26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4925 í B-deild Alþingistíðinda. (4329)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki ástæða til að leggja mikið upp úr því í löngu máli að innan ríkisstj. sé mikill ágreiningur. Hann er ekki fyrir hendi að því marki sem hér hefur verið talað um. Hitt er annað mál að þegar tveir flokkar, hverjir sem það eru, með mismunandi pólitískar skoðanir og markmið ná saman í samstarfi, þá hlýtur alltaf að koma upp við og við eitthvert mál sem þeir eru ekki sammála um. Það getur verið að hér sé eitt í uppsiglingu og er mjög líklegt.

Ég skal reyna að stytta mál mitt. En ég vil svara hv. 2. þm. Norðurl. v. þegar hann fullyrðir að túlkun fjmrn. sé ekki rétt. Það er rangt hjá honum. Túlkun fjmrn. er rétt og ég get upplýst hér að ég hef sem fjmrh. rétt til þess að veita undanþágur frá þessum lögum. Það hefur verið farið fram á það við mig að veita undanþágu í þessu tilfelli. Ég hef hafnað því vegna þess að það er komið fram frv. til þess að breyta þessum lögum. Ef lögunum verður breytt, þá mun ég að sjálfsögðu framkvæma þau lög.

Ég vil upplýsa hv. 4. þm. Norðurl. e. um að hér eru kannske gerðar óheppilegar ráðstafanir, en hér er verið að fara að lögum. Þó að gosdrykkir lækki og jafnvel sælgæti, sem er ekki inni í þessari mynd eins og hv. þm. gat um, þá er hér verið, má segja, að sýna forsmekk að því sem koma skal, ef ég get haft einhver áhrif þar á, þ. e. að vöruverð almennt í landinu lækki, þannig að krónum í umslögum launafólks þurfi ekki að fjölga heldur kaupmátturinn að aukast. Það er málið. Og þá er það alveg sama hvort það er litli maðurinn eða stóri maðurinn, sem ég reikna með eftir áherslu hjá virðulegum þm. að hann telji sig til, þeir geti báðir fengið sér kók eða annað sælgæti, þegar þeir þurfa á að halda eða vilja, það séu ekki forréttindi hv. 2. þm. Vestf. og annarra stórra manna. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki stórmenna.

Fyrirspyrjandi, hv. 5. þm. Reykv., bað mig að svara einni spurningu til viðbótar og ég skal gjarnan upplýsa að það er orðið þó nokkuð síðan ég lagði fyrir ríkisstj. og þingflokkana till. um að svohljóðandi lög frá 23. júlí 1936 yrðu felld úr gildi:

„Lög um að Mjólkursamsalan í Reykjavík og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda skuli vera undanþegin útsvari og tekju- og eignarskatti.

„Vér Christian hinn Tíundi af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slésvík, Holtsetalandi, Stórmæri, Þéttmerski, Láenborg og Aldinborg, gjörum kunnugt:

Alþingi hefur fallist á lög þessi og Vér staðfest þau með samþykki Voru:

1. gr.

Mjólkursamsalan í Reykjavík og Sölusamband ísl. fiskframleiðenda í Reykjavík, meðan það hefir löggildingu sem aðalútflytjandi salttiskjar skv. lögum, skulu undanþegin öllum tekju- og eignarskatti, svo og því að greiða aukaútsvar eftir efnum og ástæðum.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Eftir þessu eiga allir hlutaðeigandi sér að hegða.

Gjört í Reykjavík, 23. júlí 1936.

Undir Vor konunglega hönd og innsigli.

Christian R.“

(Gripið fram í.) Það er rétt. Ég get ekki annað, úr því að ég er spurður, en svarað rétt og skýrt þeirri spurningu sem til mín var beint. Flokkarnir hafa enn ekki afgreitt þessa till. mína.