltill. sem nú liggur fyrir hv. atvmn. Sþ., 104. mál þessa þings, sem er till. til þál. um lækkun og jöfnun húshitunarkostnaðar og átak í orkusparnaði, flutt af sjö þm. Alþb. Þar er gerð ítarleg grein fyrir stöðu þessara mála og lagðar fram till. sem fela það í sér að kostnaður við húshitun skv. gjaldskrá verði hvergi meiri en sem nemur sex vikna launum þeirra sem dagvinnutekjutryggingar njóta, sem skv. fskj. með þeirri till. var talið að næmi 17 200 kr. á ári. Ég ætla ekki að fara út í það mál, enda hefur það verið rætt hér.

Varðandi það form, sem lagt er til með frv. þessu, að taka upp orkustyrk til þeirra sem skattskyldir eru skv. 1. gr. frv., þá hygg ég að það geti verið ýmsir framkvæmdalegir erfiðleikar í því efni.

Þó vil ég ekki taka af um það hér og nú að ekki sé hægt að ná tökum á þessu máli til réttlætis með því að beita skattakerfinu og tel að sjálfsagt sé að á það sé litið í þingnefnd og skoðað með hliðsjón af öðrum tillögum sem fram hafa komið um þetta efni.

Ég vil minna á það við þessa umr. að fyrir hv. sameinuðu þingi liggur fsp. frá mér til hæstv. iðnrh. um lækkun húshitunarkostnaðar og sérstaklega um hvenær vænta megi þess frv. sem hæstv. ráðh. gaf yfirlýsingu um á Alþingi 19. des. að lagt yrði fram á fyrstu dögum þings eftir áramót, en hv. fyrri flm. þess frv. sem hér er til umr. vék einmitt að því máli. Ég ætla ekki að fara að ganga eftir svari hér og nú. Fsp. frá mér um þetta efni var á dagskrá í gær en kom þá ekki til umr., en verður væntanlega tekin fyrir n. k. þriðjudag. Ég vil hins vegar víkja að staðhæfingum sem fram hafa komið um þetta mál og veita nokkrar upplýsingar sem ættu að geta varpað nokkru ljósi á það hvernig tilkostnaður hefur þróast í sambandi við húshitun með rafmagni á undanförnum árum. Þar hafa komið fram staðhæfingar sem ég hef leitast við að leiðrétta. Ég hef hér gögn í höndum sem ég tel að æskilegt sé að komi fyrir hv. þd.

Stuðningsmenn núv. ríkisstj. hafa margsinnis staðhæft það, þeirra á meðal hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson og eftir honum hefur hv. 1. þm. Suðurl. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., tekið þá staðhæfingu, að raunkostnaður orku hjá heimilum í landinu hafi þrefaldast í minni tíð sem iðnrh., þ. e. á árabilinu 1978–1983. Þannig sagði hv. 11. landsk. þm. í umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 1984 í Sþ. 19. des. s. l. eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„En hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur lagt fram sínar tillögur hér á Alþingi í till. til þál. Það er ýmislegt í hans till. ekkert mjög ósvipað tillögum orkuverðsnefndar þótt tillaga Hjörleifs sé hins vegar veigaminni. Það er hins vegar athyglisvert og ég hjó alveg sérstaklega eftir því í till. þm., að þar gerir hann ráð fyrir að sem viðmiðun við kostnað við upphitun á meðalíbúð verði haft til hliðsjónar sex vikna kaup verkamanns. Þessi tala virðist ekki tekin af neinni tilviljun. Þegar tekið er meðaltal áranna fyrir embættistímabil Hjörleifs Guttormssonar var kostnaðurinn þessi. Þá tók það verkamann um sex og hálfa viku að vinna fyrir ársreikningi til húshitunar. Á valdaferli Hjörleifs Guttormssonar þrefaldaðist þessi tala. Hún fór úr sex vikum og upp í rúmar átján vikur. Ég hygg að hvergi sé hægt að finna jafnskýra mynd af árangri af störfum eins ráðh. og þá sérstaklega þessa ráðh. og með þessum einfalda hætti, að orkuverð til húshitunar hækkar eins og þarna kemur fram á fimm árum. Og það er engin hending hvernig þm. velur svo viðmiðunina inn í framtíðina. Það er ekki hægt að sækja þá viðmiðun inn í það umhverfi sem hann skapaði í raforkuiðnaði í þessu landi. Það verður að fara aftur fyrir hans tímabil. Það sem athygli vekur er að þm. gerir sjálfur tillögur um að embættisferill hans í þessum efnum gleymist.“

Ég fullyrti við umr. í þinginu að þessar staðhæfingar hv. 11. landsk. þm. væru fjarri öllum sanni þótt okkur greindi ekki á um að orkukostnaðurinn væri langtum of hár. Ég hafði þá tölur handa á milli og hef nú látið yfirfara þær og látið reikna þetta dæmi út á sambærilegum grundvelli, orkukostnað meðalheimilis miðað við upphaf og lok þess tímabils sem ég gegndi starfi iðnrh. og síðan þróunina í tíð núv. ríkisstj. I þessum útreikningum eru teknir gjaldtaxtar Rafmagnsveitna ríkisins, húshitunartaxti (C 1) og almennur heimilistaxti (A-1), og miðað er við meðalíbúð 400 rúmmetra með 32 800 kwst. ársnotkun til hitunar og 4000 kwst. til annarra heimilisnota. Þá er í öllum tilvikum miðað við dagvinnutímakaup verkamanna eins og það var á hverjum tíma til að fá skýrt fram hversu lengi menn höfðu verið og séu að vinna fyrir orkukostnaðinum.

Ég dreg hér fram niðurstöður í þessu efni umreiknaðar í vinnustundafjölda sem það hefur tekið verkamann að vinna fyrir orkukostnaðinum. Niðurstöður úr þeim útreikningum eru þessar:

Frá 1. sept. 1978: Til að vinna fyrir húshitun þurfti þá 240 stundir, fyrir heimilisrafmagni öðru en til upphitunar 139 stundir eða samtals 379 stundir þegar ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tók við 1. sept. 1978.

Frá 10. maí 1983, en það var þá síðast sem gjaldskrárbreyting varð í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens: Þá þurfti vegna húshitunar 310 vinnustundir, fyrir heimilisrafmagn 157 vinnustundir eða samtals 467 vinnustundir. Aukning á tæpum fimm árum: 88 vinnustundir eða rúm 23%. Hafa ber í huga að verkafólk átti skv. kaupsamningum, sem voru í gildi við stjórnarskiptin síðustu, rétt til rösklega 20% verðbóta þann 1. júní 1983 og hefði slík kaupbreyting nærri sléttað dæmið ef hún hefði gengið fram. Miðað við slíka kaupbreytingu, sem samningsbundin var, hefði þurft 389 stundir til að vinna fyrir orkukostnaðinum, þ. e. tæp 3% umfram það sem var haustið 1978. Niðurgreiðslur á raforku til húshitunar koma vissulega inn í þetta dæmi, en þær voru teknar upp 1. október 1982 að telja, og óniðurgreidd orka hefði vissulega komið óhagstæðar út fyrir notendur ef ekki hefði notið við niðurgreiðslunnar. Það var þáttur af viðleitni þáverandi ríkisstj. til að draga úr þeirri þróun sem fylgdi hækkandi orkuverði, sem stafar fyrst og fremst af óhagstæðum orkusölusamningum til stóriðju, og með því var m. a. verið að bregðast við og framkvæma yfirlýsingu sem ríkisstj. gaf í tengslum við kjarasamninga og hér var vikið að í ræðu áðan.

Ég minni einnig á að dregið var stórlega úr verðmun á heimilisrafmagni milli dreifbýlis og þéttbýlis, sérstaklega á árunum 1978–1980, þannig að í stað þess að vera 90%, eins og munurinn var við stjórnarskiptin 1978, var honum komið niður í 20–25% hið mesta á heimilistaxta raforku og hefur svo haldist síðan. Þessi verðjöfnun tókst ekki síst vegna þess að það var samþykkt hér á hæstv. Alþingi að hækka verðjöfnunargjald af raforku úr 13% í 19% í desember 1978 og sérstaklega tekið fram við þá lagasetningu að tekjunum skyldi varið til að draga úr mismun á orkukostnaði þar sem hann væri mestur hjá þeim fyrirtækjum sem njóta verðjöfnunargjalds af raforku.

En þá er að því að víkja hvernig þróunin hefur orðið eftir stjórnarskiptin á síðasta ári. Fyrstu verk ríkisstj. og Sverris Hermannssonar iðnrh. voru að heimila stórfelldar verðhækkanir á rafmagni frá Landsvirkjun, fyrst um 19% þann 3. júní s. l. og síðan um 31% frá 1. ágúst 1983 eða samtals um 56%. Afleidd hækkun á heimilisrafmagni varð 38.5% og 17.4% á rafhitunartaxta þrátt fyrir auknar niðurgreiðslur. Frá 1. ágúst 1983 var því staðan þannig til 1. febrúar 1984, að tími verkamanns til að vinna fyrir húshitun yfir árið nam 331 klst. og fyrir heimilisrafmagni 198 stundum eða samtals 529 vinnustundum, en það er aukning um 62 vinnustundir sem þurfti í viðbót til að greiða orkukostnað heimilisins frá því sem var við stjórnarskiptin í maí 1983. Er þá ekki tekið með í reikninginn að kaup var 4% lægra 1. júní til 1. október 1983 en eftir þann tíma, sem gera mundi þessa útreikninga enn óhagstæðari fyrir notendur raforkunnar.

Í þessu samhengi er óhjákvæmilegt að minna á að ein helsta svokölluð mildandi aðgerð af hálfu ríkisstj. með brbl. 27. maí 1983 átti að vera sú að lækka húshitunarkostnað og verja til þess 150 millj. kr. á árinu 1983, en nú liggur það fyrir að þeim 150 millj. var ekki varið í þessu skyni, heldur aðeins 70 millj. af þessari heimild sem tekin var með brbl. til lækkunar á húshitunarkostnaði með niðurgreiðslu raforku.

Við skulum að lokum líta á dæmið eins og það er frá 1. mars 1983, til að öllu sé til haga haldið, og skoða málið eins og það lítur út eftir kaupbreytingu 1. mars s. l. og lítils háttar aukningu á niðurgreiðslu raforku til húshitunar, sem nam 5 aurum á kwst., aukningin frá 1. febrúar 1984. Þá er dæmið þannig, að 292 stundir þarf sami verkamaður til að vinna fyrir húshitun og 185 stundir til að vinna fyrir heimilisrafmagni eða samtals 477 stundir, þ. e. 10 vinnustundum meira en við stjórnarskiptin í maí 1983. Í millitíðinni í hálft ár, eða frá 1. ágúst 1983 til 1. febrúar 1984, er sami aðili búinn að verja sem nemur 88 vinnustundum meira á ársgrundvelli, eins og kallað er, vegna orkukostnaðar meðalfjölskyldu.

Þetta er staðan 1. mars s. l. að nýgerðum kjarasamningum, þar sem ekki er að finna neina verðtryggingu launanna og hækkanir launa til loka ársins nema aðeins samtals 5% í tveimur áföngum umfram það sem varð við undirskrift samninga, verði samningum ekki sagt upp 1. september n. k. og þá fáist leiðrétting. Þetta gerist á sama tíma og felld eru á hv. Alþingi að frumkvæði hæstv. iðnrh. brbl. sem gáfu honum færi á að hafa hemil á verðhækkunum Landsvirkjunar. Nú hefur Landsvirkjun þau mál í hendi sér lögum samkvæmt og getur hækkað gjaldskrá með einfaldri stjórnarsamþykkt. Að ég best veit hefur nýlega verið samþykkt í stjórn Landsvirkjunar að hækka heildsöluverð raforkunnar um 5% frá 1. maí n. k.

Þetta gerist einnig á sama tíma og hæstv. iðnrh. básúnar það út í fjölmiðlum að hann muni beita sér fyrir því að verðjöfnunargjald af raforku verði lækkað og helst afnumið, en í krafti þess sama gjalds hefur verið unnt að jafna verulega taxta á heimilisrafmagni milli þéttbýlis og dreifbýlis, eins og ég gat um áðan.

Það liggur nú ljóst fyrir að í stað mildandi aðgerða með lækkun orkukostnaðar hefur ríkisstj. bætt verulegri íþyngingu í orkukostnaði ofan á gífurlega kjaraskerðingu hjá öllu launafólki í landinu. Svo koma talsmenn Sjálfstfl. hér á Alþingi með margföld ósannindi um þróun þessara mála í tíð fyrri ríkisstj. í von um að fá þannig mildað þann áfellisdóm sem þeir heyra í sinn garð, ekki síst úti um land þar sem menn finna sárast fyrir byrðum hins háa orkukostnaðar.

Hv. 11. landsk. þm. taldi tímann til að vinna fyrir rafhitun hafa vaxið úr sex vikum í átján vikur í minni tíð, hvorki meira né minna. Staðreyndin er aukning úr 240 klst. í 310 stundir eða úr sex vikum í 7.75 vinnuvikur á tímabilinu frá 1. september 1978 til 10. maí 1983 eða breyting sem nemur rúmum 23% og þá ekki tekið tillit til þess að kaupsamningar gerðu ráð fyrir yfir 20% verðbótum á laun mánuði eftir að síðast var breytt gjaldskrá í tíð fyrri ríkisstj. sem hefði nánast haldið þessum reikningum sléttum.

Þetta eru meðaltalsreikningar, sem hér eru fram reiddir, og menn gera sér að sjálfsögðu grein fyrir að frávik frá þeim eru mörg í reynd og víða mjög til hækkunar og íþyngingar fyrir notendur sem búa í ófullnægjandi húsnæði, m. a. vegna ónógrar einangrunar, aldurs húsa, auk þess sem veðurfar og meðalhiti er misjafnt hér í landinu sem kunnugt er og kemur auðvitað einnig inn í þetta dæmi til þyngingar frá meðaltalsútreikningum fyrir þá sem búa t. d. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Norðausturlandi, svo minnst sé á þau svæði þar sem ársmeðalhitinn er lægri en á sunnanverðu landinu.

Þetta voru staðhæfingar hv. talsmanna Sjálfstfl. og þeir virðast ekki kynoka sér við að bera þessi efni fram þrátt fyrir að hæstv. iðnrh. þess flokks gerði það eitt af sínum embættisverkum að hleypa fram 56% hækkun raforkuverðs hjá Landsvirkjun og afleiðingin var að hlutfallið, miðað við vinnutíma til að vinna fyrir húshitun, hækkaði í 330 vinnustundir eða 8.3 vinnuvikur miðað við 400 rúmmetra vel einangrað hús.

Hv. 11. landsk. þm., sem ekki er hér viðstaddur þessa umr., en sjálfsagt er færi á að ræða um þessi mál við hann við annað tækifæri, hefur sjálfur kallað sig eftirlitsmann með ráðherranum, en ljóst er að þau ummæli sem hann viðhafði í þinginu 19. desember s. l. voru gróf ósannindi, eins og þegar hefur verið mótmælt af minni hálfu, en liggur nú reikningslega fyrir á grundvelli sem er fyllilega sambærilegur miðað við þetta tímabil.

Þetta dæmi verður svo enn óhagstæðara ef litið er til heildarorkukostnaðar meðalfjölskyldu, þ. e. heimilisrafmagnið hefur hækkað um 38.5% í tíð núverandi ríkisstj. og þar koma engar niðurgreiðslur til að draga úr álaginu á fjárhag heimilanna.

Virðulegi forseti. Það væri ástæða til að ræða þessi mál lengur hér af minni hálfu. Ég taldi nauðsynlegt að koma þessum upplýsingum á framfæri þannig að það liggi ljóst fyrir hver hefur verið þróun þessara mála miðað við meðaltalsaðstæður á undanförnum 5–6 árum. Ég nefndi það að fyrir þinginu liggur fsp. frá mér um úrbætur af hálfu ríkisstj. og hvað þeim málum líði.

Það er margt sem vekur ugg í þessum málum, m. a. það sem lesa mátti í Morgunblaðinu þann 30. mars 1984 varðandi gjaldtöku upp í gatið svokallaða, en þar var greint frá því með svofelldum orðum:

„Framsfl. vill nýjar gjaldtökur til að brúa bilið í fjárlögum samkvæmt skriflegum hugmyndum þeirra sem þeir lögðu fram á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun“. síðar í sömu grein Morgunblaðsins segir:

„Hugmyndir framsóknar, sem þeir kynntu í ríkisstj. í gær, virðast að mörgu leyti falla að hugmyndum sjálfstæðismanna“.

Einnig segir þar í sömu grein:

„Til niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði eru á fjárlögum 230 millj. kr. Einnig eru í ríkissjóði 60 millj. kr. sem ekki var ráðstafað á síðasta ári. Lýsa framsóknarmenn sig reiðubúna til að skera þennan lið niður“.

Og í þann mund birtist hér hæstv. iðnrh., sem betur hefði verið viðstaddur þessa umr., en ég þykist vita að hann hafi verið upptekinn við umr. í hv. Ed. þingsins. Ég vil ekki að þessu sinni vera að rekja þessi mál hér aftur hans vegna. Þessi mál verða hér á dagskrá væntanlega í næstu viku í tilefni fsp. minnar, þannig að bæði getur þá hæstv. ráðh. vikið að því sem hér hefur fram komið fyrir utan það að veita svör við því sem fyrir liggur á þskj. í fyrirspurnarformi.