25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4878 í B-deild Alþingistíðinda. (4296)

256. mál, hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Frsm. meiri hl. (Pétur Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Við höfum í heilbr.- og trn. hv. deildar haft þetta mál til meðferðar og fengið á fund okkar aðila sem m. a. stóðu að samningu þessa frv., þ. á m. framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga og formann Félags heilbrigðisfulltrúa. Þetta mál var mjög ítarlega skýrt í framsögu af hæstv. heilbr.- og trmrh. en frv. gerir ráð fyrir því, ef að lögum verður, að sveitarfélögunum verði heimilað að afla tekna til þess að standa undir lögboðnum skyldum sem fylgja lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit á sama hátt og var ákveðið í lögum um Vinnueftirlit ríkisins. Fleiri lög eru í gildi með ákvæði um greiðslur fyrir eftirlit.

Nefndin klofnaði en meiri hl. n. leggur fram tvær brtt. við frv. Annars vegar er frekar um leiðréttingu að ræða en breytingu, þ. e. að breyta orðinu „svæðisstjórn“ í „svæðisnefnd“, en það orð er notað í lögunum sjálfum. Í 1. gr., 5.6 leggjum við til að í stað þess, eins og þar segir, að „hlutaðeigandi svæðisnefndir eigi að höfðu samráði við sveitarstjórnir að innheimta gjaldið“ leggjum við til í meiri hl. n. að sveitarstjórnum verði heimilt „að höfðu samráði við hlutaðeigandi svæðisnefndir að innheimta gjald o. s. frv.“ eins og þar segir.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með þessum breytingum. Minni hl., hv. 10. landsk. þm., Guðrún Helgadóttir, skilar séráliti.