25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4875 í B-deild Alþingistíðinda. (4291)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Virðulegi forseti. Það má eflaust draga í efa hvort farið er út á rétta braut með því að gera þá tilhögun að lögum sem hér er flutt frv. um, varðandi nám eða inntökuskilyrði í Ljósmæðraskóla Íslands, og ætla ég ekki að úttala mig mjög um það, en vegna endurtekinna ferða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar hingað í þennan ræðustól vil ég þó segja nokkur orð.

Í fyrsta lagi gerir hann því skóna að þessi tilhögun sé upp tekin til þess að ljósmæður nái að hækka laun sín. Um það má segja að þeim veitir ekki af og verði þeim að góðu ef þeim tekst það með þessari tilhögun. Kjör þeirra hafa verið það bág hingað til að þar má vel verða bragarbót á.

Í öðru lagi er rétt að benda á að tilhögun sem slík að gera til dæmis stúdentspróf að inntökuskilyrði o. s. frv. hefur alls ekki alltaf leitt til hærri launa hjá viðkomandi stétt og nægir að benda á kennara í því sambandi. Ekki flá þeir feitari gölt en áður þó að þeir hafi nú tekið upp það fyrirkomulag að gera kennaramenntun að námi á háskólastigi.

Vegna orða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar um barnadauða, sem mér komu nokkuð spánskt fyrir sjónir áðan, vil ég spyrja hv. þm. að því: Hvers vegna heldur hann að við höfum náð þeim mikla árangri sem raun ber vitni í því að draga meira úr barnadauða en þekkist annars staðar á byggðu bóli? Ég held að við höfum einmitt gert það með því að byggja upp góðar vel búnar fæðingardeildir sem hafa yfir að ráða menntuðu og vel færu starfsfólki. Án þessa hefði þetta ekki tekist. Hér er einfaldlega gerð till. um að halda áfram á þeirri braut og vonandi þá með enn frekari árangri. Og ef svo skyldi nú vera að hv. þm. hafi aldrei komið á nýtísku vöggustofu, þar sem fyrir hendi er allur sá búnaður sem nútímatækni hefur upp á að bjóða til að taka á móti fyrirburum og til að annast fæðingar þar sem eitthvað ber út af, þá veit ég að það væri fróðleg ferð fyrir hann að ganga inn á slíka stofnun, þ. e. ef hann hefur ekki þegar kynnt sér slíkt. Þar er nefnilega fyrir hendi ýmiss konar tækjabúnaður, allverulega flókinn á köflum, bæði súrefnistjöld, hjartalínuritar og ýmiss konar tæki til að fylgjast með líðan fóstursins, halda þar réttu hitastigi o. s. frv., og í slíkum stofum er hægt að veita nánast alla þá þjónustu sem þarf ef eitthvað ber út af með fæðingar. (GJG: Er þetta í Þistilfirði?) Nú kemur inn í þessa umr. með nokkur orð hv. 7. þm. Reykv. og spyr hvort svona stofur séu í Þistilfirði. Nei, því miður höfum við ekki jafnfullkomlega búna stofu og ég var hér að lýsa í Þistilfirði. Reyndar er ástandið þannig þar, að á því landshorninu fara yfirleitt ekki fram fæðingar. Það er ekki vegna þess, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, að fólk þar og læknar þar treysti sér ekki til þess að láta fæðingar fara fram þar sem allan þennan búnað vantar, heldur ósköp einfaldlega vegna þess að héraðslæknir á slíku landshorni vill ekki hafa það á sínum herðum ef eitthvað skyldi út af bera að vöntun þessarar aðstöðu verði hugsanlega til þess að við glötum mannslífum. Þannig er nú því varið, hv. þm.

Á einum stað á landinu, á Landspítalanum, hefur verið byggð upp allfullkomin, og þó mætti þar vissulega betur gera, fæðingardeild. Þangað geta menn farið og skoðað og sannfærst um að störf ljósmæðra og annarra . sem annast þau börn sem þar eru inni eru allflókin. Ég dreg það ekki í efa að a. m. k. þær ljósmæður sem fást við slík störf á slíkum deildum þurfa að b'úa yfir verulegri þekkingu og þjálfun. Ég er alls ekki viss um nema sex ára nám sé fyllilega réttlætanlegt í þeim tilvikum. Á hitt vil ég líka minna hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson, að ef það á að verða í framtíðinni að það verði unnt í einhverjum mæli að láta fæðingar fara fram úti á landsbyggðinni er einmitt forsenda þess mjög vel menntað og hæft starfsfólk, vegna þess að ábyrgðin væri enn þá meiri að láta fæðingar fara fram á heilsugæslustöðvum úti í héruðum ef ekki væri fyrir hendi vel menntað starfsfólk. Þetta ætti sá ágæti byggðaþingmaður að hugleiða.

Að síðustu vil ég taká það fram að ég er ekki að segja með þessu að það sé endilega rétt tilhögun sem hér er gerð till. um, en mér sárnar að heyra fjallað, að því er ég vil meina, af litlum skilningi og lítilli þekkingu um þau störf sem hér um ræðir, auk þess sem ég sé ekki betur en að þetta fyrirkomulag mundi einfaldlega þýða að ákveðinn hluti hjúkrunarfræðinga á landinu hefði til viðbótar ljósmæðramenntun. Þær væru í fyrsta lagi hjúkrunarfræðingar og gætu unnið sem slíkar og fólk hefði réttindi sem slíkt — við skulum ekki kyngreina þetta meira en orðið er — en til viðbótar hefði einhver hluti þessa fólks ljósmæðramenntun. Ég sé ekki annað en að væri gott og vel.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri, virðulegi forseti. Ég kom ekki síst í stólinn til að draga í efa að þetta frv. væri lagt fyrst og fremst til að ná einhverjum krónum í kaupi, en í öðru lagi vildi ég benda hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni á að það er kannske ástæða til að hugsa áður en maður fer upp og talar um störf stéttar eins og ljósmæðra.