25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4886 í B-deild Alþingistíðinda. (4303)

243. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Kristín H. Tryggvadóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umr. annars vegar og hins vegar frv. sex þm., 259. mál á þskj. 478, sýna mjög glögglega mismuninn á því hvort raunverulegur vilji er til jafnréttis kynjanna eða ekki. Í frv. hæstv. félmrh. er sleppt öllum þeim atriðum sem taka af öll tvímæli, þannig að ef það nær óbreytt fram að ganga verður áfram hægt að fara frjálslega með jafnréttið og túlka lögin að vild.

Ég ætla að benda á í þessu sambandi 3. gr. beggja lagafrv., með leyfi hæstv. forseta. Þar er ansi mikill munur og hefur mikið verið fellt úr í frv. félmrh. Ég les fyrst 3. gr. frv. hans:

„Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil. Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar“, og ekki meir þar. Í 3. gr. í hinu frv., máli 259, stendur:

„Hvers kyns mismunun eftir kynferði er óheimil.“ Það er eins.

„Með mismunun í lögum þessum er átt við athöfn eða athafnaleysi, hvers konar greinarmun, útilokun eða forréttindi sem skapar mismunandi stöðu kvenna og karla í raun vegna kynferðis eða atriða tengdum því.

Aðgerðir, sem eru sérstaklega ætlaðar til að bæta stöðu kvenna skv. 1. gr. 2. málsl., teljast ekki ganga gegn lögum þessum.“ Og síðan kemur það sem er líka í hinu frv.: „Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar.“

Þegar greinin er orðin svo stytt í stjfrv. miðað við 3. gr. í frv. þm. þýðir hún nánast með smáútúrsnúningi, sem ekki er vandi að túlka, á orðinu „tillit“ að vinnuveitanda getur fundist að „að taka tillit til“ sé að segja konunni upp svo að hún geti verið heima og undirbúið fæðingu barnsins allan meðgöngutímann, það geti verið tillitssemi að hans mati.

Því miður eru málin þannig í dag og koma ekki til með að breytast nema greinilega, þ. e. skýrt og tæpitungulaust, sé kveðið á um vilja. Ótrúlega margir virðast álíta konur smábarnamæður allt sitt líf og margir vinnuveitendur segja, það höfum við fengið: Þið náið aldrei jafnrétti nema fórna móðurhlutverkinu. Ef það er virkilega svo, hvað verður þá um framtíð þjóðarinnar, hvað verður um þjóðina? — Ég vara við slíkum hugsunarhætti, sem er að verða býsna algengur á Vesturlöndum og er farinn að teygja sig hingað. Það er orðið hart þegar þarf að fara að hugsa um í fullri alvöru að eina ráðið til skilnings á nauðsyn jafnréttis, án tillits til þess hvort kynið gengur með börnin, sé að karlmenn, feðurnir, séu skyldaðir til að taka fæðingarorlof til jafns við konur svo og að sinna um börn sín. Kannske yrði þá farið að greiða laun til heimavinnandi fólks með ung börn.

Það hefur mikið verið rætt um launajafnrétti undanfarið og litlu við það að bæta. En orsakirnar fyrir misréttinu eru ekki skortur á starfsmenntun hjá konum, heldur eru það gömlu viðhorfin, hugarfarið um fyrirvinnu, sem eru ótrúlega lífseig. Hvað ætli margar konurnar á Alþingi eigi heimavinnandi maka eða í hlutastarfi? Það gætu þó vel talist fyrirvinnur.

Á ráðstefnu sem Samband Alþýðuflokkskvenna hélt nýlega um heimavinnandi fólk fjallaði eitt erindið um möguleikana á að fá vinnu utan heimilis eftir nokkur ár yfir börnum heima. Í þessu sambandi ætla ég að vitna í 11. gr., um auglýsingar, það er 11. gr. frv. félmrh. sem er 12. gr. í hinu frv. óbreytt:

„Auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.“

Fram kom í áðurnefndu erindi, með leyfi hæstv. forseta, ég ætla að lesa hluta af því:

„Verst þykir mér þó dæmið um hroka atvinnurekenda, sem blasir við okkur, raunar bæði konum og körlum, á síðum dagblaðanna hvern einasta dag. Þá er ég að tala um þann ótrúlega dónaskap sem er í 80% auglýsinga um atvinnu. Það er krafist þess að senda allar persónulegar upplýsingar um sjálfan sig til afgreiðslu blaðs merkt einhverju númeri eða bókstaf. Einhver aðili úti í bæ, sem maður hefur ekki hugmynd um hver er, flokkar síðan póstinn sinn og er undir hælinn lagt hvað um umsóknina verður. Einhver aðili situr síðan uppi með allar þínar persónulýsingar, ræðir jafnvel yfir kaffibolla á vinnustað. Að þeir láti svo lítið sem endursenda umsóknina, hvað þá tilkynna kurteislega að manni sé hafnað, er af og frá. Eftir að hafa reynt þetta þrisvar sinnum og bíða og vona, þora ekki út fyrir hússins dyr ef herra X skyldi nú hringja í dag eða kannske á morgun, að ég nú ekki tali um með þá andstyggðartilfinningu að vita ekkert hver situr uppi með alls konar vitneskju um mig, þá er annað tveggja að missa kjarkinn, þetta hlyti bara að vera ég sem væri svona kolómöguleg því að ekki væri ég að sækja um eitthvað annað starf en það sem ég vissi að ég gæti örugglega unnið.

Í einhverri augnabliksdjörfung hnoðaði ég saman fjórum svohljóðandi svörum:

Hef allt til að bera sem þetta starf krefst eftir lýsingu í auglýsingu og margt fleira. Hafir þú áhuga á að kynna þér mína persónu frekar, þá heiti ég og hef síma.

Í stuttu máli af fjórum vinnuveitendum hringdu tveir, sem verður að teljast frábær árangur. En ég var nú svo örvæntingarfull þegar þetta var að ég átti bágt með að leika sama djarfa hlutverkið þegar á hólminn var komið. Af hverju var ég örvæntingarfull? Jú, það var vegna þess, eins og við allar þekkjum, að það er ekki bara við atvinnurekendur að sakast. Þessi áhrif voru ekki síst frá kynsystrum mínum, lesendabréfum dagblaðanna, flest skrifuð af konum, umræðum almennings í þjóðfélaginu, starfsemi í kvennahreyfingum. Alls staðar sami tónninn: húsmóðir meðhöndluð af skatti, tryggingakerfi, umtöluð almennt og álitin 3. flokks persóna.“

Ég vildi koma þessu að vegna auglýsingarinnar og umsóknar um stöðu.

Í þeirri tækniþróun sem nú er að verða felst sérstök hætta með tilliti til jafnréttis kynjanna. M. a. eru í Símablaðinu frá 1983 átakanlegar lýsingar kvenna á Patreksfirði á því þegar þær voru sendar heim vegna tæknibreytinga og fengu enga vinnu. En það er ekki eingöngu vegna fækkunar starfa og breytinga sem konur verða verr úti, heldur eru það viðhorfin sem leika stórt hlutverk. Við þurfum ekki annað en líta á sjónvarpsþátt sem var sýndur s. l. vetur, þ. e. í febr., um tölvutæknina og var í umsjá eins fréttamanns sjónvarpsins. Hann var byggður eingöngu upp á viðtölum við fimm karlmenn — engin kona. Niðurstöður m. a. í skólunum, bekkjunum: Tölvur eru mál karlmanna.

Sem betur fer eru þeir þó til sem sjá þessa hættu. Í Lesbók Morgunblaðsins 11. febr. var spjall við forstjóra IBM hér á landi þar sem hann segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Því miður verður maður var við að drengir sækjast meira eftir að komast í snertingu við tölvur og eru þar af leiðandi fljótari að tileinka sér þessa tækni en stúlkur. Þetta getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þær síðar meir. Mönnum er mikið í mun jafnrétti kynja á milli, en svo gæti jafnvel farið að atvinnumöguleikar fyrir stúlkur verði minni af þessum sökum. Erlendis hafa farið fram rannsóknir á þessu atriði og þá hefur komið fram verulegur munur þarna á. Þetta ætti kvenfólk að taka til athugunar og snúa hér algerlega við blaðinu.“

Ég held því að eina ráðið til að tölvurnar eða þessar tækninýjungar verði ekki til að auka misréttið sé að kynna öllum nemendum tölvur og hvernig þær vinna. Það verður ekki gert nema í skyldunáminu, þ. e. í grunnskólanum, allir nemendur verði tölvulæsir.

Ég las nýlega grein eftir kanadíska konu, Moniku Thompson, raunar ræðu sem hún hélt á ráðstefnunni „Kanada á morgun“ sem haldin var í nóv. s. l. Þar varar hún við „the electronic cottage“, sem ég hef nefnt hér rafeindaselið, eða þeirri hugmynd að mörg af þeim störfum sem konur vinna nú á skrifstofum, í prentsmiðjum, útgáfufyrirtækjum og fleiri séu upplögð heimaverkefni þar sem tölvur eru á heimilinu. Þarna er kannske helst falin hættan á að vinnuveitendum, eiginmönnum, jafnvel konunum sjálfum, finnist þarna komið tækifæri fyrir þær til að færa sig aftur inn á heimilin. Því miður er þá ætlast til þess að þær vinni þessi störf með fullum heimilisstörfum og barnagæslu þar sem þær mundu leysa vandamál barnagæslunnar. En ef þróunin verður í þessa átt má jafnréttissinnað fólk fara að biðja fyrir sér. Við sjáum afleiðingarnar: Heimilisfaðirinn sparar barnagæslu, sleppur við húsverkin, þarf ekki að óttast samkeppni á vinnustað, getur unnið eftirvinnu, sótt fundi, jafnvel ferðast landshornanna á milli, m. a. í viðskiptaerindum. Konan er heima. Fyrirtækin þurfa ekki nema hluta skrifstofurýmisins því helmingur starfsfólksins er ekki þar, heldur heima í „selinu“. Kostnaður lækkar mjög, m. a. vegna tækjakaupa, pappírs o. fl. En konan sjálf einangrast í starfi. Stéttarfélagið og önnur félagsstörf bíða. Vinnutími við skerma verður eftirlitslaus. Kaupið verður ekki í samræmi við kostnað af að reka skrifstofu heima með öllum stofnkostnaði og aðstöðu. Kjarabarátta, hvernig fer um hana, lífeyrissjóði o. fl.? Ég læt ykkur hv. alþm. um að hugsa þetta. Auðvitað getum við verið svolítið bjartsýn og séð fyrir okkur samheldni fjölskyldunnar, en ég veit ekki hvort við trúum því.

Ég spyr að lokum hæstv. ríkisstj. og alþm.: Er raunverulegur vilji til að koma á jafnrétti kynjanna og sýna það í verki að bæði kyn séu gædd ámóta viti eða er ætlast til að karlmennirnir hafi áfram vit fyrir konunum? Um það er að ræða eftir því hvort frv. verður samþykkt.