26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4910 í B-deild Alþingistíðinda. (4319)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Síðustu spurningunni er auðsvarað því eins og allir vita eru tíu vinir litla mannsins í ríkisstj. Að sjálfsögðu er hér ekki um neitt gamanmál að ræða, og ég fullyrði að allir eru jafnir fyrir lögum. Það felst í stjórnarfari okkar.

Til að svara þeim spurningum sem hv. þm. bar sérstaklega fram til mín sem fjmrh. vil ég taka fram að ég tel mig sem fjmrh. fyllilega einfæran um að annast innheimtu vörugjalds og söluskatts af stjórnvalda hálfu og þarf enga aðstoð samráðherra minna til að framfylgja lögum um þau efni, enda hefur slík aðstoð ekki verið boðin. Það mál sem hv. þm. kallar deilumál og gerir hér að umtalsefni, snýst ekki heldur um valdsvið mitt í þessu efni. Ríkisstj. hefur ekki skipað formlega nefnd fjögurra ráðh. til að fjalla um málið sem slíkt. Hins vegar hafa þeir fjórir ráðh. sem málið snertir mest hist og rætt það með sér eins og eðlilegt verður að telja um mál sem vitað er að ágreiningur er um milli manna eða stjórnarflokka. Ráðh. hafa falið fjórum af sínum samstarfsmönnum að kanna nákvæmlega með hvaða hætti verðmyndun á Kakómjólk, Mangósopa og Jóga á sér stað til þess að fá úr því skorið hvort verð á þessum vörum sé óeðlilega hátt í dag. Af minni hálfu hefur ekki komið til greina að falla frá lögboðinni innheimtu af þessum drykkjarvörum og umrædd könnun snýst ekki um það. Ég hef litið svo á að könnun þessara fjögurra manna gæti verið fyrsta skrefið í allsherjarúttekt á verðlagningu landbúnaðarvara, sem margir telja að gæti verið hagkvæmari.

Við þetta svar mitt vil ég bæta að ég tel að við verðum að grandskoða uppbyggingu á verðmyndun á neysluvörum í landinu, hvort sem þær eru inniendar eða erlendar, ef við eigum að ná árangri til frambúðar í að skapa hér betra þjóðfélag, gera krónuna verðmeiri í staðinn fyrir að halda áfram í því verðbólgukapphlaupi sem við höfum öll tekið þátt í undanfarin mörg ár.

Ég vona að ég hafi svarað virðulegum þingmanni.