13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hv. 3. þm. Reykv. vék að tveim atriðum sem ég vil minnast á. Í fyrsta lagi lét hann að því liggja að forseta hefði borið að víta hæstv. fjmrh. í þessum umr, fyrir tiltekin ummæli. Samkv. þingsköpum hefur forseti vald samkv. 60. gr. þingskapa til að víta ræðumenn. Það kann að sjálfsögðu oft að vera svo að það orki tvímælis hvort forseti á að nota þetta vald eða ekki. Mér þótti það ekki orka tvímælis að forseti léti ógert að víta ráðh. Það byggist á þeirri skoðun að það eigi að fara mjög varlega með þetta vald og það sé betra að það sé of lítið notað heldur en of mikið. Ég hygg að þessi niðurstaða sé í samræmi við venjur í þessu efni og styðst ég þar við Alþingistíðindi þegar ég segi það.

Hitt atriðið, sem hv. 3. þm. Reykv. vék að, var að hann fann að því að hæstv. fjmrh. hefði vikið af fundi í þessum umr. og ætlaðist til þess að forseti sæi um að slíkt henti ekki. Það hefur áður komið hér fram að hæstv. fjmrh. hafði störfum að gegna og þess vegna varð hann að víkja af fundi. Hins vegar er það eins og hv. 3. þm. Reykv. sagði mjög hvimleitt og óviðurkvæmilegt að þm. fari af fundi þegar þeir hafa hafið þátttöku í umr. En þess er að gæta að það gildir nokkuð sérstakt þegar um er að ræða umr. utan dagskrár eins og hér eru í dag. Þá er það svo, bæði með ráðh. og aðra þm., að þeir vita ekki fyrirfram að þeir kynnu að þurfa að vera bundnir við þessar umr.

Ég vil svo af þessu gefna tilefni taka fram að ég mun snúa mér til allra þingflokkanna og óska þess að þeir leggi áherslu á það hver fyrir sig að þm. þeirra sæki sem best þingfundi og sitji sem best þingfundi.

Þetta hef ég sagt hér að gefnu tilefni.