26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4936 í B-deild Alþingistíðinda. (4342)

254. mál, auðlindarannsóknir á landgrunni Íslands

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir till. til þál. á þskj. 467, um auðlindarannsóknir á landgrunni, sem ég flyt hér í Sþ. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að efla og hraða rannsóknum á landgrunni Íslands, innan jafnt sem utan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar, með sérstöku tilliti til auðlinda, sem þar kunna að finnast.“.

Herra forseti. Þær auðlindir sem í jörðu finnast hér á landi hafa á undanförnum áratugum verið allvel kannaðar og rannsakaðar af íslenskum vísindamönnum og öðrum sérfræðingum. Það eru hins vegar eðlilegar ástæður sem liggja til þess að landgrunnið, hafsbotninn í kringum landið, hefur ekki verið miðdepill slíkra rannsókna á liðnum árum sem landið sjálft og þær auðlindir sem þar eru fólgnar í skauti jarðar. Það er einfaldlega vegna þess að til skamms tíma var landgrunnið íslenska mjög takmarkað, náði í fyrstu aðeins út til marka þriggja og fjögurra sjómílna landhelginnar, síðan fyrst 1958 til tólf mílnanna og þá nokkru lengra út, 50 sjómílur. Það er ekki fyrr en 1976 og 1979, þegar efnahagslögsaga Íslands er endanlega færð út í 200 sjómílur, að telja má að alþjóðalög frá þeim tíma hafi heimilað íslensku þjóðinni full ríkisyfirráð yfir landgrunninu og hafsbotninum út að 200 sjómílna mörkunum.

Síðan eru liðin fimm ár, ef við miðum við lögin sem sett voru um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn 1979 þegar þessum yfirráðum var ótvírætt lýst yfir, og þess vegna er að mati flm. orðið tímabært að við förum að snúa okkur í auknum mæli að því að rannsaka landgrunnið íslenska með tilliti til þess sérstaklega hvaða auðlindir þar kunna að leynast.

Hér er, herra forseti, ekki um neitt lítið svæði að ræða. Hér er í raun um að ræða, og þá miða ég við 200 sjómílna mörkin, svæði sem er hvorki meira né minna en sjö sinnum stærra en landið sjálft eða u. þ. b. 750 þús. ferkílómetrar að stærð. Það er þess vegna augljóst að hér er mikið verk að vinna og ekkert áhlaupaverk. Hér er um gífurlega stórt svæði að ræða, eins og þessar tötur gefa til kynna.

Af eðlilegum ástæðum vitum við í dag næsta lítið um hvaða auðlindir kunna þar að leynast. Þar ber vitanlega hæst spurninguna um hvort þar sé einhverjar orkulindir að finna, svo sem olíu- og gaslindir, en einnig koma til greina ýmis önnur verðmæt jarðefni. Raunar vinnum við þegar í dag og höfum alllengi unnið verðmæt jarðefni af landgrunninu hér uppi undir ströndum, svo sem sand og möl. Skeljasand má nefna sérstaklega í þessu sambandi.

Fram til þessa hafa hagnýtar auðlindarannsóknir á íslenska landgrunninu af þessum ástæðum verið af mjög skornum skammti. Þar hafa málin verið í örri þróun hvað varðar yfirráðarétt þjóðarinnar yfir þessu landgrunni. Hins vegar er kominn tími til þess að í þessu efni verði breyting á og þessum málum öllum verði mun meiri gaumur gefinn af stjórnvöldum en verið hefur hingað til. Við höfum ekki efni á að vanrækja rannsóknir á þessu víðáttumikta svæði, sem e. t. v. geta skapað okkur verulegan arð í framtíðinni. Af þessum sökum er þessi þáltill. fram borin, þar sem skorað er á ríkisstj. að efla og hraða rannsóknum á landgrunninu með sérstöku tilliti til auðlinda sem þar kunna að finnast.

Það má segja að ástæðunum til slíkra rannsókna megi skipta í tvo meginþætti. Það eru í fyrsta lagi rannsóknir sem lúta að réttindum okkar yfir landgrunninu þar sem það nær út fyrir 200 sjómílna mörkin. Það lýtur fyrst og fremst að spurningunni um réttindi okkar gagnvart öðrum þjóðum. Hinn þáttur málsins, og kannske sá sem ekki er síður nærtækur, er auðlindarannsóknir, þ. e. rannsókn sjálfs landgrunnsins með tilliti til þess hvort þar finnast nýtanlegar auðlindir sem við gætum á næstu árum byrjað að hafa arð af.

Ef ég vík fyrst örfáum orðum að fyrra atriðinu er þess að geta að þó ég hafi hér nefnt íslenska landgrunnið svæði sem miðast við 200 sjómílna markalínuna, þetta 750 þús. ferkílómetra svæði, þá er það svo að samkvæmt þeim nýja hafréttarsáttmála, sem samþykktur var fyrir rúmum tveimur árum af Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og Ísland undirritaði ásamt 117 öðrum þjóðum þann 10. desember 1982, er strandríkjum ekki aðeins tryggður réttur yfir landgrunninu innan 200 sjómílnanna, heldur er í ýmsum tilvikum staðfestur yfirráðaréttur strandríkisins, Íslands í þessu tilviki, til landgrunnsins og hafsbotnsins utan við 200 sjómílna línuna. Þar getur verið um að ræða réttindi allt út að 350 sjómílna mörkunum eða jafnvel — í undantekningartilvikum að vísu — út fyrir þau mörk. Þá er eðlilegt að sú spurning vakni og á að ígrundast af íslenskum stjórnvöldum: Eru möguleikar og horfur á því að réttindi Íslands geti náð 350 sjómílur eða jafnvel enn lengra út frá Íslandi sjálfu? Svarið við þeirri spurningu fæst ekki nema með rannsóknum, vegna þess að samkvæmt hafréttarsáttmálanum byggjast slík réttindi utan við 200 sjómílna mörkin á jarðfræðilegu framhaldi landsins og öðrum jarðfræðilegum þáttum landgrunns og hafsbotns. Ef tiltekin jarðfræðileg skilyrði framhalds landsins eru fyrir hendi, sem nánar er lýst í hafréttarsáttmálanum og gefst ekki tími eða tækifæri til að skýra hér nánar, eru möguleikar á að strandríki geti krafist réttinda yfir landgrunninu út að 350 sjómílna markinu eða jafnvel enn lengra. En grundvöllur þess er að unnt sé að sýna fram á það með vísindarannsóknum og jarðfræðilegum rökum að þessi réttindi eigi að fatla strandríkinu í skaut.

Það er af þessum sökum hin mesta nauðsyn á því að afla sér sem gleggstrar vitneskju um landgrunnið og hafsbotninn umhverfis Ísland svo unnt sé að styðja kröfur um landgrunnsréttindi utan 200 sjómílna markanna. Þar er fyrst og fremst um að ræða hafsbotnssvæðin í suðausturátt, svo sem áður hefur komið fram í ályktunum Alþingis, en Alþingi hefur ályktað um málið fyrst og fremst að því er varðar hið svonefnda Rockallsvæði eða Rockall- og Hatton-bankana.

Hér er fyrst og fremst um það að ræða að hugsanlegt er að Íslendingar geti krafist slíkra réttinda í suðausturátt, en jafnframt á Reykjaneshryggnum utan við 200 mílna mörkin. Á því leikur miklu minni vafi og má segja að alveg augljóst sé að þar eigi Íslendingar landgrunnsréttindi utan við 200 sjómílurnar. Þar er augljóst framhald landsins, Reykjanesfjallgarðurinn, sem gengur á haf út. Hins vegar er miklu meiri vafi um mörkin í suðausturátt, þ. e. á Rockall-Hatton-svæðinu. Það er aðeins á grundvelli vísindategra rannsókna sem unnt er að rökstyðja þær kröfur sem orðaðar hafa verið hér á Alþingi og Alþingi hefur oftar en einu sinni ályktað um.

Það eru því grundvallarrannsóknir sem ég er að fjalla um í þessu tilefni — grundvallarrannsóknir sem hverri sjálfstæðri þjóð er nauðsyn á að framkvæma og þá ekki síst, að mínu mati, okkur Íslendingum sem eigum hér tvímælalaust verulegra hagsmuna að gæta. Slíkar rannsóknir hafa fram að þessum degi verið af afar skornum skammti. Það er því nauðsynlegt að gerð sé rannsóknaráætlun til nokkurra ára þar sem fjallað verði um öflun aukinnar almennrar grundvallarþekkingar á landgrunninu og hafsbotninum umhverfis landið og þá ekki síst utan við 200 sjómílurnar sem innan þeirra. Það er eðlilegt að leitað verði samvinnu við erlendar vísindastofnanir um slíkar rannsóknir, en alþjóðasamvinna á þessum vettvangi hefur farið mjög vaxandi hin síðari ár. Það má segja að þetta, þ. e. grundvallarrannsóknirnar, fyrst og fremst utan við 200 sjómílurnar, sem beinast fyrst og fremst að því að rökstyðja réttindakröfur okkar til svæðanna utan við þá línu, sé annað meginefni þessarar till.

Hitt atriðið er það sem beinlínis er fram tekið í heiti till., þ. e. auðlindarannsóknir á landgrunni Íslands. Þar er þá um það að ræða að efla og hraða rannsóknum á landgrunninu svo að unnt verði að ganga úr skugga um hvaða auðlindir þar kunni að finnast. Slíkar rannsóknir hafa einnig fram til þessa, að vísu nýtast rannsóknirnar í báðum þessum augnamiðum í sjálfu sér, verið af mjög skornum skammti. Þar hefur fyrst og fremst hamlað skortur á fjármagni og einnig á tækjakosti. Það má þó segja að nokkuð hafi verið gert í þeim efnum. Rannsóknir á jarðlögum og sjávarbotninum eru þó mjög stutt á veg komnar. Þess vegna verður ekki í dag sagt fyrir um hvort olíu eða önnur verðmæt jarðefni er að finna í þessum jarðlögum. Það er ekki hægt heldur að ganga endanlega úr skugga um hvort um olíu er að ræða þar nema með borunum. Hins vegar, og það er fyrsta skrefið, má með jarðeðlisfræðilegum könnunaraðferðum leiða að því líkur hvort jarðlagaskipanin sé slík að hún sé líkleg til að mynda svokallaðar olíugildrur, en með slíkum jarðeðlisfræðilegum könnunum er minnkuð sú áhætta að grípa í tómt, sem jafnan er samfara borunum. Að þessu leyti er olíuleit um margt hliðstæð jarðhitaleit. eins og hún hefur verið stunduð um árabil hér á landi.

Þær jarðeðlisfræðilegu könnunaraðferðir sem reynst hafa gagnlegastar við leit að olíu og gasi eru hinar svonefndu jarðsveiflumælingar, segulmælingar og þyngdarmælingar. Af þessum mælingum eru jarðsveiflumælingar langmest notaðar í olíuleit og gefa bestar upplýsingar um líkleg olíusvæði. Jarðsveiflumælingar fela í sér könnun á jarðlögum með hljóðbylgjum, en þessar mælingar eru jafnan gerðar frá skipum. Þyngdarmælingar gefa upplýsingar um gerð og byggingu berglaga með mismunandi eðlismassa. Þau hafa lítil en þó mjög mælanleg áhrif á aðdráttarafl jarðar. Þyngdarmælingar á sjávarsvæðum eru venjulega framkvæmdar á skipi, en segulmælingar hins vegar ýmist úr flugvélum eða á skipum. Berglög með mismunandi seguleiginleika hafa áhrif á segulsvið jarðar við yfirborð og þá geta slíkar mælingar gefið vísbendingar um skipan jarðlaga á svipaðan hátt og hinar tvær fyrrtöldu.

Hér skal ekki frekar farið út í eðli slíkra rannsókna, enda yrði það of langt mál, en í þessu sambandi má minna á það örfáum orðum sem hefur gerst í þessum efnum.

Það var árið 1971 sem þáverandi iðnrh., Jóhann Hafstein, heimilaði Shell-olíufélaginu í Hollandi mælingar á hafsbotninum við Ísland. Það var í fyrsta skipti sem áttu sér stað kannanir á hafsbotninum í nokkrum mæli. Það var gert að skilyrði að sérfræðileg viðskipti og umsjón væru falin Orkustofnun. Umfang þessara mælinga var minna en efni stóðu til. Um 300 kílómetra mælilína var farin vestur af landinu.

Næst gerist það að í ágúst 1978 heimilaði þáv. iðnrh., dr. Gunnar Thoroddsen, bandaríska rannsóknarfyrirtækinu Western Geophysical að framkvæma slíkar rannsóknir. Hér var um að ræða bergmáls-, segul- og þyngdarmælingar frá skipi fyrir norðan landið á 1100 kílómetra línu að lengd. Mælingarnar voru framkvæmdar í nóvember og desember 1978 og var Orkustofnun falið í umboði rn. af hafa umsjón og eftirlit með framkvæmdum. Síðan var unnið úr þessum mælingum í London á fyrri hluta árs 1979 og tóku sérfræðingar Orkustofnunar þátt í allri úrvinnslu gagnanna. Í samræmi við skilmála þessarar leyfisveitingar afhenti rannsóknarfyrirtækið iðnrn. eintak af öllum gögnum og niðurstöðum þessarar könnunar.

Þessi könnun, sem fram fór 1978, beindist ekki fyrst og fremst að hafsvæðunum öllum heldur hafsbotnssvæðunum fyrir Norðurlandi og þar var fyrst og fremst um setlagarannsóknir að ræða. Þær rannsóknir leiddu í ljós að um veruleg setlagasvæði væri að ræða fyrir utan Eyjafjörð og Skjálfandaflóa.

Frekari rannsóknir fóru síðan fram á Skjálfandasvæðinu sumarið 1980 að tilhlutan nefndar um hagnýtar setlagarannsóknir þar sem Orkustofnun var framkvæmdaraðili. Þar var um að ræða jarðfræðirannsóknir í Flatey á Skjálfanda, á Flateyjardal og við Húsavík og þá á landi í það skipti. Þessar athuganir miðuðust við að auka vitneskju um syðri takmörk setlaganna sem hið erlenda rannsóknarfyrirtæki hafði fundið á Skjálfandaflóa og út af Eyjafirði.

Þessar athuganir bentu til þess að líkur væru á að setlögin, sem einna þykkust eru úti fyrir mynni Eyjafjarðar en ná austur á Skjálfandasvæðið, væru einnig undir Flatey. Þannig gáfu þessar athuganir vísbendingu um að skynsamlegt væri að bora í Flatey til þess að kanna nánar undirstöðu eyjarinnar og þau setlög sem þar væri að finna.

Það var síðan þáv. iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, sem fól Orkustofnun að framkvæma sérstakar rannsóknarboranir í Flatey á Skjálfanda sumarið 1982 til þess að kanna þar setlögin. Niðurstöður þeirra rannsókna sem framkvæmdar voru 1982 voru í stuttu máli þær að borunin staðfesti þá tilgátu sem sett hafði verið fram að undir Flatey og utan hennar væri að finna allþykk setlög en borholan var hins vegar langt frá því að vera nægilega djúp til þess að ganga úr skugga um heildarþykkt þeirra. Til þess að ganga úr skugga um tilvist kolvetna í setlögum þar nyrða þarf að bora niður á 2 þús. metra dýpi. Samkvæmt fyrri vísbendingum gætu setlögin þarna verið um 4 þús. metra þykk eða 4 kílómetra þykk. Rannsóknarholan sem boruð var var hins vegar ekki nema 550 metra djúp og ekki voru tök á því með þeim búnaði sem fyrir var að ná lengra niður.

Þetta er í mjög stuttu máli það sem gerst hefur hvað auðlindarannsóknir hér á landgrunninu varðar. Það má kannske segja að þær séu ekki langt komnar. En í þessu efni er þó rétt að minna á það að með samningi okkar við Norðmenn um Jan Mayen, sem gerður var 22. október 1981 um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen, er gert ráð fyrir auðlindarannsóknum á landgrunninu milli Íslands og Jan Mayen. Þar er gert ráð fyrir framkvæmd kerfisbundinnar jarðfræðikönnunar sem fram fari á þessu landgrunnssvæði og skulu Norðmenn kosta forrannsóknir á hafsbotninum en skipulag vera í höndum beggja aðila sameiginlega, Íslendinga og Norðmanna.

Þessar undirbúningsrannsóknir eru u. þ. b. að hefjast. Að þeim hefur verið unnið en eiginlegar rannsóknir á staðnum munu ekki fara fram fyrr en næsta sumar. Stefnt er að því af hálfu beggja aðila, Íslendinga og Norðmanna, að framkvæma setþykktarmælingar á Jan Mayen-hryggnum sumarið 1985. Eins og ég sagði áðan verða þær mælingar kostaðar af Norðmönnum en Íslendingar munu þar fylgjast með og fá vitanlega allar rannsóknarniðurstöður í hendur.

Þetta er í stuttu máli sú staða sem uppi er í málinu í dag. Ýmsar opinberar nefndir hafa starfað að þessum málum, landgrunnsnefndir. Hin síðasta þeirra var nefndin sem ég gat um áðan, þ. e. nefnd um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir sem Hjörleifur Guttormsson skipaði í september 1980, þáverandi iðnrh. Áður hafði nefnd starfað að þessum málum sem Gunnar Thoroddsen, þáverandi iðnrh., hafði skipað 1978. Nefnd um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir lauk störfum og starfar ekki lengur. Hún lauk störfum í lok síðasta árs þannig að engin opinber framkvæmdaaðili stendur að þessum málum í dag. Hins vegar heyra þessi mál eins og menn vita undir iðnrn.

Áður en ég lýk þessari framsöguræðu má varpa þeirri spurningu fram, herra forseti, hvort ástæða sé til þess að hefjast handa í þessum efnum, svo sem hér er mælt fyrir, jafnþröngt og nú er í þjóðarbúinu, hvort við höfum í fyrsta lagi fjármagn til slíkra rannsókna og þá einnig hvort hér á landi sé um að ræða nægilega tækniþekkingu til þess að standa að slíkum vísindarannsóknum. Því er til að svara — svo ég taki síðara atriðið fyrst — að hér á landi starfa allmargir vísindamenn sem hafa hlotið menntun til slíkra landgrunnsrannsókna og hafa raunar að þeim starfað í takmörkuðum mæli, eins og ég lýsti, á liðnum árum. Þar er m. a. um að ræða sérfræðinga hjá Raunvísindastofnun Háskólans, hjá Orkustofnun og Hafrannsóknastofnun. Til þessa hefur þá hins vegar skort starfsaðstöðu, rannsóknartæki og einnig fjármagn til þess að starfa að skipulögðum rannsóknaráætlunum. Hins vegar er vissulega tímabært að við hagnýtum okkur þessa þekkingu sem til er í landinu með skipulögðu og samhæfðu átaki í þessum efnum. Á þessi atriði hefur raunar verið bent á undanförnum árum af þeim opinberu nefndum sem um þessi mál hafa fjallað og ég nefndi. Þrátt fyrir það er ekki enn um neitt skipulegt starf að ræða né fjárveitingar til slíkra hagnýtra hafsbotnsrannsókna.

Í fljótu bragði mætti líka ætla að slíkar auðlindarannsóknir sem hér eru til umræðu væru okkur Íslendingum fjárhagslega ofviða, ekki síst nú þegar svo þröngt er í búi hjá smáfuglunum, eins og við höfum heyrt hér á Alþingi síðustu daga og vikur. Svo er þó ekki að mínu áliti. Það liggur fyrir í þessu máli að ýmsar erlendar rannsóknarstofnanir og þá ekki síst auðlindaleitarfélög og erlend olíufélög eru þess óðfús að hafa samvinnu við íslensk stjórnvöld um slíkar rannsóknir á íslenska landgrunninu og bera af þeim mestallan ef ekki allan kostnað. Þá leið fóru m. a. Norðmenn þegar þeir hófu skipulega auðlindaleit á sínu landgrunni og gaf það góða raun. Við höfum einnig af þessu nokkra reynslu, þau tvö dæmi sem ég nefndi hér áðan og síðast 1978 þegar bandaríska auðlindafyrirtækinu var veitt heimild til þess að kanna seflögin fyrir Norðurlandi. Sú leið er þess vegna augljós. Hún er tiltölulega auðfarin. Þar er vitanlega jafnan sett það skilyrði að verkið sé unnið í náinni samvinnu við íslenska vísindamenn undir eftirliti þeirra, umhverfisvarna gætt við slíkar rannsóknir í fyllsta mæli og jafnframt að niðurstöður verði lagðar í hendur íslenskra stjórnvalda þegar þær liggja fyrir.

Af þessum sökum tel ég, herra forseti, að fjárhagshliðin sé hér ekki nein sú fyrirstaða að ekki sé unnt að hefjast handa í þessum efnum hið allra fyrsta. Það er af þessum ástæðum sem þessi þáltill. er borin fram. Hún er borin fram í fyrsta lagi til að vekja athygli á mikilvægi þessa máls. Í öðru lagi til að vekja athygli á nauðsyn þess að hefjast hér handa vegna þess að vísindaþekkingin er fyrir hendi. Fjármagnið er fyrir hendi í þeirri mynd sem ég lýsti ef eftir því er leitað. Við vitum vitanlega ekki á þessari stundu hve mikinn arð íslenska þjóðin mun hafa eða geta haft af slíkum auðlindum á þessu víðáttumikla svæði á næstu árum og áratugum. Hins vegar hafa þær litlu rannsóknir sem fram hafa farið gefið ýmsar vísbendingar sem að sumu leyti eru jákvæðar og eins og ég sagði áðan væri það óafsakanleg vanræksla af okkar hálfu að hefjast ekki handa í þessum efnum þegar í stað. Ég treysti því að Alþingi muni líta með velvilja til þessarar þáltill., til þessa máls í heild og jafnframt að ríkisstj. muni hefjast handa um athuganir, kannanir og raunar framkvæmdir á þessu sviði eins og hér hefur verið bent á.