25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4877 í B-deild Alþingistíðinda. (4294)

62. mál, húsaleigusamningar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. til breytinga á lögum nr. 44 frá 1. júní 1979 um húsaleigusamninga. Frv. þetta var lagt fyrir Ed. Alþingis og hefur Ed. skilað frv. frá sér til Nd.

Ég tel ekki ástæðu til að fara efnislega í frv. Þetta frv. er þannig tilkomið að þeirri nefnd sem samdi gildandi lög á sínum tíma var af fyrrv. félmrh. falið að taka til athugunar reynsluna af þeim lögum og semja brtt. um þau ákvæði þeirra sem hún héldi að betur mættu fara í ljósi þeirrar reynslu. Nefndin lauk þessu starfi og samdi þetta frv. sem hér liggur fyrir og er lagt fram svo til óbreytt frá starfi þessarar nefndar. Þeir menn sem áttu sæti í þeirri nefnd sömdu þetta frv. Nefndin var sammála um þessa breytingu en einn nm., Páll S. Pálsson hrl., var með sérálit.

Ed. hefur fjallað um þetta frv. og eins og kemur fram í nál. á þskj. 603 kallaði nefndin á sinn fund Sigurð E. Guðmundsson framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar. Umsagnir bárust frá ýmsum aðilum, m. a. Húseigendafélagi Reykjavíkur, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Leigjendasamtökunum. Nefndin gerði örfáar breytingar í sambandi við nokkrar greinar frv. sem ég er efnislega samþykkur og koma fram á þskj. 657. Ég sé ekki, virðulegi forseti, ástæðu til að lengja þessar umr. Ég vísa til athugasemda um einstakar greinar frv., sem hér koma fram greinilega, en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.