07.11.1983
Efri deild: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

19. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég tel þarft að taka þetta mál til umfjöllunar og þakka hv. flm. frumkvæðið. Það er mjög þarft að taka til umfjöllunar hvernig verðlagningu fiskjar er háttað hjá okkur og það mætti einnig ræða hver er atkoma útgerðar og sjómanna um þessar mundir.

Ég sé þó nokkurn galla á þessu frv. Það er sagt í 1. gr. að 10. gr. laganna skuli falla niður. Síðan er ekki gerð grein fyrir því hvað eigi að koma í staðinn. Ég átta mig ekki á því hvað er meiningin að komi í staðinn. Við höfum nefnilega reynt þá leið að Verðlagsráð komi ekki nálægt ákvörðunum fiskverðs, en frá þeirri leið var horfið vegna þess að hún gafst mjög illa. Menn upplifðu það, og þekki ég þá sérstaklega til hvað varðar sjómennina. að standa í deilu um fiskverð ekki vikum saman heldur jafnvel mánuðum saman, flotinn gat ekki leyst festar vegna þessa og allir töpuðu. Þar ríkti það lögmál frumskógarins sem mér sýnist að sé verið að gera tillögu um að framkalla hér — lögmál sem að mínu mati yrði til mikils tjóns fyrir sjómannastéttina í landinu og útgerðina einnig. Ég held nefnilega að það kerfi sem nú er notast við, sem vissulega má bæta, það er ekkert kerfi algilt og algott, hafi farið í þann farveg sem lýst var í framsöguræðu hv. 8. landsk. þm. vegna þess að óábyrgir stjórnmálamenn eða ríkisstjórnir hafa beint því í það far. Ég held að Verðlagsráð sem slíkt geti starfað og tekið sínar sjálfstæðu ákvarðanir ef það er ekki alltof háð ríkisstjórnum hverju sinni.

Hins vegar tel ég að það skapi mikla erfiðleika við ákvörðun á fiskverði i dag, hversu feikilega stór hluti af flotanum er í eigu fiskvinnslustöðvanna. Ætli það sé ekki um 85%. Og hvaða hagsmuni hafa fiskvinnslustöðvarnar af því að hækka fiskverð til sjómanna? Enga. Þarna er gagnstæðum hagsmunum steypt í eitt, sem veldur því að útgerðin fær ekki sitt og sjómennirnir fá ekki sitt.

Ég vil endurtaka það, sem hv. síðasti ræðumaður minntist á, að þetta kerfi var tekið upp vegna biturrar reynslu sjómanna og útvegsmanna á sínum tíma og hefur það leyst mörg vandamál til þessa dags, en því hafa líka fylgt ýmis vandamál. En það er ekki bara á þetta að líta. Menn halda því fram að samningar landverkafólks séu óábyrgir, menn halda því fram að samningar sjómanna séu óábyrgir, menn halda því fram að allir samningar séu óábyrgir, menn flýja í þessa átt til að afsaka ranga efnahagsstefnu í landinu og kenna þeim aðferðum sem notaðar eru til að ákveða eða semja um allt saman.

Ég vil að síðustu spyrja hvað menn ætla að komi í staðinn fyrir það kerfi sem nú er notað, hvort það á að hverfa beint til þess sem áður var, lögmáls frumskógarins, sem horfið var frá, sem sjómenn töldu mjög gallað, sem útvegsmenn töldu mjög gallað, og ég spyr hvort það hefur verið leitað eftir því hjá sjómönnum hvort þeir vildu fara leið þessa. Ég verð að játa að ég hef ekki heyrt einn einasta sjómann, sem man þá tíð að standa í deilu svo vikum og mánuðum skipti hér áður fyrr, mæla því bót að horfið yrði til gamla fyrirkomulagsins.

En ég er sammála því að við eigum að láta af óábyrgum gerðum, ákvörðunum sem ég tel að séu ekki kerfinu að kenna, heldur stjórnarfari eða óábyrgum stjórnmálamönnum sem misnota það kerfi sem nú er í gildi.