25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4874 í B-deild Alþingistíðinda. (4289)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Kristín Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Við þm. Kvennalistans höfðum miklar efasemdir gagnvart þessu frv. um Ljósmæðraskólann þegar það kom fram. Við höfum áhyggjur af því að svo langt nám sem það gerir ráð fyrir, þ. e. 5–6 ára nám, kunni að draga úr aðsókn kvenna í ljósmæðranámið. Skv. upplýsingum sem við höfum aflað okkur eru allmargar ljósmæður sama sinnis. Þær raddir hafa jafnvel heyrst að hér sé beinlínis um atlögu að ljósmæðrastéttinni að ræða. Ekki vil ég taka svo djúpt í árinni en við hefðum talið heppilegra að samræma nám í hjúkrunarfræðum og ljósmæðrafræðum á þann hátt að komið yrði á sameiginlegu grunnnámi, t. d. í tvö ár, en síðan greindist námið í frekara hjúkrunarfræðinám og ljósmæðranám. Sú leið sem valin er varðandi menntun ljósmæðra í þessu frv. sem hér er til umr. varð hins vegar ofan á í umfjöllun þeirra sem málið varðar fyrst og fremst.

Mér hefði fundist að landsbyggðarþingmaðurinn Ólafur Þ. Þórðarson, með ein háværustu landsbyggðarsjónarmið sem heyrast hér á þinginu, hefði átt að skilja hvað liggur m. a. að baki þessu frv. um aukna menntun ljósmæðra. Verið er að tryggja að til verði í landinu ljósmæður með hjúkrunarfræðimenntun sem m. a. verði færar um að starfa á heilsugæslustöðvum úti á landi. Það er m. ö. o. verið að tryggja betri þjónustu úti á landi.

Staðreyndin er sú að enda þótt gert sé ráð fyrir að ljósmæður séu starfandi við heilsugæslustöðvar fá ljósmæður ekki ráðningu við heilsugæslustöðvar úti á landi nema þær hafi hjúkrunarfræðimenntun, en hjúkrunarfræðingar án ljósmæðramenntunar eru ráðnar þangað frekar. Aukin menntun ljósmæðra er nauðsynleg. Það er hins vegar spurning hvort fyrirkomulag námsins ætti ekki að vera annað en hér er lagt til og ég er ekki fyllilega sannfærð um að það hafi verið kannað til þrautar.

Að lokum vil ég láta í ljós undrun mína og raunar hryggð yfir vissum ummælum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar áðan þar sem hann fjallaði um ljósmæðrastarfið, að mér virtist, af lítilsvirðingu og litlum skilningi. (ÓÞÞ: Það er ekki rétt.) Þetta er kvennastarf en ég vona að það sé ekki ástæðan fyrir viðhorfum hans til stéttarinnar.

Vissulega má búast við að laun ljósmæðra hækki með betri menntun en þau hefðu sannarlega mátt hækka án þess. Ég hef ekki nákvæmar tölur um laun ljósmæðra, ég veit aðeins að starf ljósmóður er metið jafnt til launa og starf meindýraeyðis og hugnast nú ekki öllum sá samjöfnuður.

Þá þótti mér harla einkennilegur málflutningur að fara að tala um undanþágur til að gegna stöðum yfirmanna á íslenska flotanum í þessu sambandi. Ég hlýt að játa að ég náði ekki alveg samhenginu. Eða var þm. að gefa í skyn að farið yrði að veita undanþágur til ljósmóðurstarfa án tilskilinnar menntunar? Varla þarf að óttast það. Hins vegar er kannske ástæða til að óttast að ef ljósmæðrum fækkar taki læknar að sér störf þeirra í ríkari mæli og það væri miður að mínu mati.