25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4883 í B-deild Alþingistíðinda. (4302)

243. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir þessu þingi liggja nú tvö frumvörp um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það stjfrv. sem hér er til umr. er að stofni til byggt á tillögum endurskoðunarnefndar sem skipuð var í apríl 1981 af fyrrv. félmrh. Meginverkefni nefndarinnar var tillögugerð um breytingar á jafnréttislögunum, lögum nr. 78 frá 1976, með tilliti til þeirrar reynslu sem fengist hefur frá setningu laganna. Nefndin hafði samráð við ýmsa aðila og tók mið af upplýsingum víða að. Álit endurskoðunarnefndarinnar er að enn sé alllangt í land að jafnrétti ríki á milli kynjanna þrátt fyrir gildandi lög um jafnrétti karla og kvenna frá 1976 og þar áður lög um jafnlaunráð frá 1973 og starf Jafnréttisráðs (Jafnlaunaráðs) frá sama tíma. Nefndin telur að lögin hafi komið að gagni og reynst betri en ekki, en þau hafi ekki verið það haldreipi í jafnréttisstarfi sem vænst hafi verið. Enn fremur að þau hafi ekki reynst nógu vel í framkvæmd þannig að breytingar hafi ekki orðið afgerandi hvorki varðandi stöðumun karla og kvenna né viðhorf til jafnréttis.

Það frv. sem endurskoðunarnefndin samdi er nú lagt fram af fyrrv. félmrh. Svavari Gestssyni og fimm öðrum hv. þm. stjórnarandstöðunnar, þeim Jóhönnu Sigurðardóttur, Kristínu S. Kvaran, Guðrúnu Helgadóttur, Kjartani Jóhannssyni og Guðmundi Einarssyni, á þskj. 478. Á þessu frv. hafa síðan verið gerðar allverulegar breytingar að höfðu samráði við stuðningsflokka ríkisstj. og það síðan í breyttri mynd lagt fram sem það stjfrv. á þskj. 431 sem hér er til umr. Bæði þessi frv. ganga, að því er virðist, út frá þeirri grundvallarhugsun að konur þurfi til þess að öðlast jafnrétti að ganga í störf karla og klífa upp verkefna- og virðingarstigann til að ná því þrepi þar sem karlar standa. Sem dæmi má taka 9. gr. laganna þar sem segir með leyfi forseta:

„Atvinnurekendur skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.“

En það er ekkert að því að sum störf séu kvennastörf, þvert á móti. Aðalatriðið er að þessi störf séu metin jafnmikils og karlastörf. Ennfremur segir í 2. mgr. 10. gr. stjfrv. og 11. gr. frv. Svavars Gestssonar og fleiri með leyfi forseta:

„Við náms- og starfsfræðslu í skólum skal leitast við að breyta hinu venjubundna starfs- og námsvali kvenna og karla til samræmis við tilgang laga þessara.“

Þetta stuðlar að því að gera kynin eins í stað þess að meta þau jafnt út frá sérkennum hvors um sig. Í 4. gr. beggja frv. segir með leyfi forseta:

„Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.“

Þetta er ágætt, en hvernig á að meta verðmæti starfanna? Hvaða starfsmat á að leggja til grundvallar? Hverjar eiga forsendur fyrir slíku starfsmati að vera? Hver á að meta? Um öll þessi veigamiklu grundvallaratriði er ekki eitt orð til skýringar. Þó er alveg ljóst á hvort kynið hallar í jafnréttismálum og jafnframt ljóst að brýna nauðsyn ber til að endurmeta störf kvenna, þar sem þau hafa verið gróflega vanmetin. Í grundvallaratriðum stangast þessi sjónarmið á við hugmyndir Kvennalistans um kvenfrelsi. Ég vitna í stefnuskrá Kvennalista með leyfi forseta. Þar segir:

„Við setjum á oddinn hugmyndir um kvenfrelsi sem fela í sér rétt kvenna til að vera metnar á sínum eigin forsendum til jafns á við karla. Við leggjum til hliðar hugmyndir um jafnrétti sem fela í sér rétt kvenna til þess að fá að vera eins og karlar. Konur eru mótaðar af því hlutverki að ala börn og annast. Við vinnum önnur störf og búum því yfir annarri reynslu en karlar. Reynsla kvenna leiðir af sér annað verðmætamat, önnur lífsgildi en þau sem ríkja í veröld karla. Konur líta þar af leiðandi öðrum augum á málin.“

Og þar segir enn: „Við verðum sjálfar að berjast fyrir rétti okkar og betri heimi. Aðrir gera það ekki fyrir okkur. Við verðum sjálfar að reka okkar kvennapólitík, pólitík sem leggur verðmætamat og lífsgildi kvenna til grundvallar og felst í því að skoða öll mál út frá sjónarhóll kvenna.“

Og enn segir: „Við viljum að sameiginleg reynsla og verðmætamat kvenna verði metið til jafns við reynslu og verðmætamat karla sem stefnumótandi afl í samfélaginu. Við viljum að mannleg verðmæti verði fyrst og fremst lögð til grundvallar þegar ákvarðanir eru teknar í þjóðmálum. Við viljum samfélag þar sem allir, konur, karlar og börn, eru jafn virtir og jafn réttháir. Við viljum hugarfarsbyltingu.“

Og enn vitna ég, með leyfi forseta: „Menning og reynsla kvenna byggir að mestum hluta á hefðbundnum störfum við heimilishald og umönnun barna. Við viljum halda tengslum okkar við þau störf, sem hafa mótað okkur og lagt okkur til lífsgildi okkar. En við viljum ekki lengur vera í stöðu hinna efnahagslega ósjálfstæðu. Því viljum við leggja jafna áherslu á mikilvægi barnauppeldis og heimilisstarfa, samábyrgð kvenna og karla hvað þau varðar og mikilvægi þess, að konur geti með góðu móti komist út á vinnumarkaðinn og orðið efnahagslega sjálfstæðar. Við viðurkennum ekki það verðmætamat sem nú er lagt til grundvallar þegar laun fyrir störf kvenna eru ákveðin. Við viljum einnig að starfsreynsla kvenna við húsmóðurstörf verði metin jafngild annarri starfsreynslu til launa, hefji konur launuð störf.“ Og ég lýk hér tilvitnun í stefnuskrá Kvennalista.

Hugmyndir um jafnrétti leiða af rótum þess verðmætamats sem ríkir í þjóðfélaginu og við teljum að það sé fyrst og fremst breyting á verðmætamati sem heimurinn þarfnast, í þá átt að viðurkenna lífsgildi og framlag kvenna en ekki að knýja konur til þess að taka upp lífsgildi karla sem sín eigin. Sú hugsun hefur verið ríkjandi í jafnréttisbaráttu lengst af, því miður, og nægir að vitna í alþingissamþykkt frá 13. júní 1720 um lausamenn, vinnuhjú og lausgangara. Þar segir m. a. með leyfi forseta:

„Ef kona gerir karlmannsverk með slætti, róðri eða torfristu þá á að meta verk hennar sem áður segir um karlmann til slíkra launa.“

Þó að þessi viðleitni til að komast í fótspor karlanna hafi verið virk allar götur síðan og ýmsar samþykktir um jafnrétti verið gerðar hefur ævinlega gengið illa að framfylgja þeim í reynd. Það virðist hafa ríkt mikil og furðuleg tregða gegn því að konur feti í fótspor karla, hvað þá að þær standi jafn réttháar við hlið þeirra vegna eigin verðleika. Allan fyrri hluta þessarar aldar hafa konur barist fyrir bættum kjörum sínum og náð fram ýmsum samþykktum og lagasetningum sem hafa verið áfangar í mannréttindabaráttu þeirra. Og enn erum við að setja lög, fyrst og fremst vegna þess hve erfiðlega gengur að breyta hugarfari fólks, þannig að lög og samþykktir verði ekki bara dauður bókstafur en leiðsaga um lifandi raunveruleika.

Hið upphaflega frv., sem gert var af endurskoðunarnefndinni og hér er flutt af Svavari Gestssyni o. fl., hefur ýmislegt fram að færa til betri vegar frá gildandi lögum um jafnrétti karla og kvenna. Má sem dæmi nefna ákvæði í 1. gr., þar sem segir með leyfi forseta: „Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna.“ Að vísu segir þar ekkert um hvernig þetta skuli gert. Einnig er kveðið á um breytta sönnunarbyrði, þannig að atvinnurekandi eða ákærði á að sanna að hann hafi ekki brotið gegn lögunum en ekki brotaþoli. Enn fremur er kveðið á um skyldur ríkisstjórna til að tryggja málinu framgang, þar sem segir í 24. gr. með leyfi forseta: „Ríkisstj. skal gera framkvæmdaáætlun til fimm ára í senn. Þar skal kveðið á um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að ná fram jafnrétti kynjanna í raun.“

Þær breytingar sem stjórnarflokkarnir hafa gert á frv. endurskoðunarnefndarinnar, þannig að úr varð það stjórnarfrv. sem hér er lagt fram, hafa leitt til þess að frv. þetta er nánast umorðun á núgildandi lögum og breytir því litlu til eða frá um ástand þessara mála. Það sem bitastæðast var í frv. nefndarinnar og hefði getað fært málin til betri vegar hefur verið fellt niður, numið á brott. Tennurnar hafa verið dregnar úr þessu frv. og er það því nánast bitlaust. Þarna er einkum um að ræða bein ákvæði um að bæta skuli hag kvenna og breytta sönnunarbyrði. Möguleikar til að beita refsiákvæðum og viðurlögum vegna brota á jafnréttislögum hafa verið rýrðir og þar með verksvið Jafnréttisráðs. Æskilegast væri ef jafnrétti mætti koma á með jákvæðu hugarfari og án refsingar. Hér er þó verið að setja lög til áð vernda réttindi og reynsla sýnir að lög verða oft áhrifalítil ef ekki eru nein viðurlög við broti. Má sem dæmi nefna lög um notkun bílbelta og refsiákvæði við þeim. Þar sem refsiákvæði eru ekki í lögum um notkun bílbelta er notkun þeirra takmörkuð við lítinn hóp manna, allt of lítinn, undir 30%. Þegar síðan refsiákvæði eru sett, og tek ég þar dæmi frá nágrannalöndum okkar, þá eykst bílbeltanotkun allverulega þannig að nær allt að 90%. Vil ég í þessu sambandi benda hv. þm. á 188. mál þessa þings. Leið refsinga er þó líklega ekki vænlegasta eða árangursríkasta aðferðin til að knýja fram þá hugarfarsbyltingu sem er nauðsynlegur jarðvegur fyrir jafnrétti kvenna og karla. Til þess er fræðsla örugglega notadrýgri og varðar miklu að vel sé að henni staðið. Því þyrfti að vera mun betri útskýring á framkvæmd slíkrar fræðslu í frv.

Þótt jafnréttislög hafi reynst máttlítil hingað til er í engu verið að gera hér lítið úr hinni sleitulausu baráttu sem háð hefur verið fyrir réttindum kvenna og leitt hefur til þessara laga. En nú eru aðrir tímar og breytt viðhorf, eins og ég hef áður lýst, og því tökum við fulltrúar Kvennalista þá afstöðu til þessara frv. að við munum hvergi standa gegn þeim né hindra framgang þeirra, en getum ekki staðið að flutningi frv. sem stríða í grundvallaratriðum gegn hugmyndum okkar um kvenfrelsi.