25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4905 í B-deild Alþingistíðinda. (4312)

298. mál, áfengislög

Flm. (Halldór Blöndal):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem er einfalt í sniðum. Það er efnislega á þá lund að úr áfengislögum falli setningin „utan kaupstaða er einungis heimilað að veita vínveitingaleyfi á þeim árstíma sem heimsóknir erlendra ferðamanna eru að jafnaði mestar, þ. e. frá 1. júní til 30. sept.“

Ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt er sú að sveitarstjórn Skútustaðahrepps hefur í samþykkt sinni frá 6. sept. s. l. beint því til Alþingis og alþm. að nema þetta ákvæði úr lögum, þar sem það takmarkar atvinnumöguleika hótelrekstrar þar í sveit, sem er mjög umfangsmikill og raunar mikill þáttur í atvinnulífi þar á staðnum. Eins og nú standa sakir er heimilt að veita vín í öllum hótelum landsins sem um það hafa sótt og eru 1. flokks, utan þriggja að ég ætla, í Borgarnesi, Höfn í Hornafirði og Mývatnssveit. Með þessu frv. er einungis fram á það farið að þessi þrjú hótel standi rekstrarlega jafnfætis öðrum hótelum á landinu.

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta. Það er sanngirnis- og réttlætismál að mismuna ekki atvinnurekstri með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í áfengislögum. Ég vil minna á það að ferðamannatíminn hefur lengst og ógerningur að takmarka umsvif hótela með þeim hætti sem nú er gert í lögum.

Ég vil, herra forseti, leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. allshn. og 2. umr.